Birta Hannesdóttir
Iðunn Andrésdóttir
Kennarar og börn í 21 grunn- og leikskóla á landinu snúa aftur til skóla í dag í kjölfar þess að Félagsdómur dæmdi verkföll Kennarasambands Íslands (KÍ) í öllum skólum, nema einum, ólögmæt í gær.
Niðurstaða dómsins er sú að verkföllin eru ólögleg í þeim grunn- og leikskólum þar sem ekki voru greidd atkvæði af öllum félagsmönnum í sveitarfélaginu. Eina verkfall KÍ sem var ekki dæmt ólögmætt var í leikskólanum í Snæfellsbæ, þar sem um er að ræða eina leikskólann í sveitarfélaginu. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, segir niðurstöðu Félagsdóms hafa komið sér á óvart. Hann kveðst munu fara yfir næstu skref í málinu með sínu fólki auk þess sem hann muni funda með lögfræðingum Kennarasambandsins.
Spurður hvort gera megi ráð fyrir allsherjarverkföllum í grunn- og leikskólum á næstunni kveðst Magnús ekki vera kominn svo langt. Félagsdómur setji það þó skýrt fram í dómi sínum að verkfall sé heimilt ef það nái yfir alla grunn- og leikskóla tiltekins sveitarfélags eins og í Snæfellsbæ.
Ánægð með dóminn
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir niðurstöðuna vera þá sem þau óskuðu eftir.
„Þetta er auðvitað niðurstaðan sem við vorum að vonast eftir og fengum okkar afstöðu staðfesta,“ segir hún. Inga telur dóminn ekki hafa áhrif á samningaviðræður SÍS og KÍ.
„Ég veit ekki af hverju það ætti að gera það. Við erum í fullum rétti að leita réttar okkar eins og Kennarasambandið gerir líka. Það er því bara mikilvægt að fá leyst úr ágreiningsmálum fyrir Félagsdómi. Ég sé ekki af hverju fólk ætti ekki að geta samþykkt það,“ segir Inga spurð um hvort niðurstaðan muni hafa áhrif á samningaviðræðurnar.
Magnús segir ljóst að kjaradeilan verði ekki leyst fyrir dómstólum heldur sé mikilvægt að halda áfram að reyna ná nýjum kjarasamningum. Boðað hefur verið til fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan níu í dag og munu kjaraviðræður halda áfram.