Sveinn Tyrfingsson fæddist 28. janúar 1941. Hann lést 14. janúar 2025.

Útför Sveins fór fram 28. janúar 2025.

Sveinn frændi er nú fallinn frá.

Ég man eftir Sveini frá því ég fór að muna eitthvað eftir mér og hann var alltaf á Víbbanum eins og hann var kallaður og oft fengum við fjölskyldan far ef einhver viðburður var í ættinni.

Sveinn var ótrúlega mikill hugsuður og ég man að trúlega í kringum 1970 þá var hann oft að skoða kort af Hornströndum til að finna einhvern stað sem væri gott að flytja á en það var einhver ævintýraþrá sem bjó í honum og fékk útrás í ýmsu á lífsleiðinni.

Hann ferðaðist um hálendið þegar brýr voru ekki á farartálmum eins og Tungnaá og Köldukvísl og þá var farið á vaði yfir þessar ár.

Ég fór með Sveini þegar hann fór að bjarga síðasta bátnum sem var notaður til að ferja kindur yfir Tungnaá við Hald.

Þá var farið yfir Köldukvísl á Trippavaði, síðan niður Búðarháls niður fyrir kláfinn og þar var báturinn, hann var settur á heyvagn og síðan haldið áfram með Tungnaá á Sultartanga og þar var farið yfir hana á Tangavaði sem var skammt frá ármótum við Þjórsá en er ekki lengur til eftir að Sultartangalónið kom til sögunnar.

Einnig fór ég með Sveini yfir Hófsvað á Tungnaá sem þótti ekki á færi nema kunnugra að fara.

Sveinn var útsjónarsamur í framkvæmdum sem hann kom að og lék allt í höndunum á honum. Mikið lærði ég af að umgangast hann og er eitt dæmi þegar hann byggði hlöðu úr stálgrind trúlega kringum 1977 og við bræður hjálpuðum til.

Hann fór til Reykjavíkur ásamt Óla bróður til að sækja stálbitana á Víbbanum með heyvagn og gastæki ásamt skapalóni sem hann smíðaði svo hægt væri að skera bitana á planinu hjá Sindra í réttar lengdir fyrir sperrurnar og þá komst allt fyrir á heyvagninum. Þegar heim var komið pössuðu öll snið til að sjóða allt saman.

Þegar húsið var reist var krani til að hífa steypuna í sökklana og byrjaði hann á að snúa öllum sperrunum við til að sjóða þær saman á hinni hliðinni meðan steypt var undir þær. Síðan voru þær hífðar á sinn stað, steyptar niður og gekk þetta allt á einum degi.

Sveinn fór í áratugi sem trússari við smalamennskur á Holtamannaafrétt og þekkti þar flest kennileiti.

Eina ferð fór ég með Sveini á þær slóðir að vetri, allt á kafi í snjó, til að skoða hugsanleg vegstæði fyrir heilsársveg um Sprengisand. Þá nutum við fróðleiks um örnefni og kennileiti sem ekki allir vita um.

Ég fór eina veiðiferð með Sveini og félögum í veiðifélaginu sem voru að veiða í Kvíslaveitulóninu fyrir hrognatöku til að sleppa í vötnin fyrir veiði framtíðar.

Sveini var mikilvægt að halda í afréttinn og nýta það sem náttúran hafði að bjóða upp á án þess að ganga á auðlindina.

Sveinn var bóndi með kýr og kindur en hugurinn var víðar og fór hann út í ferðaþjónustu á hálendinu við Stóraver á þeim tíma sem það var ekki stór iðnaður og rak í mörg ár, og síðar hálendismiðstöðina í Hrauneyjum.

Síðustu árin voru notuð í smíði á ýmsum hlutum úr timbri sem var rennt til og þar var margt smíðað og síðan var komið með þessa gripi á ættarmót og máttu allir taka það sem þeir vildu með sér heim.

Votta Jórunni og fjölskyldu mína dýpstu samúð.

Tyrfingur K. Leósson.