Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir fæddist 21. júlí 1932. Hún lést 6. janúar 2025.
Útför fór fram 21. janúar 2025.
Amma Guðrún og afi Steini voru okkur eins og aukasett af foreldrum þegar við vorum litlir. Þau pössuðu okkur, litu eftir okkur og gáfu okkur að borða eftir skóla og fóru með okkur í sund og ísbúð um helgar.
Við munum vel eftir ömmu þegar hún var upp á sitt besta. Hún prjónaði peysur á okkur, bakaði fyrir okkur og sinnti garðyrkjustörfum í blómabeðinu þeirra hjá blokkinni á Fornhaganum. Við vorum vissir um að hún ætti marga vini, því hún talaði klukkustundum saman í símann og ef hún hafði engan viðmælanda talaði hún bara við sjálfa sig. Við eigum góðar minningar af því að hlera löngu símtölin hennar úr öðrum síma og koma upp um okkur með því að springa úr hlátri, sem henni þótti líka mjög sniðugt. Hún hélt okkur líka uppteknum með nammiáti, feluleikjum og sögum sem hún spilaði af kassettum í kassettuspilaranum þeirra.
Þegar við vorum aðeins eldri tóku amma og afi upp á því að halda vikuleg kaffiboð á sunnudögum, þar sem amma bauð upp á heimabakað bakkelsi og kaffi. Eftir að afi dó hélt amma þessari hefð áfram í mörg ár á meðan hún gat. Hún átti margar góðar stundir og minningar af Fornhaganum og því er ekki að furða að hún hafi verið þrjósk þegar kom að því að flytja þaðan á hjúkrunarheimili, þrátt fyrir að eiga erfitt með stigann í blokkinni, enda hafði hún búið þar lengur en nokkur annar íbúi.
Amma lifði löngu og góðu lífi og var að eigin sögn orðin „hundgömul skjóða“. Henni þótti gaman að rifja upp sögur úr æsku okkar bræðranna, og ein þeirra kom upp oftar en aðrar. Það var þegar hún kom að Steina, þriggja eða fjögurra ára, sem hélt á fallegum glerfugli sem var til skrauts í stofunni. Þá kallaði hún hátt á afa: „Steini!“, en við það brá litla Steina svo mikið að hann missti fuglinn í gólfið þannig að hann brotnaði. Þá sagði Siggi við ömmu sína, Steina bróður sínum til varnar: „Amma, þú ert bölvaður dóni!“ Þessa sögu rifjaði amma oft upp og hló mikið í hvert einasta skipti.
Fráfall ömmu Guðrúnar lokar góðum kafla í okkar lífi og við erum þakklátir fyrir stundirnar sem við áttum með henni og afa Steina.
Björn Orri, Sigurður Finnbogi og Þorsteinn Sæmundssynir.