Stígur Sæland garðyrkjubóndi fæddist19. ágúst 1949. Hann lést 7. janúar 2025.
Útför hans fór fram 18. janúar 2025.
Við fráfall föður míns reikar hugurinn ósjálfrátt til æskuáranna hér í Reykholti í Biskupstungum, þar sem voru mörg börn og gaman var að alast upp.
Faðir minn ólst upp á Espiflöt þar sem foreldrar hans höfðu byggt upp garðyrkjustöð og fór hann fljótt að vinna og hjálpa til. Á unglingsárum hafði hann áhuga á ljósmyndun, átti myndavél og allar græjur til þess að framkalla myndirnar sjálfur. Pabbi var duglegur og stöðugt að og árið 1977 var stofnað félagsbú á Espiflöt, þar sem foreldrar mínir, afi og amma og Sveinn og Áslaug voru eigendur.
Faðir minn var ágætis sundmaður og keppti oft fyrir UMF. Bisk., einnig var hann í nefndum og var varamaður í húsnefnd Aratungu. Er móðir mín tók að sér sundlaugarvörslu í Reykholtslaug á árunum 1981 til 1986 sá pabbi um viðhaldið og annað.
Faðir minn var formaður í íbúafélaginu í hverfinu sem hafði það markmið að girða hverfið af fyrir lausagangi búfjár, einnig að tína rusl og planta trjám. Pabbi lét sig samfélagið varða og vildi ávallt leggja góðum hlutum lið.
Árið 1987 urðu breytingar á félagsbúinu og foreldrar mínir byggðu garðyrkjustöðina Stórafljót og fóru að rækta blóm. Faðir minn lagði mikla áherslu á að rækta fallegar og vel byggðar rósir enda voru þær annálaðar fyrir sterkleika og fegurð. Það má segja að garðyrkjustöðin hafi verið félagsmiðstöð því kaffitímarnir voru oft þéttsetnir. Þar man ég eftir Linda í Dalsmynni, Hauki Daða, Gúlla á Brú, Einari í Kjarnholtum og mörgum fleirum. Faðir minn var mikil félagsvera og hafði gaman af því að hitta fólk og spjalla enda báru kaffitímarnir þess merki.
Hér áður fór pabbi oft til rjúpna og í gæsaveiði. Við bræðurnir ólumst upp við að fara með honum sem var algjört ævintýri og í jólamatinn voru rjúpur og sunnudagssteikin var gæs. Sumarferðirnar austur á Vopnafjörð og norður á Dalvík voru ævintýri í þá daga og hafði pabbi mjög gaman af þeim ferðum og naut sín vel. Við fórum til að hitta ömmu í móðurætt og Heimi og Valborgu systur mömmu og þarna var gaman að vera með pabba.
Eftir að foreldrar mínir skildu rak faðir minn garðyrkjustöðina áfram. Árið 2005 urðu svo breytingar á eignarhaldi og hann hætti rekstri, það voru þung skref að taka fyrir hann. Hann greindist með parkinsons árið 2009 og svo fór, að hann flutti á dvalarheimilið að Ási í Hveragerði árið 2017. Ég vil færa starfsfólkinu á Ási kærar þakkir fyrir einstaka umönnun og hversu vel er hugsað um fólk þar.
Til gamans má geta að á árunum 1999 til 2002 tókst föður mínum að kynna fyrir okkur allmargar konur og við þurftum að hafa okkur alla við. Í fimmtugsafmæli föður míns varð Sveini bróður hans svo að orði:
Hann Stígur er stæltur strákur
hann stendur hjá stelpunum kátur
en þegar hann er
alls orðinn ber
hann engum er eftirbátur.
Þar með kveð ég föður minn og þakka honum lífshlaup mitt og segi takk fyrir allt og allt, elsku pabbi.
Sigurjón Sæland.