Ingveldur Anna Sigurðardóttir
Staða heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi er vægast sagt dapurleg og mætti jafnvel líkja henni við eyðimörk. Á svæðinu búa mörg þúsund manns ásamt öllum þeim fjölda ferðamanna sem leggja leið sína um svæðið á degi hverjum. Ástandið er óviðunandi hvert sem litið er. Það er ákaflega aðkallandi að heilbrigðisráðherra geri sem fyrst bragarbót á aðgengi íbúa svæðisins að heilbrigðisþjónustu. Suðurlandið á ekki að þurfa að bíða lengur.
Því skal haldið til haga að íbúar Suðurlands gera ekki kröfu um að geta nálgast mjög sérhæfða heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, heldur vill fólk geta sótt sína grunnþjónustu þar, ekki á Selfoss eða alla leið í borgina. Þess eru dæmi að íbúar þurfi að ferðast langar vegalengdir til að nálgast sýklalyf.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra ályktaði um stöðuna á fundi sínum í upphafi árs. Þar kom meðal annars fram að sveitarfélagið hefði ítrekað reynt að liðka fyrir mönnun lækna í héraðinu. Það hafi til að mynda verið gert með því að bjóða upp á húsnæði og leikskólapláss. Þá áréttaði sveitarstjórnin að núverandi staða og óvissa varðandi mönnun lækna á svæðinu væri óboðleg íbúum og gestum sveitarfélagsins.
Ljóst er að heilbrigðisráðherra þarf tafarlaust að stíga inn með afgerandi hætti. Ástandið hefur fengið að ganga of langt. Ekki þarf að leita langt yfir skammt eftir lausnum sem virka, raunar þarf ekki að leita út fyrir kjördæmið. Á Suðurnesjum hefur einkarekin heilsugæsla gefið góða raun, létt álagi af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og það sem meira er – fólk er almennt ánægt með þjónustuna.
Ég óska eftir því að yfirvöld sinni sínu hlutverki gagnvart íbúum Suðurlands og leysi þennan vanda.
Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.