— Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svo mikil fækkun hefur orðið í fálkastofninum undanfarin ár að líkja má við hrun og sýna niðurstöður talninga á Norðausturlandi að varpstofninn hefur ekki verið minni frá því að farið var að vakta stofninn árið 1981

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Svo mikil fækkun hefur orðið í fálkastofninum undanfarin ár að líkja má við hrun og sýna niðurstöður talninga á Norðausturlandi að varpstofninn hefur ekki verið minni frá því að farið var að vakta stofninn árið 1981. Þá var viðkoma fálkans á síðasta ári sú slakasta frá því að mælingar hófust. Hefur varpstofn fálkans minnkað um 45% frá árinu 2019. Þetta kemur fram á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands, þar sem segir m.a. að skýringanna sé að leita í auknum afföllum í stofninum fremur en í viðkomubresti og segir Ólafur K. Nielsen vistfræðingur, sem sinnt hefur fálkarannsóknum hér á landi undanfarna áratugi, að skýringanna sé að leita í fuglaflensu sem herji á íslenska fálkann.

„Fuglaflensa er eina skýringin sem við getum komið með á þessum tímapunkti,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið og segir að ástæða sé til að hafa áhyggjur af fálkastofninum til framtíðar.

Tegund í bráðri hættu

Hann segir að fálkastofninn sé nú kominn niður í nokkur hundruð fugla og hafi ungfuglarnir orðið sérstaklega illa úti.

Verndarstaða íslenskra fuglastofna er tiltekin á válista sem Náttúrufræðistofnun heldur utan um, en listinn er að alþjóðlegri fyrirmynd. Listinn var síðast uppfærður árið 2018 og var fálkinn þá skilgreindur sem tegund í nokkurri hættu og var það vegna lítillar stofnstærðar. Var fálkinn flokkaður með fleiri tegundum, eins og himbrima, fjallkjóa og fleiri fuglategundum. Segir Ólafur að nú sé válistinn til endurskoðunar; verður fálkinn nú skilgreindur sem tegund í hættu og er það gert vegna þróunar stofnsins undanfarin fimm ár. Skilgreiningin „tegund í hættu“ er næsthæsta skilgreiningin yfir hættuástand fuglastofna á válistanum.

„Fálkinn á örugglega heima í flokki tegunda í hættu, ef ekki tegunda í bráðri hættu,“ segir Ólafur, en bráð hætta er efsta stig á válistanum.

Fjöldi varppara fálkans sé að líkindum kominn niður í 150 til 200 pör nú, en var á bilinu 300 til 400 pör þegar stofnstærðin var metin síðast.

„Kynþroskafuglarnir eru bundnir við sín óðöl og margir þeirra eiga heima inni í landinu og eru þar árið um kring. Þeir sækja þar í rjúpur og aðra fugla sem þeir ná. Í upphafi voru það einkum sjófuglar sem voru að drepast úr fuglaflensu,“ segir Ólafur, en ungfálkar leiti meira í slíkt æti en fullorðnir fálkar og ekki síst þegar bráðin er dauð eða deyjandi.

„Rjúpa er aðalfæða fálkans og ástand rjúpnastofnsins er ekki skýringin á því hvernig komið er fyrir fálkanum, enda engin rjúpnaþurrð nú um stundir,“ segir Ólafur.

Stórir árgangar 2018 og 2019

Árin 2018 og 2019 klöktust úr eggjum stórir árgangar hjá fálkanum og hefðu átt að skila sér í varpstofninn 2 til 4 árum síðar sem kynþroska fuglar. Var árgangurinn 2018 sá stærsti frá upphafi mælinga 1981.

„Við bjuggumst við að sjá þá fugla í varpstofninum 2020 til 2022, sem gerðist ekki. Frá árinu 2020 hefur leiðin legið skarpt niður á við,“ segir Ólafur og nefnir að þegar hann hafi farið til fálkatalninga norður í land 2023 hafi blasað við að eitthvað óvenjulegt hafi verið að gerast, mörg óðöl ósetin og óðalsfuglarnir horfnir. Fálkaóðölin eru hefðbundin og notuð af kynslóð eftir kynslóð.

„Þessi þróun hélt áfram í fyrra og hafa síðustu tvö árin verið mjög óvenjuleg og úr fasa miðað við það sem áður var,“ segir hann.

Með farfuglum vorið 2021

Sem fyrr segir er tilgátan sú að hina miklu fækkun fugla í fálkastofninum megi rekja til fuglaflensufaraldursins sem hófst árið 2020 og sér ekki enn fyrir endann á. Faraldurinn hófst á Bretlandseyjum að hausti það ár og var þá staðfest smit í fjölda fuglategunda, þar á meðal heiðagæsa og grágæsa, en íslenskar gæsir af þeim tegundum eiga vetursetu á Bretlandseyjum. Er öruggt talið að fuglaflensan hafi borist til Íslands með farfuglum vorið 2021, en þá um vorið fundust tugir dauðra heiðagæsa suðaustanlands, bæði á reki úti á sjó og einnig reknar á fjörur. Þetta ár hófst fækkun fálka og er líklegasta smitleiðin inn í stofninn talin vera þegar fálkar hafa étið flensusýkta fugla.

Rannsóknarsvæði fálkans á Norðausturlandi er 5.300 ferkílómetrar að stærð og eru 88 óðöl skráð á svæðinu. Eru það um 14% af þekktum óðölum fálka á Íslandi. Sumarið 2024 voru öll óðölin utan eitt heimsótt og kom þá í ljós að 30 óðöl voru setin og ábúðarhlutfallið því einungis 34%.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson