María Friðþjófsdóttir fæddist 18. september 1939. Hún lést 15. janúar 2025.
Útför Maríu fór fram 30. janúar 2025.
Það eru mikil forréttindi að eiga ömmu. Það vita þau okkar sem áttum ömmu Mæju upp á hár, hvað við vorum ótrúlega heppin að eiga hana að.
Við systkinin munum vel eftir því hvað þú varst alltaf góð við okkur. Við fengum alltaf að koma til þín ef eitthvað var, hvort sem við vorum veik og þurftum að vera heima einn dag eða við vildum flýja „ömurlega fjölskyldu“ sem var leiðinleg.
Það er eiginlega ekki hægt að minnast ömmu Mæju án þess að hugsa til þess hvað hún vildi alltaf gefa manni að borða. Alveg sama hversu mikið maður var svo búinn að fá sér, alltaf var manni boðið meira. Amma átti líka alltaf eitthvað gott, annað en var heima.
Þegar maður fékk að gista hjá ömmu, þá fékk maður alltaf kvöldhressingu fyrir svefninn og svo las hún alltaf bók fyrir mann áður en maður sofnaði. Alltaf þegar einhver var veikur eða slasaði sig í fjölskyldunni þá var það amma sem vorkenndi manni hvað mest og var búin að fara í búðina og vissi alltaf hvað uppáhaldsnammið var sem hún kom með úr búðinni.
Það var líka alltaf svo góð lykt heima hjá ömmu og af rúmfötunum hennar. Hún þvoði stundum þvott af okkur og þá var alltaf svo góð ömmulykt af þeim.
Amma var alltaf til í að hjálpa til með allt og voru það yndislegar stundir með henni þegar hún var að kenna manni eitthvað nýtt, eins og að prjóna og sauma.
Hún var bara alltaf svo góð og hjartahlý og maður vissi það alltaf að maður var kominn í ró og öryggi þegar maður var heima hjá henni. Hún var líka alltaf heima, tilbúin að taka á móti manni.
Elsku amma Mæja, við munum alltaf elska þig og hlökkum til að segja börnunum okkar frá þér og hlýjunni sem þú bjóst yfir.
Þín barnabörn,
María, Birta og Darri.