Nansý Guðmundsdóttir fæddist 26. júlí 1976 í Reykjavík. Hún lést 25. janúar 2025.
Foreldrar hennar eru Guðmundur Bjarnason, f. 1938, og Helga Engilbertsdóttir, f. 1947, d. 2019. Bróðir Nansýjar er Bjarni Jóhann, f. 1973, kvæntur Berglindi Júlíu Valdimarsdóttur, f. 1975.
Nansý giftist þann 5. júní 2015 Gísla Sigmundssyni, f. 9. júlí 1973 í Reykjavík. Börn þeirra eru: Bjargey Anna Gísladóttir, f. 1992, Lilja Ýr Víglundsdóttir, f. 1994, Bjarni Jóhann Ingvarsson, f. 1998, og Ýmir Ingvarsson, f. 2005. Nansý og Gísli eignuðust fimm barnabörn.
Nansý var með BA-próf í félagsráðgjöf og var í námi í Háskóla Íslands í Mið-Austurlandafræðum. Hún starfaði á velferðarsviði Reykjavíkurborgar með flóttafólki og hælisleitendum. Nansý kom einnig að rekstri og skipulagningu nokkurra tónlistarhátíða svo sem Eistnaflugs og Reykjavík Metalfest og var einn af stofnendum og eigendum tónlistarhátíðarinnar Sátunnar í Stykkishólmi.
Útför Nansýjar fer fram í Iðnó í Reykjavík í dag, 10. febrúar 2025, klukkan 16. Streymt verður frá útförinni: https://www.youtube.com/live/T-953SPOQME
Í dag kveðjum við yndislega tengdadóttur okkar, Nansý Guðmundsdóttur, sem varð bráðkvödd laugardaginn 25. janúar, aðeins 48 ára gömul.
Nansý kom inn í líf okkar fyrir tæpum sextán árum þegar þau Gísli fóru að stinga saman nefjum. Fjölskyldan stækkaði þá heldur betur, þar sem við fengum þrjú barnabörn í kaupbæti. Fljótlega kom í ljós að Nansý var kjarnakona, hún var meðlimur í björgunarsveit á þessum tíma og eftir að Ófeigur hitti hana á leið að gosinu á Fimmvörðuhálsi sannfærðist hann um að hér væri kona sem léti sér ekki allt fyrir brjósti brenna.
Allt lék í höndunum á henni. Hún stundaði nám í félagsráðgjöf og þegar kom til tals að flytja til Svíþjóðar bætti hún við sig sænskunámi, svona til að undirbúa sig. Allt gert með stæl. Fjölskyldan flutti svo til Trelleborg í Svíþjóð árið 2014, með börnin og gæludýrin. Þar komu þau sér vel fyrir og það var einstaklega gaman að heimsækja þau og sjá hve vel þau höfðu aðlagast sænsku samfélagi. En Ísland togaði í börnin og þegar þau voru flest flutt aftur heim ákváðu Nansý og Gísli að nú væri kominn tími til að segja skilið við Svíþjóð. Og heimferð var ákveðin í byrjun árs 2021.
Nansý fékk fljótt vinnu á sínu sviði og kom því heim á undan Gísla. Við vorum svo heppin að fá að hafa hana hjá okkur í nokkra mánuði. Hún kom sér fyrir í einu barnaherberginu og gekk eftir það undir nafninu „unglingurinn okkar“. Sambúðin gekk glimrandi vel og við kynntumst Nansý á nýjan hátt og satt að segja gekk svo vel að við hefðum gjarnan viljað hafa hana áfram. Hún var snögg að sjá í gegnum grímuna mína og við skemmtum okkur við að svara gátlistum um einhverfu. Og svo var það súrdeigsbaksturinn.
Hún var aldeilis ekki aðgerðalaus á þessum tíma, vann fulla vinnu, ferðaðist um á rafmagnshlaupahjóli í hvaða veðri sem var og það þurfti að leggja hart að henni að þiggja skutl. Hún sýndi þvílíkan dugnað og fyrirhyggju þegar hún keypti íbúð hjá Búseta, svo þegar Gísli flutti heim með búslóð og köttinn Púka beið þeirra ný íbúð. Þá kom vel í ljós hve vinamörg þau voru því sjaldan hef ég séð svo marga mæta til aðstoðar við flutninga.
Nansý bætti síðan við sig námi í arabísku og Mið-Austurlandafræðum sem hún hafði mikinn áhuga á, og nýttist þessi þekking afar vel í starfi hennar sem fulltrúi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún var dugnaðarforkur bæði í starfi og einkalífi. Vann fulla vinnu, var í háskólanámi, sinnti börnum og barnabörnum, eldaði kræsingar og bakaði súrdeigsbrauð og ekki má gleyma Lulu, nýjustu viðbótinni við fjölskylduna, litlu Schnauzer-tíkinni sem allir hrifust af. Nansý hafði alltaf nægan tíma, var afar bóngóð og gott að leita ráða hjá henni þar sem hún var glöggskyggn og fljót að komast að kjarna mála.
Og nú syrgjum við einstaka konu sem átti svo margt ógert og fór allt of snemma. Hugur okkar er sérstaklega hjá Gísla og börnum þeirra; Bjargeyju Önnu, Lilju Ýri, Bjarna Jóhanni og Ými, missir þeirra er mestur.
Elsku Nansý okkar, þín verður sárt saknað.
Bjargey og Ófeigur.