Grímur Viðfangsefni Unu eru stundum tilvistarlegs eðlis eða með skírskotanir í bókmenntir eða aðra menningu.
Grímur Viðfangsefni Unu eru stundum tilvistarlegs eðlis eða með skírskotanir í bókmenntir eða aðra menningu. — Ljósmyndir/María Margrét Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gallerí Fyrirbæri Fyrirgef mér námslánin mín ★★★½· Verk eftir Unu Ástu Gunnarsdóttur. Sýningin stendur til 28. febrúar. Opið virka daga kl. 12-16 og eftir samkomulagi.

Myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

Við Ægisgötu 7 í Reykjavík leynist eitt af skemmtilegri sýningarrýmum miðbæjarins en þar er til húsa Gallerí Fyrirbæri sem rekið er alfarið að frumkvæði listamanna sem Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir myndlistarmaður er í forsvari fyrir. Húsið var á sínum tíma byggt fyrir verksmiðju en hýsir nú vinnustofur listamanna og gallerí. Gengið er inn um opnar bílskúrsdyr og við blasir einstaklega hrátt og ílangt rými með grófum og hrjúfum hvítmáluðum veggjum.

Nú stendur þar yfir sýning Unu Ástu Gunnarsdóttur Fyrirgef mér námslánin mín sem lýsa má sem eins konar yfirlitssýningu eða öllu heldur sem samtíningi á þeim verkum sem Una átti í handraðanum og hafa sum hver verið sýnd áður, t.d. í Danmörku. Í sýningartexta segir meðal annars að verkin séu „ótengd, frá handraðanum, og voru unnin fyrir mismunandi viðburði og verkefni en tengjast þó vissulega, þar sem málverkin voru gerð í persónulegu flæði innan ákveðins tímaramma, í frekar nálægum núliðnum samtíma.“ Markmið sýningarinnar er því ekki að tjalda öllu til en hér fáum við að sjá 18 verk frá ýmsum tímum, það elsta frá 2017 en yngsta 2024.

Vakti eftirtekt nýútskrifuð

Una lærði um skeið húsamálun áður en hún sneri sér að listinni og lauk MFA-gráðu frá Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn árið 2017 með áherslu á listmálun og heimspeki. Una var tilnefnd til EXTRACT Young Art Prize árið 2017 en það eru verðlaun sem eru veitt framúrskarandi myndlistarmönnum sem eru nýútskrifaðir úr listaakademíum í Kaupmannahöfn, Peking og London. Þá eru verk hennar í eigu stofnana á borð við Statens Kunstfond og Kaupmannahafnarborg. Samhliða listinni vinnur Una sem þýðandi og hefur einnig starfað við kennslu. Segja má að verk hennar endurspegli þennan fjölbreytta bakgrunn.

Titill sýningarinnar Fyrirgef mér námslánin mín er vísun í fyrirlestur femíníska fræðimannsins Judithar Butler frá 2020 þar sem hún veltir fyrir sér samfélagslegum hugmyndum um skuldir og fyrirgefningu. Vísar hún til þess samfélagslega kerfis þar sem fólk neyðist til þess að taka lán sem reynist síðan ómögulegt að greiða niður og samfélagið dæmir það óábyrgt. Með slíkri orðræðu er ábyrgðinni og sökinni beint að þeim sem verður fyrir barðinu á kerfinu frekar en að ráðast að rót vandans.

Verkin og framsetning þeirra eru jafnhrá og salurinn sem þau eru sýnd í. Verkin eru stór og striginn er ekki festur á blindramma eins og jafnan tíðkast heldur er flatur striginn negldur upp á vegg svo sjáist í grófa og tætta jaðrana sem mynda um leið sjónrænan ramma utan um olíumálverkin. Það sem einkennir málverk Unu er einlægni og frjálsleg meðhöndlun efnis og lita, grófmálaðar línur og breiðar pensilstrokur. Verkin eru litrík og fjarvíddin flött út þannig að litafletirnir njóti sín enn frekar og gefur um leið barnslegan blæ. Verkin eru heldur ekki ofunnin. Una hefur náð tökum á því að vita hvenær á að sleppa tökum af málverkinu, og því ríkir léttleiki og leikur yfir stíl hennar og handbragði en það er ekki á færi allra.

Bera vott um hugmyndaauðgi

Verk Unu eru fígúratív og hún sækir innblástur sinn úr menningu og hversdeginum. Stundum minna þau jafnvel á verk Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur eða jafnvel Edwards Munch en þó eru efnistök og úrvinnsla alltaf eftir höfði Unu sjálfrar. Sjá má gæta áhrifa úr listum, bókmenntum eða daglegu lífi með áherslu á reynsluheim kvenna eins og sjá má glöggt í verkunum „Gleðilegan fæðingardag 1 og 2“. Titlar verkanna bera einnig vott um hugmyndaauðgi Unu og eru stundum jafnævintýralegir og verkin sjálf. Ber þar hæst titil verksins „Orfeus lítur um öxl og verður samkynhneigður af sorg?“ en það verk er úr þriggja mynda seríu sem unnin er upp úr leikriti Elfriede Jelinek. Einnig má nefna titlana „Sígrænn eggjafasabúskapur bergfléttunnar“ og „Afturgöngu Adams og Evu“.

Vonandi sjáum við meira

Sýningin ber þess merki að um er að ræða verk „úr handraðanum“ og undirrituð saknaði þess helst að hafa ekki sýningartexta aðgengilegan í rýminu heldur þurfti að leita hann uppi á netinu. Þá er óljóst hvernig verkin sjálf tengjast fyrirlestri Butlers um fyrirgefningu og skuldir nema þá með almennum hætti, að þau hafi verið gerð á meðan listamaðurinn var að strita við að borga niður námslánin sín. Hver veit? Þetta er hins vegar áhugaverð hugmyndafræði og titill sýningarinnar bæði grípandi og frumlegur.

Fagna ber framtaki á borð við Gallerí Fyrirbæri sem skapar vettvang fyrir fjölbreyttari flóru listamanna til þess að vaxa og dafna sem listamenn. Því miður eiga listamannsrekin rými þó stöðugt undir högg að sækja og algengt er að menningarstarfsemi þurfi að víkja fyrir hótel- og gistiþjónustu eins og stefnir í með Ægisgötu 7.

Sýning Unu er skemmtileg, hrá og lífleg og það er tilefni til þess að áhugamenn um myndlist fylgist með hennar næstu skrefum.