Símon Ingi Kjærnested fæddist 18. febrúar 1945. Hann lést 9. janúar 2025

Útförin fór fram 16. janúar 2025.

Góður vinur okkar er fallinn frá. Það er mikill missir og sorg hjá öllum sem þekktu Símon og hans miklu mannkosti. Elínborg, Ella eins og við vinkonunnar köllum hana, er mín allra besta vinkona. Einu sinni vorum við á leið í ferðalag, þá segir Ella: „Ég get bara alls ekki farið.“ „Nú? Hvað er að?“ sagði ég. „Ég er svo óskaplega ástfangin,“ sagði hún. Þetta var hann Símon sem hún hafði kynnst sem skiptinema í Bandaríkjunum, en þar voru þau bæði á vegum AFS í eitt ár. Ástin blómstraði hjá þeim í rúmlega 60 ár. Símon veiktist alvarlega rétt fyrir jól og hans lífsgöngu lauk 9. janúar síðastliðinn. Símon lærði endurskoðun og þegar fram liðu stundir varð hann endurskoðandi okkar Einars. Ég held að þetta starf sé aldrei vinsælt af skjólstæðingum, en hans vönduðu vinnubrögð og öll aðkoma, útskýringar, röð og regla á öllum sviðum varð til þess að hann varð okkur algjörlega ómissandi í því starfi.

Þegar maður lítur yfir farinn veg og hugsar til uppeldis þriggja sona þeirra þá sýndi hann sína færni eins og í endurskoðun forðum daga. Fylgdi þeim eftir í öllu þeirra námi og hvatti þá til dáða endalaust. Hann uppskar líka ríkulega því þessir drengir eru allir afburðamenn, hver á sínu sviði. Sá elsti stofnaði eitt stykki olíufélag, takk fyrir! Ég held að faðir hans hafi verið góður ráðgjafi í því verkefni eins og öllum öðrum. Símon var svo ráðinn stjórnarformaður fyrirtækisins og þá vissi maður að Atlantsolía var í öruggum höndum.

Þegar Símon og Ella fóru í frí þá var farið út á sjó. Helsta áhugamál Símonar var sjómennska. Hann átti ekki langt að sækja þann áhuga, því Guðmundur Kjærnested, sá mæti maður, var faðir hans. Það var dýrmætt að eiga hann að þegar þorskastríðið geisaði. Símon átti góðan bát. Það var hans líf og yndi að sigla. Það var eins og hann breyttist í annan mann þegar hann var á sjó og hann naut hverrar einustu mínútu þar. Við Einar fórum ekki varhluta af siglingunum. Við sigldum oft með Ellu og Símoni. Það voru dásemdartímar. Við sigldum oft um Breiðafjörðinn og fórum út í eyjarnar þar. Símon þekkti hvern einasta fugl og fræddi okkur líka um eyjarnar, dúntekju og fleira. Hann veiddi oftast í matinn og þekkti fiskimiðin eins og handarbakið á sér. En spurningin var stundum: „Hvað viljið þið fá í matinn? Má bjóða ykkur þorsk eða ýsu?“ Þegar ég hugsa til þessara tíma þá er þetta eins og fallegur draumur.

Síðastliðið haust var Símon að láta lagfæra ýmislegt í húsinu og þá spurði ég hann: „Er ekki bara kominn tími fyrir ykkur að flytja í íbúð?“ Hann brást illa við og svaraði: „Ég fer aldrei úr þessu húsi!“ Hann var alveg einstaklega umhyggjusamur og þegar erfiðleikar steðjuðu að hjá okkur var hann fljótur að koma með sínu ljúfa fasi og gaf okkur styrk.

Guð blessi þig og varðveiti þig kæri vinur!

Kristín Árnadóttir og Einar Sindrason.