Guðrún Valgerður Bóasdóttir (Systa), fæddist 3. mars 1957. Hún lést11. janúar 2025.

Útför hennar fór fram 23. janúar 2025.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Systu frænku eru appelsínugulir túlípanar. Þar strax á eftir er friðardúfan sem henni var svo kær.

Ég gæti örugglega skrifað bók í nokkrum bindum um allt það sem ég hef lært af og upplifað með henni elsku Systu minni, ég vil samt stikla á stóru og reyna að koma þessu frá mér í ekki of mörgum orðum.

Systa hefur alltaf verið mér kær, enda á hún að minnsta kosti þriðjung í mér. Hún hefur kennt mér margt í gegnum lífið og veitt mér ótal tækifæri og upplifanir. Hún tók mig með í margar utanlandsferðirnar þar sem ekki var farið beint á eitt hótel og gist, nei, með Systu og Elvari fórum við og skoðuðum ótal merkilega og fallega staði víðsvegar um það land sem við vorum í hverju sinni og í leiðinni kynntumst við menningu landsins almennilega – ekki eitthvað sem er auglýst í bæklingi.

Kaffiáhuginn minn byrjaði með henni, enda ekki annað hægt þegar kaffikönnusafnið er svona áhugavert og fjölbreytt. Einnig voru fastir liðir eins og vanalega að fara í kaffi á sunnudögum á Laugaveginum. Þar var alltaf eitthvað sem mér fannst gott í bland við eitthvað nýtt, sem var kannski ekki alltaf svo gott að mínu mati en sumt alveg ómótstæðilegt og gómsætt.

Ég gat alltaf leitað til hennar, hvort sem það var að segja frá einhverju skemmtilegu og áhugaverðu eða að kvarta yfir því sem ósanngjarnt var, sérstaklega þegar mamma var ekki sammála mér – en hún hlustaði og náði að róa mig niður og lét mig sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, sem gaf mér betri skilning.

Ég er ævinlega þakklát fyrir það að hafa átt Systu að og að hún hafi verið svona stór partur af mínu lífi. Eins og hún Kristín Inga dóttir mín er búin að minna mig reglulega á munum við alltaf eiga minningarnar með henni og hún mun ávallt búa í hjarta okkar.

Takk fyrir allt elsku Systa frænka.

Bóel Guðlaugardóttir.