María Theódóra Jónsdóttir fæddist 28. apríl 1938. Hún lést 6. desember 2024.
Útförin fór fram 16. desember 2024.
Ef maður veitir þvi athygli er Mogginn um þessar mundir daglega fyllri af minningargreinum en oft var. Eftirstríðskynslóðin, sem betur lifði bernskuna af en margar undan gengnar, er nú sem óðast að safnast til feðranna.
Árið 1952 stóðum við 7 talsins við gráturnar í Flateyjarkirkju og okkar ágæti prestur Lárus Halldórsson tók við staðfestingu okkar á skírnarheitinu. Þetta var ekki fámenn ferming, ekki fjölmenn heldur, oft fyrr var fermingarhópurinn stærri en síðar trúlega oftast minni.
Af þessum 7 erum við nú 2 eftir á lífi. Við Mæja í Látrum vorum frá upphafi samrýnd og gátum alltaf á uppvaxtarárunum verið hvort annars trúnaðarvinir. Sá trúnaður gekk að vísu út í öfgar í kjaftæði milli samliggjandi borða í Flateyjarskóla og okkar eftirminnilegi kennari Gestur Gestsson þurfti að byrsta sig. Þetta var síðasti vetur okkar í skólanum og fyrsti veturinn sem ekki var skóli í Inneyjum eftir áramót. Síðan eru liðin 70 ár og afkomendur beggja eru stór hópur sem þekkist takmarkað innbyrðis, svo sem gengur í þjóðfélögum nútímans.
Um árabil þegar við bæði áttum okkar fjölskyldur var Mæja oft með sína fjölskyldu í Látrum stóran hluta úr sumri, til stuðnings foreldrum hennar rosknum. Einsemdartilfinningin við þær aðstæður, þegar flestir voru frá, læknaði hana alveg af þeim grillum að taka við búsetunni. „Grillur“ kallaði hún það sjálf. Hafi þær þá nokkrar verið? Á þeim árum bjó hún þeim vetrarbúsetu heima hjá sér í Garðabæ. Þar varð athvarf þeirra eftir að fastri búsetu þeirra og búskap lauk í Látrum.
Við gátum alltaf ræðst við. Trúnaður uppvaxtaráranna dó ekki þó að sjálf yrðum við gömul.
Hún var jafnan virk í félagsmálum og ófeimin við skoðanir sínar. Búsett syðra innan um fjöldann var hún hreint ekki afskiptalaus. Um árabil var hún formaður Barðstrendingafélagsins og meiningar hennar komust þar vel til skila. Samstarfsfólk hennar þar vissi vel hver var við stýrið og meiningin hreint ekki lausbeisluð.
Góð er minningin um hreina og trausta vináttu og afdráttarlausa afstöðu án vanmáttarkenndar til mála sem á borð komu.
Afkomendum hennar bið ég blessunar í nafni hennar.
Jóhannes Geir Gíslason.