Sigrún Stefanía Valdimarsdóttir fæddist 7. júní 1950. Hún lést 15. janúar 2025.

Útför hennar fór fram 24. janúar 2025.

Við andlát og útför Sigrúnar Stefaníu koma upp í huga orð skálds Gamlatestamentisins: Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp Og skáldið svarar spurningu sinni: Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. (Davíðssálm. 121)

Ég minnist þess þegar Sigrún var eitt sinn stödd hjá okkur hjónum á Eskifirði að sumri til. Þá greip hana óstöðvandi þrá til þess að ganga upp á Hólmatindinn, fjallið gegnt byggðinni.

Hún renndi augum upp eftir fjallinu og sótti það fast að fá mig til að slást með í þá för. Ég lét tilleiðast enda erfitt að standa gegn henni þegar hún var annars vegar. Hún valdi ekki auðveldustu leiðina, heldur nánast þá erfiðustu og varð ekki hnikað.

Lagt var af stað og í ákefð sinni var hún komin nokkuð vel á undan mér. Ofarlega í fjallinu voru lóðréttir hamraveggir og hætta á að komast í ógöngur eða sjálfheldu. Ég bað hana að snúa við.

Sigrún var skynsöm þótt undir niðri hafi henni ef til vill fundist ég ekki nógu kjarkaður til að fylgja henni alla leið upp. Þessi reynsla minnir við þetta tilefni á ógöngur lífsins.

Skáldið var komið í sjálfheldu, hóf augu sín til fjallanna og spurði: Hvaðan kemur mér hjálp? Og svaraði: Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Sigrún þráði eins og við öll að vera elskuð, virt og metin. Ein staðfestingin á slíku var hlýtt faðmlag af þéttari gerðinni. „Davíð,“ sagði hún gjarnan þegar við kvöddumst. „Faðmaðu mig nú almennilega.“

Það var auðsótt. En ef til vill var faðmlagið hvorki nógu langt né nógu þétt.

En hennar faðmlag var hins vegar nógu þétt og langt fyrir synina, ekki aðeins í bernsku heldur allar götur. Hún elskaði þá sannarlega, virti og mat með sínum hætti. Ekkert til sparað. Enda ríkulega endurgoldið. Þeir urðu stóri, sterki og hlýi faðmurinn sem umfaðmaði hana ekki síst þegar fauk í skjólin. Sú vakt staðin til enda af miklum kærleika og það þakkarvert.

Og svo myndin sem vinkonur hennar, Inger og Sigurlaug, drógu upp þegar þær heimsóttu Sigrúnu í herbergi hennar á Hrafnistu degi fyrir andlátið.

Synir hennar höfðu gert herbergið svo vistlegt með því að koma þar fyrir ýmsum hlutum sem hún átti.

Þær vinkonurnar höfðu meðferðis fallega rauða peysu enda henni eiginlegt að dúða sig vel, gjarna í þykkri peysu og úlpu, með stóran trefil. En þær náðu engu sambandi og skildu við hana þar sem hún lá þarna meðvitundarlaus ein síns liðs. Eða var það svo?

Skáld Gamlatestamentisins segir í 139. Davíðssálmi: Drottinn þú umlykur mig á bak og brjóst og hönd þína hefur þú lagt á mig.

Guð hafði ekki eina andrá vikið frá Sigrúnu fremur en okkur. Hann hélt henni þétt í örmum sér og þegar lífsklukkan rann út tók hann hana í fangið og bar hana til síns heima, í ljósanna hásal, á fjallatindinn þar sem útsýnið nær til allra átta. Í fögnuði Guðs dvelur hún, með sinn dillandi hlátur eins og svo oft áður, segjandi skondnar og skemmtilegar sögur af drengjunum sínum og þeim sem hún unni mest.

Öllum aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Kæra vinkona. Far þú í friði. Friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Davíð Baldursson.