Aldís Elisabeth Friðriksdóttir fæddist í Kaupmannahöfn 10. desember 1932. Hún lést á sjúkrahúsinu á Húsavík 27. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Gertrud Friðriksson, fædd Nielsen, kennari og organisti f. 1902 d.1986 og Friðrik A. Friðriksson, prófastur á Húsavík f. 1896, d.1981. Systkini Aldísar eru Björg Friðriksdóttir, f. 1926, d. 2024, Örn Friðriksson, f. 1927, d. 2016 og Birna Friðriksdóttir f. 1938.

Eiginmaður Aldísar var Páll Þór Kristinsson framkvæmdastjóri á Húsavík, f. 1927, d. 1973. Foreldrar hans voru Kristinn Jónsson kaupmaður á Húsavík f. 1895, d. 1950 og Guðbjörg Óladóttir f. 1896 d. 1960.

Börn Aldísar og Páls Þórs eru: 1) Geirþrúður hjúkrunarfræðingur f. 1957, maki Borgþór Magnússon, líffræðingur, f. 1952, börn þeirra eru Eyþór Óli, f. 1995, Arnlaug, f. 1976, og Höskuldur f. 1978. Barnabörnin eru sjö. 2) Guðbjörg hjúkrunarfræðingur f. 1961, maki, Sverrir Guðmundsson hljóðfærasmiður, f. 1962, börn þeirra eru Rebekka, f. 1992 og Sverrir Páll, f. 1992. 3) Ari Páll mannfræðingur, f. 1964, maki Harpa Halldórsdóttir viðskiptafræðingur, f. 1959, börn hans eru Aldís, f. 1991, og Máney, f. 1998. Börn Hörpu eru Berglind Júdith, f. 1976, og Halldór Óli, f. 1989. Barnabörn hennar eru fimm. 4) Sonur Páls Þórs fyrir hjónaband er Sigurjón Pálsson hönnuður f. 1950, maki Katla Leósdóttir, f. 1948, sonur þeirra er Páll Þór f. 1986.

Aldís ólst upp á Húsavík. Hún varð stúdent frá M.A. 1951. Þaðan lá leiðin í Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist 1954. Hóf hún þá störf við Sjúkrahús Húsavíkur. Árin 1960 – 1961 bjuggu þau hjón í Reykjavík en fluttu aftur til Húsavíkur haustið 1961 þegar þau tóku þátt í stofnun Öskju hf., verslunar- og þjónustufyrirtækis, en Páll Þór var framkvæmdastjóri þess til æviloka.

Árið 1971 fór Aldís til framhaldsnáms í heilsugæsluhjúkrun í Osló og 1976-1977 lagði hún stund á meistaranám í hjúkrun í Manchester. Hún lauk Hjúkrunarkennaranámi frá KHÍ 1979 og tveggja ára Stjórnunarnámi 1986. Aldís starfaði við hjúkrun með hléum á Húsavík frá 1955 til 1977.

Páll Þór féll frá árið 1973. Aldís var þá fjörutíu ára gömul og börnin þrjú á grunnskólaaldri. Árið 1977 fluttist Aldís ásamt börnum sínum til Reykjavíkur þar sem hún var kennari við Hjúkrunarskóla Íslands til 1986 auk þess sem hún var hjúkrunarfræðingur við Landspítalann og starfaði á heilsugæslustöðvum, síðast sem hjúkrunarforstjóri á heilsugæslustöðinni við Álftamýri.

Árið 1987 fluttist Aldís aftur til Húsavíkur og var hjúkrunarforstjóri við Sjúkrahúsið á Húsavík til starfsloka. Aldís tók virkan þátt í kórastarfi alla tíð. Hún var í kirkjukór Húsavíkur og kirkjukór Bústaðakirkju meðan hún bjó í Reykjavík. Síðast söng hún með kór eldri borgara á Húsavík. Hún var virk í leikfélagi Húsavíkur, einnig var hún meðlimur í Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og sótti fundi bæði innanlands og erlendis.

Útför Aldísar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 10. febrúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 14.

Sómakonan Aldís Friðriksdóttir er kvödd í Húsavíkurkirkju í dag.

Dídí kynntist ég fyrst að ráði rúmlega tvítugur, við fráfall föður míns, Páls Þórs Kristinssonar, eiginmanns hennar. Við skiptumst á að vera hjá honum síðustu vikur hans á Landakotsspítalanum. Þar urðu mér kostir þessarar gegnheilu og hreinlyndu konu ljósir – móður systkina minna. Með okkur hófst vinátta sem óx og enst hefur síðan.

Hún gerði sér alla tíð far um að efla sambandið milli okkar systkinanna sem aldursmunur á þeim tíma og fjarlægð gerði heldur stopult.

Hún lét mig njóta góðs af frændgarði sínum í Danmörku því þegar ég fór til náms í Kaupmannahöfn gekkst hún í því að ég fengi að búa hjá systrungi sínum, Mik Rancke-Madsen, Birthe konu hans og börnunum; Ullu og tvíburunum Anders og Peter, þar til ég fengi inni á kollegíi. Að vinskap þessa frændfólks hennar bý ég enn en öðlingurinn Mik lést allt of snemma.

Kært varð strax á milli Dídíar og Kötlu konu minnar og með lífshlaupi sonar okkar, Páls Þórs, fylgdist hún vel. Við nánari kynni kom innileiki og notaleg nærvera Dídíar í ljós og lag hennar að láta manni líða eins og heima hjá sér þar sem hún bjó.

Á heimili hennar og pabba réð smekkvísi – og eftir að ilmurinn frá pípu hans hætti að fylla stofur mátti ætíð merkja athafnasemi; körfu með handavinnu í vinnslu, langt komið púsluspil – af stærstu gerð – dönsku blöðin opin á krossgátusíðunum og blýantur hjá.

Þar „duftede“ ætíð heimilislega. Ef ekki af nýlöguðu marmelaði eða heimagerðu „leverpostej“, þá lagði ilminn af gerbollubakstri eða öðru góðgæti með uppruna í kúltúrnum sem hún var sprottin úr – og ég kynntist síðar og kannaðist þá vel við aftur.

Gaman hef ég af því að á heimili systkina minna þekki ég aftur „duften“, sömu siði og sömu notalegheit, sem erfst hafa og innræst.

Dídí var virk í Leikfélagi Húsavíkur og lágu leiðir okkar saman þar einn vetur.

Hún var gædd fágaðri samsetningu húmors; þess græskulausa danska í bland við sagnakennda, húsvíska húmorinn, sem hæversk eftirhermuáhrif – líklega ættuð frá pabba – mátti stundum greina í gegn.

Sögukona var hún góð og kunni urmul gamansagna í bland við fróðleik sem hún fléttaði áreynslulaust inn í samræðunar á góðri stund með fjölskylduna í kring. Þá naut hún sín. Sögunum miðlaði hún af hæversku, oft undir taktföstu klingi prjónanna, ilmi af kaffi sem vatn var sparað í, og skál með heimagerðu konfekti innan seilingar.

Þetta voru hennar stundir.

Ég er þakklátur fyrir þann litríka þráð sem Dídí fléttaði inn í líf mitt, okkar Kötlu og Palla, og konu hans, Tiph, eftir að hún kom til sögunnar, og það kapp sem hún alla tíð lagði á að þétta samskipti okkar systkinanna.

Oftar en ekki, í seinni tíð, kvaddi hún með orðum um hve ánægð hún væri með kært samband okkar systkinanna og einlægnin sem úr augunum skein þá sagði allt um þel hennar til mín og minna.

Blessuð sé minning Aldísar Friðriksdóttur.

Sigurjón, Katla,
Páll Þór og Tiphaine.

Í rauða húsinu hennar ömmu í Höfðabrekkunni var alltaf líf og fjör. Þangað var gott að koma eftir langt ferðalag úr Reykjavík, með nestisstoppi úti í móa. Þá voru dagarnir einfaldir, smurt nesti og langt bílferðalag með nóg af „hver er maðurinn“ og gulur bíll.

Þegar amma tók á móti okkur í Höfðabrekkunni stoppaði tíminn. Hlý uppábúin rúm, alvöru heimilismatur og notalegheit. Það var aldeilis hægt að brasa í Höfðabrekkunni. Teppalagt gólfið var hentugt fyrir ýmiss konar ærslagang og ef maður fór niður gulu steyptu tröppurnar niður í kjallara, jafnvel rennandi á dýnu, var hægt að gramsa og finna merkilega hluti sem tilheyrðu fortíðinni. Stóru trén í garðinum mynduðu fullkomið mark sem var einstaklega heppilegt fyrir unga fótboltakrakka. Garðurinn hallaði reyndar fullmikið, svo að í seinni tíð voru þau notuð fyrir hengirúm þar sem gott var að leggja sig í blíðunni á Mærudögum. Á veturna snjóaði svo mikið að garðurinn breyttist í stóran skafl og gátu ungir ærslabelgir hent sér fram af svölunum langt fram á kvöld.

Stundirnar með ömmu Dídí á Húsavík voru einstaklega ljúfar. Amma var með hlýja og góða nærveru og alltaf stutt í húmorinn. Brandararnir, prakkarastrikin, glottið og hláturinn eru greypt í minnið. Henni fannst gaman að leika sér og ef líkaminn hefði leyft hefði hún komið með okkur á skíði og út að hjóla fyrirvaralaust. Okkur þótti ekki leiðinlegt að fara að Botnsvatni í berjamó. Þar var amma á heimavelli og aðalbláberin tínd í tonnavís. Við tókum líka ósjaldan í spil, þar sem amma kenndi okkur hvern kapalinn á fætur öðrum og þess á milli fékk hún sér engifernammi, sem hún fékk að eiga í friði frá okkur.

Það var þessi sama hlýja sem fylgdi ömmu þegar hún kom suður í heimsókn. Nærvera hennar og glettni gat gert mest óspennandi hluti, eins og að fægja silfur, skemmtilega. Í seinni tíð var meira að segja Gammel Dansk farið að bragðast ágætlega, en bara ef skálað var í það við ömmu.

Amma var með stórt hjarta sem mörg voru svo heppin að fá að kynnast. Hún hafði einstakt lag á því að taka manni opnum örmum svo að hægt var að vera maður sjálfur og vita að aðeins faðmurinn og hlýjan tæki á móti.

Við minnumst elsku ömmu Dídí með þakklæti og söknuði. Við vitum að nærvera hennar og hlýja mun alltaf umlykja okkur við komuna til Húsavíkur.

Eyþór Óli Borgþórsson, Rebekka Sverrisdóttir og Sverrir Páll Sverrisson.

Hún var fædd í Kaupmannahöfn árið sem ófrísk amma Gertrud og eldri börnin tvö, móðir mín Björg og Örn, sigldu frá Ameríku en Friðrik afi varð eftir til að vinna fyrir fargjaldinu. Þetta var í kjölfar kreppunnar miklu. Hún var skírð Aldís Elísabet þegar afi sameinaðist fjölskyldunni í Kaupmannahöfn vorið 1933 áður en fjölskyldan hélt áfram til Íslands því að afi hafði verið kosinn prestur á Húsavík, og fimm árum seinna fæddist Birna.

Aldís móðursystir mín var alltaf kölluð Dídí innan fjölskyldunnar. Hún var góðum gáfum gædd og mikill námsmaður. Hún var í MA þegar akureyrarveikin kom upp og varð að vera eftir á vistinni þau jólin vegna smithættu og hjúkraði Erni bróður sínum. Það gerði hún greinilega vel því að hann hvatti hana til að fara í hjúkrunarnám eftir stúdentspróf, sem hún og gerði.

Á námsárunum sóttist kona ein eftir að spá fyrir henni og Dídí lét undan en skellihló að vitleysunni þegar mannlýsing á tilvonandi eiginmanni kom fram. Þessi lýsing átti við Pál Þór Kristinsson! Síðar urðu þau hjón. Á æskuárum mínum á Húsavík bjuggu Dídí og Palli fyrir ofan Öskju, verslun sem Palli rak. Þarna var skemmtilegur leikvangur fyrir „skollablindu“ og „tína ber“ á ganginum og „baddadadda“ niður stigann í forstofunni. Eflaust hefur skarkalinn heyrst niður í búð en aldrei man ég eftir að neinn kvartaði.

Dídí og Palli byggðu hús í Höfðabrekkunni og fluttu þangað 1967 og þar með voru í fjórum húsum í röð í götunni samofnar fjölskyldur, tvennir bræður, pabbi og Stebbi ásamt Óla og Palla, og tvær systur, mamma og Dídí, ásamt Ingu hans Óla og Heiðu hans Stebba og barnaskari götunnar stækkaði. Amma og afi fluttu nokkru seinna á neðri hæð nýja hússins. Dídí vann stundum á sjúkrahúsinu og mér þótti hún svo flott í hvíta búningnum með kappann í dökku hárinu.

Sorgin kvaddi dyra þegar Palli veiktist og lést í febrúar 1973. Þau léku bæði með Leikfélagi Húsavíkur og hún fékk oft sönghlutverk enda bjartur og fallegur sópran. Dídí var orðin ekkja með þrjú ung börn rétt rúmlega fertug. Að standa sig skyldi hún, koma börnum sínum til náms, það gerði hún og setti þau í forgang. Dídí og mamma voru alla tíð mjög nánar og eftir andlát Palla varð samband þeirra enn sterkara. Börnin hennar, Geirþrúður, Guðbjörg jafnaldra mín og Ari Páll, urðu heimagangar hjá okkur og seinna þegar ég fór til Reykjavíkur í framhaldsskóla bjó ég hjá þeim en Dídí var þá flutt suður og sótti sér kennsluréttindi í hjúkrun og kenndi síðan við Hjúkrunarskólann. Á þeim árum varð hún fóstra mín og var alla tíð mjög kært með okkur. Ég bjó hjá henni um tíma með Björgu dóttur mína og hún varð amma Dídí.

Dídí gerðist hjúkrunarforstjóri á Húsavík og bjó þar alla tíð síðan. Hún var mömmu stoð í veikindum pabba og þær áttu mörg góð ár saman, hittust daglega, spiluðu skrafl, dreyptu á Gammel Dansk, ferðuðust og mældu vegalengdir milli staða og guggnuðu á heimsóknum í ættrækniferðum.

Ég kveð Aldísi móðursystur mína með þakklæti í huga, viss um að henni er fagnað í Sumarlandinu. Guð blessi minningu fóstru.

Sigríður Ingvarsdóttir.

Aldís Friðriksdóttir, eða Dídí eins og hún var kölluð, kvaddi þennan heim þann 27. janúar sl. á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík en bjó síðustu ár sín í íbúð á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hvammi.

Kynni okkar Dídíar ná yfir marga áratugi því hún var gift Páli Þór, Palla, föðurbróður mínum.

Á menntaskólaárum mínum vann ég á sumrin á Húsavík hjá Óla föðurbróður mínum og Ingu konu hans í Kristinsbúð og síðar Búrfelli. Lengst af þessum tíma bjuggu þeir bræður og fjölskyldur þeirra hlið við hlið í Höfðabrekkunni og reyndar má segja að við þá götu hafi verið mikill frændgarður þar sem frændfólkið bjó oddatölumegin götunnar. Það var því stutt að fara í heimsókn til Palla og Dídíar og oft var gleði og kátína á heimili þeirra og þangað var gott að koma. Palli alltaf sprækur og bráðskemmtilegur og Dídí hlý og góð kona sem hugsaði vel um fjölskylduna og einnig börn og fullorðna á sjúkrahúsinu en þar starfaði hún við hjúkrun og gegndi einnig starfi hjúkrunarforstjóra í samræmi við menntun sína.

Það er hins vegar ekkert öruggt í þessum heimi. Palli veiktist af krabbameini og barátta hans við þann sjúkdóm var erfið og endaði með því að hann mátti játa sig sigraðan aðeins 46 ára. Eftir stóð Dídí ein með börnin þrjú og hélt þeim heimili þar til þau urðu fulltíða. Það var ekki alltaf auðvelt en hún leysti það verkefni vel af hendi eins og annað sem hún tók að sér og börn þeirra Palla eru vel gerðir einstaklingar sem hafa erft kosti foreldra sinna.

Við Jóna vorum síðast á Húsavík fyrir um tveimur árum og heimsóttum Dídí. Hún tók vel á móti okkur að venju og var ánægð með sig og aðstöðuna. Hún átti auðvelt með að spjalla um allt milli himins og jarðar og margs var að minnast.

Við erum þakklát fyrir samfylgdina í langan tíma og þökkum fyrir allt og allt. Börnum og fjölskyldum þeirra færum við innilegar samúðarkveðjur.

Þar sem trúin hefur ætíð fylgt Dídí prestsdóttur og hennar fólki fylgir hér lítið ljóð um himnaförina sem ég hef stundum látið fylgja minningarorðum.

Nú hallar degi

kvöldroðinn færist yfir

og umvefur sálina.

Okkar himneski faðir,

í hæstu hæðum, hefur kallað

og sálin kveður þetta jarðlíf.

Hjá Drottni skín morgunsólin,

hin eilífa sól,

og hlý golan leikur um sálina.

Englar Drottins

syngja honum til dýrðar

og svífa um í golunni

í sínum eilífðar dansi

og fagna komu sálar

í ríki Drottins þar sem

sorg og tregi eru ekki til

en alltaf gleði og friður.

(SA)

Sveinn Arason.

Talið er merki þróttar þrátt

það að vera sonur,

en landið hefur löngum átt

líka sterkar konur.

(Ólína Andrésdóttir)

Komin er kveðjustund og ljúfar minningar streyma fram, um góða, trygga og heilsteypta vinkonu. Vinátta okkar hófst þegar við vorum kennarar við Hjúkrunarskóla Íslands fyrir margt löngu þegar kennarahópnum bættist góður liðsauki þar sem Aldís var.

Það var mikil lyftistöng þegar yfirvöld menntamála samþykktu ásamt Kennaraháskóla Íslands að setja á stofn sérstaka námsleið innan skólans fyrir hjúkrunarfræðinga er vildu bæta við sig námi í kennslu- og uppeldisfræði. Á þessum árum var það baráttumál hjúkrunarstéttarinnar að allt nám er tengdist hjúkrun yrði innan háskóla. Við höfðum mikinn metnað fyrir hönd hjúkrunarnámsins og vildum bæta við okkur námi í kennslu- og uppeldisfræði til að standast eigin kröfur um hæfni til kennslu við Hjúkrunarskólann. Í kjölfarið að námi loknu fóru Stefanía og Aldís í námsferð á vegum Hjúkrunarskólans til Danmerkur og Noregs til að efla enn betur námsefnisgerð við skólann. Ferðin var mjög gagnleg, bæði fræðandi og uppbyggileg en á sama tíma skemmtileg.

Aldís var afburðakennari þar sem fagmennska og samviskusemi réð för. Á einhverjum tímapunkti datt Lilju og Aldísi í hug að gera tilraun til að leggja fyrir sig skíðaíþróttina. Þær brugðu sér í viku í Skíðaskólann í Kerlingarfjöllum til að efla hæfni sína á því sviði. Ekki fer neinum sögum af því hvernig til tókst, vikan var frábær enda forréttindi að vera með Aldísi og njóta hennar nærandi og ánægjulegu samveru. Aldís naut sín vel á kvöldvökunum og tók virkan þátt í söngnum með sinni fallegu rödd.

Átthagarnir tóku að toga í og fór hún því norður og tók við forstjórastöðu hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Húsavík. Sigþrúður sá sér leik á borði að rifja upp gamla takta í klínískri hjúkrun og starfaði hjá Aldísi sumarlangt árið 1992. Sumarið var einstakt bæði í leik og starfi. Aldís var góður stjórnandi og vinkona, ljúfmenni, hafði hlýtt og fallegt viðmót og stutt í brosið. Mörgum árum síðar þegar Sigþrúður vann að hugðarefni sínu að safna hjúkrunarsögum sem varðveist hafa í munnlegri geymd en eru hvergi skráðar, tók hún viðtal við Aldísi. Hún var fjölfróð kona og hafði frá mörgu að segja.

Það er ómetanlegt að hafa notið samfylgdar og samstarfs við sómakonuna Aldísi. Við þökkum henni fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og kveðjum hana með virðingu og þökk. Elsku Geirþrúður, Guðbjörg, Ari Páll og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur, megi fallegar minningar um einstaka móður lifa í hugum ykkar.

Blessuð veri minning Aldísar Elísabetar Friðriksdóttur.

Lilja U. Óskarsdóttir,
Sigþrúður Ingimundardóttir, Stefanía V.
Sigurjónsdóttir.

Látin er í hárri elli Aldís Friðriksdóttir hjúkrunarfræðingur. Með henni er genginn einn af máttarstólpum heilbrigðisþjónustunnar í Þingeyjarþingi um áratuga skeið.

Aldís var fædd í Danmörku en fluttist til Húsavíkur á fyrsta ári. Faðir hennar var fæddur og uppalinn í Reykjavík en móðir hennar í Kaupmannahöfn. Fjölskyldan átti því ekki rætur í Þingeyjarþingi en var fljót að skjóta rótum og fáa þekki ég sem unnu héraðinu jafn heitt og fjölskylda Aldísar. Aldís var vel gefin til orðs og æðis og gekk vel í námi. Hún nam hjúkrunarfræði og sennilega kom aldrei annað til greina, það stóð hjarta hennar næst. Ég kynntist Aldísi fljótlega eftir að ég fluttist til Húsavíkur þegar hún hóf hjúkrunarstörf á ný eftir að hafa eignast sitt þriðja barn. Mér varð strax ljóst að þar var vönduð manneskja á ferð og mikil fagmanneskja. Hún hafði einurð til að gera athugasemdir ef henni fannst við læknarnir til dæmis ekki gæta nógu vel að smitgát eða henni fannst að við mættum huga betur að forvörnum í störfum okkar. Allar slíkar ábendingar voru bornar fram af hófsemd. Hún átti gott með að leiðbeina án yfirlætis, var góður leiðbeinandi.

Aldís varð fyrir þungu áfalli þegar eiginmaður hennar féll frá aðeins 45 ára gamall. Fertug ekkja með þrjú börn á aldrinum 8-15 ára, nýkomin heim frá Noregi eftir árs nám í heilsuverndarhjúkrun. En Aldís lét ekki bugast og eftir að hafa starfað á Húsavík í fjögur ár dreif hún sig út til Manchester á Englandi í meistaranám í hjúkrunarfræði. Lauk því námi við Háskóla Íslands og bætti við sig námi í stjórnun. Starfaði á Reykjavíkursvæðinu næstu árin, m.a við kennslu hjúkrunarnema, en kom fljótlega til baka í heimabyggðina og gerðist hjúkrunarforstjóri Sjúkrahússins á Húsavík, sem hún sinnti lengst af það sem eftir var starfsævinnar. Ég var samstarfsmaður Aldísar nánast allan tímann sem hún starfaði á Húsavík. Kannski er fullmikið sagt að aldrei hafi borið skugga á okkar samstarf, en þannig horfir það við mér. Ef einhver núningur varð okkar á milli vegna mismunandi sýnar á lausnir á heilbrigðissviðinu var það ævinlega leyst í fullri vinsemd og sátt.

Framlag Aldísar til heilbrigðisþjónustu, sérstaklega í Þingeyjarþingi, verður seint ofmetið. Hámenntuð kom hún til baka í sitt gamla heimahérað og helgaði því þekkingu sína og hæfni til starfsloka.

Um leið og ég þakka Aldísi af alhug fyrir áratuga langt samstarf sendi ég og Katrín konan mín börnum hennar og öllum nákomnum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Aldísar Friðriksdóttur.

Gísli G. Auðunsson.