Ólöf Tara Harðardóttir fæddist í Reykjavík 9. mars 1990. Hún lést á heimili sínu 30. janúar 2025.

Foreldrar Ólafar Töru eru Hörður Örn Harðarson, f. 27.5. 1967, múrari, búsettur í Danmörku, og Tinna Arnardóttir, f. 13.4. 1972, nuddari. Dætur Tinnu og hálfsystur Ólafar Töru eru: a) Helga Rún Bjarkadóttir, f. 1.3. 1996, snyrtifræðingur, sambýlismaður Stefán Gauti Sveinsson, f. 14.9. 1990, sonur þeirra er Andri Fannar, f. 4.9. 2022. b) Telma Árnadóttir nemi, f. 17.12. 2003. c) Orka Árnadóttir nemi, f. 22.12. 2008. Foreldrar Tinnu voru Ólöf Helgadóttir verkakona, f. 16.3. 1941, d. 3.9. 2008, og Örn Friðriksson verkalýðsforingi, f. 30.5. 1941, d. 13.8. 2024. Foreldrar Harðar voru Anna Auðunsdóttir, stofnfélagi Fjölskylduhjálpar Íslands, f. 2.1. 1935, d. 7.6. 2017, og Hörður Ársælsson bifvélavirki, f. 22.8. 1927, d. 26.1. 2015.

Sambýlismaður Tinnu er Elvar Árni Lund, sviðsstjóri í Norðurþingi. Synir Elvars eru Níels Árni, f. 12.5. 2005, og Benedikt Árni, f. 15.12. 2007. Tinna var búsett með Elvari á Húsavík.

Árið 2021 stofnaði Ólöf Tara félagasamtökin Öfgar ásamt öðrum konum og var stjórnarkona í samtökunum til ársloka 2024. Ólöf Tara var mikill drifkraftur innan Öfga. Helstu baráttumál hennar voru m.a. byrlanir, kvenmorð og opinber stuðningur við þolendur ofbeldis. Með hópnum hlaut hún mannúðarverðlaun frá Siðmennt og Perluna frá Mannréttindaskrifstofu Íslands árið 2022. Öfgar ávörpuðu Sameinuðu þjóðirnar og funduðu með fulltrúum Evrópuráðsins. Með Öfgum skrifaði hún og hélt alls kyns erindi, meðal annars undir yfirskriftinni „Saga þolenda – hin raunverulega slaufun“. Hún tók þátt í skipulagningu mótmæla og samstöðufundi fyrir þolendur, eins og kertavöku til að minnast þolenda sem látist hafa af völdum kynbundins ofbeldis.

Ólöf Tara stundaði fimleika og þjálfaði um árabil. Þá var hún með næringarþjálfun sérsniðna að þörfum kvenna og starfaði sem hóp- og einkaþjálfari með það að markmiði að bæta heilsu kvenna og efla líkamlegan og andlegan styrk.

Útför Ólafar Töru fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 10. febrúar 2025, klukkan 13.

Mömmuhjartað er í molum, litla ljónynjan mín Ólöf Tara hefur kvatt okkur. Fallega stelpan með bláu augun sem gneistuðu af einhverjum óskiljanlegum krafti sem við hin höfum ekki. Ég var 17 ára þegar ég átti Ólöfu Töru og hefur hún því verið í lífi mínu stærsta hluta ævi minnar og því stórt skarðið sem hún skilur eftir sig. Við vorum nánar, meira vinkonur en mæðgur og grínuðumst oft með að við vissum ekki hvor væri hænan og hvor væri eggið. Hún kom í heiminn með mikið ljóst krullað hár og risastóra spékoppa. Eldklár, altalandi um 20 mánaða. Margir hefðu haldið að hún hefði látið heyra í sér sem barn en það var bara með háum söng. Þriggja ára kunni hún öll erindi að Guttavísum og Maístjörnunni og þagnaði sjaldan. Hún var ekki há í loftinu þegar réttlætiskenndin lét á sér kræla. Fimm ára kom hún grátandi heim og tjáði mér þau hræðilegu tíðindi að Örn Ingi frændi og hin börnin hefðu klifrað upp á þak á leikskólanum, það væri bannað og vildi hún tilkynna þau til leikskólastjóra. Hún hafði skemmtilegan húmor, var stríðin og með smitandi hlátur. Hún vildi alltaf hafa gaman með fjölskyldunni, þær systur settu ásamt Söru frænku upp leikrit og sýningar, að sjálfsögðu allt frumsamið. Í afmælum, boðum og jafnvel fermingarveislum hjá ættingjum var sett upp sýning. Síðustu jólin okkar setti hún upp Jólaleikana og var heilan dag að föndra stigatöfluna. Hún elskaði dýr og það var ekkert í heiminum sem hún gerði ekki fyrir hundana sína Mirru og Lóu. Réttlætiskennd fyrir þeim sem minna mega sín var Ólöfu Töru í blóð borin. Hún var komin af sterku fólki, bæði í móður og föðurlegg. Fólki sem vann fyrir alþýðu Íslands og áorkaði að bæta kjör almennings. Það fór ekki framhjá neinum sem höfðu kynni af henni að þarna var á ferð kona sem hafði risastórt hjarta og brennandi ástríðu til að breyta heiminum til hins betra og lét ekkert hræða sig. Hún bar sár á sálinni sem greru ekki en gaf samt alla þá orku sem hún átti til annarra þar til ekkert var eftir. Enginn þekkti mig eins vel og hún. Hún bjó yfir einstakri næmni til að sjá ef eitthvað bjátaði á og sá fljótt í gegnum búllsjittið. Ég á henni svo mikið að þakka, hún opnaði augun mín og fékk mig til þess að vinna úr mínum áföllum. Samband okkar var sterkt og þegar ég lít til baka sé ég hvernig hún raðaði öllu upp síðustu tvö árin sem hún lifði, bjó til minningar með okkur og fyrir okkur. Síðustu daga hef ég horft á myndbönd þar sem við og systur hennar höfum tekið upp í göslaraganginum hjá okkur síðustu árin og ég fyllist þakklæti fyrir þann tíma sem hún gaf okkur. Þakklæti fyrir ást hennar til okkar, þakklæti fyrir allt sem hún kenndi okkur. Ég er stolt af þeirri umhyggju sem hún gaf þolendum og þann eldmóð sem hún sem hún léði baráttunni. Ég mun aldrei verða henni reið fyrir að yfirgefa okkur og velja hvíldina, en ég er reið út í kerfið sem bregst bæði þolendum og þeim sem vinna þrotlausa vinnu í baráttu við kerfi sem ekki vill hlusta.

Elsku stelpan mín, mamma mun sakna þín að eilífu. Sjáumst síðar.

Mamma.

„Ertu almennilegur maður?“ spurði hún og horfði á mig rannsakandi augum, en þó vottaði fyrir brosi. Ég og Tinna vorum byrjuð að hittast og það var kominn tími til að hitta dætur hennar, fjórar talsins, sem öllum var greinilega umhugað um mömmu sína og nú var stóra systir mætt til að taka mig út. Í stuttu máli sagt samþykkti Ólöf Tara mig og varði ákvörðun móður sinnar, þótt ég væri nýlega fráskilinn og kannski ekki alveg eftir bókinni að hefja strax samband. Þarna sá ég hana fyrst, hugrökku konuna með stóra hjartað og röddina sem heyrðist svo hátt í að eftir var tekið í öðrum löndum. Stúlkan sem sumir óttuðust því hún þorði að segja sannleikann. Ég viðurkenni að ég varð hissa, ekki var hún há í loftinu og fíngerð, konan sem lét hrikta í kerfinu. Kerfinu sem við þekkjum og höfum flest fengið nóg af, enda mótað af fornum og úreltum hefðum. Orðið feðraveldi var ekki mikið til tals á Íslandi, notað um samfélagsgerð í öðrum löndum, þar til hópur kvenna sem höfðu fengið nóg af misrétti og kúgun tók að benda á að á Íslandi ríkir þessi hefð nefnilega líka. Orðið feðraveldi stuðar. En það er tilgangurinn. Hrista upp í okkur, vekja til umhugsunar og draga tjöldin frá veruleika sem okkur býður við. Staðreyndin er að konur á Íslandi eru engu öruggari en konur í öðrum vestrænum ríkjum þótt Ísland sé sagt svo öruggt. Það á því miður ekki við um konur og tölurnar sýna fram á það. Þessu vildi Ólöf Tara breyta og uppræta. Hugsjónastarfið var meira og minna launalaust, án orlofs, lífeyrisréttinda og utan stéttarfélags. Hún gaf allt sitt til að vekja athygli á ofbeldi sem samfélagið ver gegn betri vitund, því þannig hefur þetta alltaf verið. Ýmislegt hefur breyst, sumt til batnaðar, en hvergi nærri nóg. Lög eru mannanna verk, þau skrifa sig ekki sjálf, og þeim er hægt að breyta. Allt sem þarf til er vilji ráðamanna. Nú mætti spyrja hvort barátta Ólafar Töru hafi dregið hana til dauða, en svo var ekki. Rætið umtal óttaðist Ólöf Tara heldur ekki. Hún fékk kraft í sínum baráttustörfum til að glíma við eigin fortíð og varanleg ör á sálinni. Svona var Ólöf Tara, baráttukonan sem margir þekktu og dáðu. En auðvitað var hún líka dóttir, systir, frænka, vinkona og einstakur vinur vina sinna. Þannig þekkti ég hana fyrst og fremst. Vel máli farin, yfirveguð í tali, rökföst, skemmtileg, stríðin, fyndin og ákveðin en á sama tíma hlý, hjálpsöm og alltaf til staðar.

Takk fyrir allt elsku Ólöf Tara. Takk fyrir tímann sem við áttum saman á Húsavík og norður á Melrakkasléttu, þar sem þú fannst frið og naust þess að vera með okkur mömmu þinni og systrum og nýju fjölskyldunni, strákunum mínum og þeim Töru og Sönsu. Blessuð sé minning þín elsku Ólöf Tara.

Þinn

Elvar.

Elsku Ólöf.

Þetta er of sárt til að vera satt. Þú varst litla frænka mín og uppeldissystir. Það er svo sorglegt að vita til þess að þér hafi liðið svona illa og ég vildi óska þess að maður hefði séð það skýrar og reynt að halda betur utan um þig og segja þér hvað þú ert æðisleg og hvað mér þykir vænt um þig. Ég mun sakna þín alltaf og hugsa til þess hversu fallegur hláturinn þinn var, sem fékk mann alltaf til brosa. Ég vildi að ég hefði fylgst betur með þér og baráttu þinni síðustu ár og stutt þig meira. Ég er þakklátur fyrir tíma okkar saman með afa síðasta sumar og í hveitikökunum. Ég sé það núna að þú komst til þess að kveðja okkur fjölskylduna um jólin. En mig grunaði ekki að það væri í síðasta skiptið sem við myndum hittast. Við áttum margar góðar minningar úr norðurbænum og Lækjarhvammi hjá ömmu og afa og einnig þau skipti sem ég heimsótti þig þegar þú bjóst í Köben og ég man að mér fannst þú svo fullorðin en samt svo ung. Litla frænka mín bara farin að leigja íbúð í Köben og ég stóri frændi ennþá hjá mömmu og pabba. Þú varst alltaf svo sjálfstæð og mikill nagli. Ég vildi óska að við hefðum meiri tíma til þess að rifja upp og skapa nýjar minningar saman. Vonandi hefurðu loksins fundið frið og ég veit að amma og afi eru hissa að sjá þig en taka vel á móti þér með opnum örmum, kyssa, knúsa og láta þig vita að þú ert í öruggum höndum.

Kys og kram.

Við elskum þig.

Örn Ingi, Benedikta (Benna), Freyja Björk, Gunnar Fálki og Fjölnir Örn.

Kæra Ólöf Tara.

Þar sem ég mun ekki fylgja þér til grafar langar mig að kveðja þig með nokkrum orðum. Þegar ég hugsa til þín kemur upp mynd af góðri og greindri manneskju sem var frá unga aldri orkumikil, ábyrgðarfull, mjög hugsi og öguð í allri framkomu. Það var bjart yfir þér og auðvelt að láta sér þykja vænt um þig.

Þau eru skemmtileg minningarleiftrin frá öllum leiksýningunum sem þú og frænkur þínar hélduð þegar fjölskyldan kom saman. Hugsanlega er þetta skemmtilegra í minningunni en meðan á þessu stóð. Þú varst alla tíð ófeimin að viðra skoðanir þínar, gerðir það vel og tilsvörin voru oft mjög hnyttin.

Það var eftirtektarvert hversu góð og ábyrgðarfull þú varst gagnvart systrum þínum en þar komum við að aganum, því stóru systur hlutverkið var alla tíð ríkur þáttur í lífi þínu. Þú varst efnileg í fimleikum og lagðir mikið á þig þar. Sjálfsagt er fimleikabakgrunnurinn rótin að því að þú helltir þér í þjálfun og heyrði maður utan af sér að þau sem nutu leiðsagnar þinnar þar væru mjög ánægð.

Þú varst hugsjónamanneskja og helltir þér í baráttu gegn kynbundu ofbeldi. Ég var ekki alltaf sammála þér en ég var stoltur af baráttu þinni og hreykinn af þér, benti stundum á að þarna færi nú frænka mín.

Á síðasta ári urðu samskiptin við þig meiri en áður vegna veikinda Arnar afa þíns, föður míns. Aðkoma þín þar og hjálpsemi var einu orði sagt ómetanleg. Það var virkilega fallegt að horfa á umhyggjusemi þína gagnvart afa þínum og hversu ábyrgðarfull þú varst í þeim erfiðu aðstæðum sem þar voru uppi. Þarna kom bæði ábyrgðarkenndin og aginn til sögunnar.

Elsku Ólöf Tara, þegar við hittumst skömmu fyrir jól óraði mann ekki fyrir því að veður myndu skipast svona snögglega í lofti. Við Hildur vottum öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Minning um yndislega manneskju mun fylgja Ólöfu Töru.

Róbert Þór Gunnarsson.

Ólöf Tara okkar, allt er svo óraunverulegt og sárt. Söknuðurinn er óbærilegur og engin orð ná utan um allar tilfinningarnar sem fylgja því að missa þig, hjartans besta.

Ólöf Tara skildi eftir sig stór spor og minning hennar mun lifa í óeigingjörnu og mikilvægu baráttunni hennar. Drifkraftur Ólafar, kjarkur og seigla voru aðdáunarverð. Hláturinn og fallega brosið sem lýsti allt upp. Hún var alltaf til staðar og tilbúin að hvetja og styðja. Hún var náttúruafl.

Mig dreymdi hamingjuna.

Hún kom til mín

sveipuð svartri blæju,

strauk höfuð mitt

og hvíslaði þýðlega í eyra mér:

Þú mátt sofa barnið mitt.

(Vilborg Dagbjartsdóttir)

Takk fyrir ferðalagið, það var heiður að fá að fylgja þér, bæði sem samstarfskonu og dýrmætri vinkonu. Öll ástin. Við á móti heiminum, alltaf. Þínar Öfgar,

Eva J., Helga Ben,
Hulda Hrund Guðrúnar Sigmundsdóttir,
Ninna Karla Katrínar, Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir og Þórhildur Gyða.

Það er illskiljanleg staðreynd að Ólöf Tara sé okkur horfin úr þessum heimi. Við syrgjum kæra vinkonu, baráttusystur sem var vægast sagt harðsvíruð talskona en um leið góðhjörtuð og umhyggjusöm. Hún var leiðarljós í baráttu fyrir bættri stöðu allra brotaþola ofbeldis í samfélaginu og réttarkerfinu. Það var alveg ljóst að Ólöf Tara óskaði sér betri og kærleiksríkari heims og gaf mikið af sér, kannski miklu meira en samfélagið átti skilið frá henni.

Á ferðalagi okkar í baráttu fyrir réttindum þolenda kynbundins ofbeldis stóðum við oft hlið við hlið á erfiðum augnablikum. Við deildum sigrunum, óbilandi sannfæringu og von um réttlæti svo að á milli okkar myndaðist mikið traust og kærleikur. Ólöf Tara var þannig gerð að þegar við sjálfar vissum varla hvar við ættum að stíga niður næsta skref eða hvert við ættum að snúa okkur var lausnin oft að hringja í Ólöfu Töru og viðra málið við hana. Hún var ótrúlega ráðagóð og margir þolendur og aktívistar nutu góðs af því. Þau eru sennilega óteljandi hjörtun sem hún hefur snortið, því ef hún vissi af þolanda í þjáningu eða neyð hikaði hún aldrei við að vera til staðar, jafnvel þótt hún þekkti viðkomandi ekki neitt. Hvaðan öll þessi viska hennar og kraftur kom var okkur stundum ráðgáta. Ef eitthvað bjátaði á var hún alltaf mætt eins og herforingi með Ray Ban Aviator-sólgleraugun sín og spurði: „Hvað eigum við að gera núna, hvað er planið?“ Mikið innilega erum við heppnar að hafa kynnst henni.

Þegar þessi orð eru skrifuð leiftrar himinninn og öskrar eins og ljón, grætur og loftið nötrar allt eins og þanið taugakerfi. Ólöf Tara var ekki bara systir í aktívisma, hún var náttúruafl, rauð viðvörun, leiðtogi á meðal jafningja, en líka kona sem lifði sársauka, sneri sársauka upp í tilgang og ruddi sviðið svo raddir annarra brotaþola ofbeldis mættu heyrast. Er eitthvað mikilfenglegra hægt að gera í mannheimum en að styðja aðrar manneskjur?

Enginn getur fyllilega tjáð sársauka annarrar manneskju, lífsreynslu eða ferðast þá leið í lífinu sem aðrir hafa gert. Ólöf Tara tók sína eigin ákvörðun, í sínum eigin sannleika. Þó að við stöndum í vanmætti skilningsleysis á þessari kveðjustund berum við virðingu fyrir öllu hennar lífshlaupi og þeim sporum sem hún skilur eftir sig í þessum heimi.

Skarðið sem Ólöf skilur eftir sig er stórt, en arfleifð hennar hverfur aldrei. Allt sem hún sagði, það sem vakti okkur, breytti okkur, fékk okkur til að hugsa, allt sem hún gaf okkur lifir áfram í öllum þeim sem hún snerti við, hugrekkið og umhyggjan sem hún sýndi okkur. Ólöf Tara er með okkur á meðan við berum eldinn hennar áfram.

Við viljum votta aðstandendum, vinum og þeim sem elskuðu Ólöfu Töru okkar dýpstu samúð.

Gabríela Bryndís
Ernudóttir og Sigrún Sif Eyfeld Jóelsdóttir.

Kveðja frá Stígamótum

Hún stóð í eldinum, tók ágjöf en barðist áfram til síðasta dags. Elsku Ólöf Tara, baráttukona fyrir betri heimi, gegn feðraveldinu og kynbundnu ofbeldi, féll fyrir eigin hendi. Það er sárt, vekur reiði, samúð og samkennd en líka ótta við þann skaða sem fórnirnar krefjast. Fórnirnar við að standa í eldinum.

Hún hafði einstaka hæfileika til að nýta eigin reynslu af ofbeldi til að berjast fyrir aðrar konur. Það þarf styrk og seiglu til þess. Hún var gagnrýnd og kölluð öllum illum nöfnum fyrir að berjast fyrir betri heimi og gegn hinu skaðlega feðraveldi. Hún var máluð upp sem óalandi og óferjandi en hún var svo langt frá því eins og baráttusystur hennar yfirleitt eru.

Síðustu mánuði átti hún og nýju samtökin Vitund gott samstarf við Stígamót þar sem við virkjuðum baráttuandann en vorum samt til viðtals við kerfið sem þarf að standa með brotaþolum og skilja þeirra stöðu. Það er ekkert sjálfsagt að manneskjur sem hafa ekki getað treyst kerfinu séu tilbúnar í slíka vegferð, fjarri kastljósi fjölmiðla og fyrir framtíðina. Ólöf Tara var hins vegar kona í það. Hún var til í allar tilraunir sem gætu þokað málum áfram, hvort sem það var barátta á hinum opinbera vettvangi, á samfélagsmiðlum eða að vinna málin með öðrum hætti.

Eldurinn sem logaði innra með Ólöfu Töru má ekki slokkna og það er okkar ábyrgð að halda honum lifandi. Fyrir þolendur kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og fyrir betri heimi sem verður vonandi laus við ofbeldi og hið skaðlega feðraveldi sem krefst endalausra fórna. Ólöf Tara lagði sannarlega sitt lóð á vogarskálarnar, bæði í gegnum sína eigin baráttu, með baráttu Öfga og nú síðast samtökunum Vitund. Takk fyrir baráttuna!

Við vottum fjölskyldu, vinum og baráttusystrum samúð.

F.h. Stígamóta,

Drífa Snædal.

Elsku hjartans sálusystir mín. Þú komst inn í líf mitt á hárréttum tíma og úr varð einstök og dýrmæt vinátta. Þvílík lífsins lukka að hafa fengið að vera besta vinkona þín. Þú lýstir upp öll rými og hláturinn þinn kom öllum í gott skap. Þú varðst fljótt partur af mínu daglega lífi þar sem við áttum það sameiginlegt að finnast gaman að tala í símann. Símtölin okkar voru yfirleitt margar klukkustundir þar sem við vorum á sitthvorri línunni að sinna heimilisstörfum eða taka æfingar á meðan við spjölluðum um allt og ekkert. Við eyddum áramótunum 2022-2023 saman í símanum fastar heima í óveðri, þar sem við töluðum saman meðan við borðuðum, horfðum á skaupið og svo þegar nýtt ár gekk í garð. En samvera var líka stór partur af okkar vináttu og við brölluðum ýmislegt saman. Við áttum ótal kósýkvöld heima en svo fannst okkur ekki leiðinlegt að kíkja saman út á lífið í miðbænum. Við töluðum oft um það að við tvær gætum sigrað heiminn saman. Það vildi engin mæta okkur tveim í rökræðum um baráttumál því við unnum alltaf með okkar sterku réttlætiskennd. Sumarið 2023 verður mér alltaf kært þar sem við eyddum flestum dögum saman í sólinni og stundum líka með einn ískaldan. Það var alltaf stuð þegar við vorum saman og ein uppáhaldsminningin mín er þegar við fórum á hjólabar í London síðasta sumar. Okkur fannst þetta frábær hugmynd og aldrei óraði okkur fyrir því hvað það yrði erfitt. Við komumst svo að því þegar strákarnir að stýra hjólabarnum sögðu okkur að hann væri 1 tonn og enginn mótor, en það sem við hlógum mikið og skemmtum okkur. Þú náðir líka sannfæra lofthræddu mig um að fara með þér í London Eye. Það var nefnilega þannig að ég hefði gert allt fyrir þig. Þú varst stoð mín og stytta og það erfiðasta sem ég hef gert á minni ævi er að þurfa kveðja þig. Söknuðurinn er mikill en ég verð þér ævinlega þakklát fyrir allt sem þú kenndir mér og dýrmæta vináttu okkar. Ég og þú á móti heiminum, ég elska þig að eilífu alltaf.

Þórhildur Gyða.

Elsku hjartans stelpuskottan mín.

Þegar ég rita þessar línur þá grætur himinninn og náttúran öll með mér. Úti er rauð viðvörun og þú varst sami kraftmikli stormsveipurinn og gerist í stærstu vindhviðunum. Það gustaði af þér ferskum andvara en líka staðfestu, einbeitni og ákveðni í öllum málum sem þú tókst þér fyrir hendur. Það er sama hvort það var söngurinn þegar þú varst fimm ára skotta og kunnir flókna lagatexta upp á tíu, líkamsræktin, þjálfunin eða baráttumálin sem áttu hug þinn allan síðustu ár. Hvar sem þú steigst niður fæti, þá átti málefnið allt þitt hjarta og hug, og þú varst alltaf fylgin þér og þínum skoðunum.

Mér er minnisstætt þegar við hittumst í Danmörku þegar þú varst um tvítugt, og við áttum saman dag- og kvöldstund með mömmu þinni. Þá voru málin rædd fram og aftur og ég áttaði mig fyrst þá á hversu djúpt þú hugsaðir um réttindi allra, hversu heitt þú þráðir réttlæti í öllu og hversu mikið óþol þú hafðir fyrir innihaldslausum yfirlýsingum. Það sem ég var stolt af að þekkja svona flotta og sterka unga konu. Ég er ennþá og verð alltaf stolt af þér elsku stelpan mín, þú vissir það þá og veist það enn.

Ég veit að það skilja kannski ekki allir ákvörðun þína en ég ætla að gera það. Ég ætla að virða hana og elska þig meira í dag en í gær. Ég ætla líka að passa að baráttumálin þín sofni ekki heldur haldi áfram, því þau eru og verða áfram okkur öllum mikilvæg.

Takk fyrir allar lífsins lexíurnar og ekki síst þá síðustu, að standa betri vörð um þá sem taka slaginn og fórna sér fyrir málstaðinn.

Elsku Herði, Tinnu, Elvari, Helgu Rún, Telmu, Orku og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur, bið allar góðar vættir að vaka yfir ykkur og styrkja og minni á að í hverju tári liggur falleg minning um einstaka dóttur, systur og baráttukonu.

Elsku Ólöf Tara mín, fljúgðu hátt og af krafti, þú ert frjáls.

Þín

Guðrún Berta.

Allar framfarir í þágu mannréttinda hafa byggst á samtakamætti. Ein manneskja breytir ekki samfélagi. En mikið komst Ólöf Tara nálægt því. Ekki af því að hún hafi haft vald eða verið í stöðu til að breyta, heldur af því að hún lagði hjarta sitt og sál í að standa með konum.

Ólöf Tara átti frumkvæði að mikilvægum aðgerðum og hún tók þátt í mikilvægum aðgerðum. En svo var hún líka full af samkennd og skildi betur en margar okkar hvað samstaðan skiptir miklu máli. Hún sendi ítrekað ófrávíkjanlegar kröfur út um allar trissur um að nú þyrfti að standa með einhverri af einhverjum ástæðum. Og við hlýddum. Allar. Alltaf. Af því að þannig var Ólöf Tara.

Á örfáum árum tókst Ólöfu Töru að bræða okkur báðar eins og smjör. Hún hafði óafturkræf áhrif á okkur, fullt af öðru fólki og á samfélagið allt. Hún var eldklár. Hugrökk, fyndin, dásamlega hortug og drífandi. Fyrir allt þetta erum við þakklátar og vildum að við gætum sagt henni það. Í staðinn heitum við því að halda áfram í hennar anda. Hún ruddi brautir sem verða nýttar af komandi kynslóðum og það er ómetanlegt.

Fjölskyldu og ástvinum Ólafar Töru sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Sérstakar kveðjur sendum við systrum hennar í Öfgum og Vitund.

Hvíldu í krafti, kæra vinkona.

Hildur Lilliendahl
Viggósdóttir,
Sóley Tómasdóttir.

Elsku Ólöf Tara, það er erfitt að finna réttu orðin til að kveðja þig. Þú varst einstök ung kona með stærsta hjartað og bjartasta brosið – alltaf boðin og búin að hjálpa öðrum, án þess að biðja um neitt í staðinn.

Þú varst mögnuð baráttukona – staðföst og sterk í lífsins stormum, þó enginn hafi séð byrðina sem þú barst innra með þér. Þú varst falleg, bæði að innan og utan, og skilur eftir þig djúp spor í hjörtum okkar allra.

Þín verður sárt saknað, en minning þín lifir áfram – í kærleikanum sem þú gafst, augnablikunum sem þú deildir með okkur og þeim áhrifum sem þú hafðir á alla þá sem fengu að kynnast þér.

Hvíl í friði, elsku Ólöf Tara. Þín verður alltaf minnst með þakklæti og kærleika í hjörtum okkar.

Þínar vinkonur,

Auður og Ragna.

hinsta kveðja

Þvílík lífsins lukka að þú og Öfgar voruð þar sem við þurftum á ykkur að halda þegar Þórhildur opnaði sig á sinn raunveruleika, og allt sem fylgdi. Vinátta ykkar Þórhildar Gyðu þróaðist svo áfram – yfir á stig sem ég held að fæst okkar skiljum enn í dag. Þú sýndir okkur líka ótrúlegan stuðning og vináttu og fyrir það erum við óendanlega þakklát. Elsku Ólöf Tara, það er erfitt að koma hugsunum í orð – við elskum þig, söknum þín og munum halda baráttunni áfram.

Öfgamamma og Öfgapabbi,

Karen Jenný og Arnar Þór.