Bjarni Guðmundsson fæddist 13. janúar 1927. Hann lést 19. janúar 2025.

Útförin fór fram 25. janúar 2025.

Elsku pabbi.

Það er skrýtið að hugsa til þess að geta ekki lengur komið til þín og spjallað og spurt þig út í eitt og annað sem ég er forvitinn um. Hvort sem það er að fá gamlar sögur af fólki að heiman eða til að spyrja hvernig þetta hafi verið í gamla daga. Það var hreint ótrúlegt hvernig þú mundir allt þetta. Alltaf gat ég spurt þig út í hvað og hvar þessi staður væri. Þú mundir öll örnefni og staðhætti og gast lýst nákvæmlega, svo nákvæmlega að hver steinn, lækur og þúfa var sem ljóslifandi í þínum huga. Samt sagðir þú alltaf „ég man ekki neitt orðið lengur“.

Ég held að ég hafi ekki þekkt ljúfari og skapbetri mann en þig. Aldrei man ég eftir að þú skiptir skapi, sama hvað dundi á. Ekki einu sinni þegar ég kastaði grjótinu óvart í hausinn á þér, þá heyrðist bara „hvað eru að gera?“. Kannski fannstu ekki fyrir grjótinu, enda með húfuna góðu á hausnum. Þú varst nú ekki heldur að æsa þig of mikið yfir einhverjum smámunum. Það var helst ef þú sást tófu að þú espaðist smá upp eða þegar þú varst að rífast við Hrólf yfir fótboltanum á Sævangi.

Þú skildir nú aldrei hvað við krakkarnir vorum að gera með það að fara inn á Hólmavík að keppa við Hólmvíkinga. „Til hvers eruð þið að fara þetta, þið tapið bara fyrir þeim?“ Ég verð samt að taka það fram að það var auðvitað ekki rétt, við unnum oftast. Nú á dögum væri þetta ekki talin góð uppeldisaðferð að letja í staðinn fyrir að hvetja. En kannski varst þú að nota öfuga sálfræði þannig að við gættum þess að tapa ekki. Hver veit, kannski varstu á undan þinni samtíð með það.

Mér þótti merkilegt hvað þú fylgdist vel með öllu, hvort sem það var með barnabörnunum, ættingjum, þjóðmálunum eða heimsmálunum. Oft spurðir þú út í barnabörnin, hvar þau væru og hvað þau væru að gera. Þegar Líneik Sóley ákvað að fara til Ástralíu í nám þá var það fyrsta sem þú sagðir: „Er það ekki stórhættulegt?“ Eflaust horfðir þú of oft á Krókódíla-Dundee. Líklega samt ekki. Líklegra er að um væntumþykju hafi verið að ræða. Þú skildir nú ekki heldur hvernig stæði á því að Bandaríkjamenn hefðu kosið þennan Trump-náunga. Hann væri ruglaður.

Jæja, elsku pabbi, núna ert þú kominn heim og eflaust farinn að kíkja á kindurnar, keyra út í land til að athuga hvor ekki sé allt í lagi, líta eftir tófu, labba út að beitarhúsum, kíkja í grásleppunetin, athuga hvort túnin séu sprottin, kíkja í kaffibolla eða halla þér í stólnum í sjónvarpsholinu. Hafðu það sem allra best, skilaðu kveðju og ég sé þig í draumunum.

Kveðja,

Guðmundur (Gummi).