Hildur Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 3. júlí 1944. Hún lést á Landspítalanum 2. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Sveinsson kaupfélagsstjóri, f. 2. maí 1924 á Góustöðum á Ísafirði, d. 2. nóv. 2018, og Ása Kristín Ingólfsdóttir, f. 8. jan. 1927 á Ísafirði, d. 19. nóv. 2006.

Hildur ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Góustöðum, þeim Guðríði Magnúsdóttur, f. 12. ágúst 1891, d. 15. mars 1975 og Sveini Guðmundssyni, f. 22. apríl 1887, d. 4. feb. 1960.

Þann 28. desember 1963 giftist Hildur Karli Bjarnasyni múrara, f. 16. nóvember 1940 á Suðureyri við Súgandafjörð, d. 3. nóvember 2021. Þau eiga fjögur börn, þau eru: 1) Auður, f. 4. maí 1962. Maður hennar er Erling Pétur Erlingsson, f. 29. apríl 1964. Börn þeirra eru Erling Karl, f. 1. desember 1987, maki hans er Hildur Björk Pálsdóttir, f. 5. mars 1993, Atli Freyr, f. 6. júní 1989 og Hildur, f. 27. júní 1998, maki hennar er Benedikt Benediktsson, f. 13. apríl 1996, dóttir þeirra er Auður Ósk, f. 24. apríl 2024. 2) Þorsteinn Sveinn, f. 21. maí 1963. Kona hans er Úlfhildur Jónasdóttir, f. 13. október 1963. Stjúpsonur er Hrafn Ingason, f. 22. september 1988, maki hans er Bjartey Sveinsdóttir, f. 10.2. 1990, sonur er Hlynur, f. 15. ágúst 2001. 3) Svanhildur, f. 28. desember 1966. Maður hennar er Anton Magnússon, f. 19. mars 1966. Stjúpdóttir er Rakel Ósk, f. 9. júlí 1991 og synir eru Breki Már, f. 29. júlí 2003 og Dagur Örn, f. 19. janúar 2009. 4) Lilja Guðríður, f. 31. mars 1975. Maður hennar er Jónas Þór Oddsson, f. 3. október 1977. Börn þeirra eru Magni Snær, f. 9. mars 2003, maki hans er Emilía Þórný Ólafsdóttir, f. 4. júní 2005, Sunna Katrín, f. 4. júlí 2006 og Karl Oddur, f. 28. október 2011.

Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 12. febrúar 2025, klukkan 13.

Það er erfitt í nokkrum orðum að lýsa ævi mömmu sem hefði orðið 81 árs í júlí. Hæglát eða róleg manneskja eru kannski ekki réttu orðin en það bar samt aldrei mikið á henni og hún vildi helst ekki vera í sviðsljósinu. Hún hafði góða nærveru, þekkti marga og öllum sem þekktu hana líkaði vel við hana. Hún talaði aldrei illa um neinn, þrátt fyrir að hún gæti vissulega verið ósammála fólki og staðið fast á skoðunum sínum. Mamma gat líka verið þrjósk á köflum og þurfti tíma til að taka ákvarðanir, en ekki minnumst við þess að hún hafi orðið reið við okkur á allri okkar ævi, nema mögulega einu sinni eða tvisvar. Vorum við kannski svona þægir krakkar? Nei, sennilega var það jafnaðargeð mömmu sem stýrði því en líkt og önnur systkini gátum við krakkarnir rifist og haft hátt.

Mamma og pabbi voru alltaf tilbúin að hjálpa okkur og öðrum ættingjum. Stuðningurinn var ekki í formi peninga enda var oft þröngt í búi. Þegar við systkinin urðum eldri og stofnuðum fjölskyldu var heimili þeirra alltaf opið ef upp komu veikindi, við þurftum tímabundið húsnæði eða eitthvað annað kom upp á. Aldrei var kvartað og mamma alltaf tilbúin að elda og bjóða okkur í mat ef á þurfti að halda. Tengsl hennar við stór fjölskyldu sína voru alltaf góð og fylgdist hún vel með ættingjum og voru ferðirnar á ættarsetrið Góustaði á Ísafirði ófáar. Þegar barnabörnin komu fylgdist hún með þeim af einlægum áhuga og í seinni tíð var hún ekki bara amma þeirra heldur félagi sem þau gátu leitað til og spjallað um hin ýmsu mál þannig að söknuður þeirra er mikill.

Um 1980 fundu mamma og pabbi sér sameiginlegt áhugamál í golfinu og urðum við fjölskyldan þá aðeins útundan. Eina leiðin til að ná í þau var þá á golfvellinum. Í golfinu eignuðust þau marga vini, fyrst í Öndverðarnesi og síðan í Keili. Svo æxlaðist það þannig að flest okkar barnanna eltu þau í golfið og eru ófáir golfhringir sem við höfum spilað saman. Mamma hvatti okkur alltaf áfram og var lítið að tala um afrek sín en oft var það nú samt þannig að í lok hrings hafði hún spilað best af okkur. Gaman varð að vera vitni að því þegar hún fór holu í höggi á Hvaleyrinni þann 17. júní 2022 og var það ekki í fyrsta skipti sem hún afrekaði það.

Mamma og pabbi voru mjög samstiga í golfinu og var það því mikið áfall fyrir mömmu þegar pabbi lést 2021. Þar missti hún bæði ástina og sinn besta vin til 60 ára. Söknuðurinn var mikill og í fyrsta skipti sáum við að mamma átti virkilega erfitt. Núna seinasta árið var hún búin að ná sér á strik aftur, farin að stunda ræktina, sundið og golfið af fullum krafti og keyrði sjálf út um allt. Við fjölskyldan búin að panta golfferð í haust og allir hlökkuðu mikið til.

Það varð okkur öllum því mikið áfall þegar mamma, þessi heilsuhrausta kona, lést úr heilablæðingu á nýja heimilinu sínu að Hraunvangi í byrjun febrúar. Við reynum að hugga okkur við það að pabbi hafi tekið vel á móti henni og nú séu þau í golfi í sumarlandinu.

Elsku besta mamma, við kveðjum þig með söknuði.

Auður (Auja), Þorsteinn (Steini), Svanhildur (Svana) og Lilja.

Ég man fyrst eftir Hildi á heimili þeirra Kalla í Fellsmúlanum, líklega í kringum 1971 þegar ég hef verið um 5 ára. Ég var í pössun einhverja morgna á meðan mamma vann smávegis utan heimilisins. Nokkrum árum seinna fatta ég að mamma mín er líka mamma Hildar. Hún var ekki bara einhver kona úti í bæ, hún var ekki bara mamma Svönu heldur líka systir mín. Pínu skrýtið og ruglingslegt enda höfum við Svana oft ruglað fólk með því að útskýra að við erum ekki bara vinkonur, heldur er ég litla systir mömmu hennar og hún er systurdóttir mín enda sjaldgæft að mæðgur væru ófrískar á sama tíma árið 1966.

Þó að föðurnöfn okkar væru ekki eins var hún Hildur systir fyrir mér. Við töluðum fyrir nokkrum árum saman um þá atburðarás sem veldur því að hún elst ekki upp hjá mömmu. Árið 1944 stendur móðir okkar, þá 17 ára, uppi sem einstæð móðir. Ekki var mikið um vinnu á þessum tíma og móðir okkar átti ekki í mörg hús að venda. Hún fær vinnu sem ráðskona á fínu heimili á Akureyri. Sá hængur var á að húsfreyjan var að jafna sig eftir berkla og því ekki æskilegt að ungbarn væri inni á heimilinu. Því varð Hildur eftir hjá föðurforeldrum sínum á Góustöðum við Ísafjörð sem tóku hana í fóstur. Nokkrum árum seinna er mamma hafði kynnst og gifst föður mínum var ákveðið að Hildur yrði áfram á Góustöðum. Móðir okkar átti í bréfaskriftum við Hildi og fékk hana suður í heimsókn á sumrin. Þar með hélst tenging þeirra á milli og er Hildur flytur suður með Kalla sínum héldu þær mæðgur sambandinu áfram á lofti sem ég er afar þakklát fyrir. Það hefði verið auðvelt að láta sambandið þeirra á milli deyja út þegar Hildur var barn.

Hildur systir var dugnaðarforkur og stöðugt á hreyfingu. Vann eins og þjarkur alla tíð og hélt uppi stóru heimili ásamt Kalla og börnunum fjórum. Heimili þeirra á Suðurvangi í Hafnarfirði var eiginlega mitt annað heimili á tímabili þar sem við Svana vorum svo mikið saman sem börn og unglingar. Ég var alltaf velkomin. Seinna var gott að kíkja í kaffi til Hildar og Kalla í Klukkuberginu. Hildur var ávallt til í spjall og skraf og skemmtilegar sögur.

Það var mikið áfall þegar Kalli féll frá fyrir nokkrum árum enda voru þau búin að vera saman upp á næstum hvern einasta dag í um 60 ár. Mér þótti því vænt um að hún var farin að njóta sín í íbúðinni sinni á Hrafnistu. Hressari og hraustari 80 ára gamla konu var vart að finna. Hún var dugleg að fara í sund og golf og hafði nóg að gera. Sá tími hefði bara mátt vera aðeins lengri.

Elsku Auja, Steini, Svana, Lilja og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur. Minningin lifir.

Inga Sigrún (Inga Rúna).

Fyrir allmörgum árum ákváðum við nokkrar konur að búa til hóp og spila saman golf vikulega á sumrin og pútta inni á veturna. Traust og góð vinátta og skemmtileg samvera hefur ávallt einkennt þennan hóp sem við nefndum Sveiflurnar. Hildur var ein af okkur, ávallt jákvæð og drífandi, hvort sem það var að spila golf eða skipuleggja golfferð fyrir okkur. Það er mikið áfall og sárt að missa Hildi úr hópnum okkar. Við minnumst hennar með miklu þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar. Hún var sannarlega traustur og góður félagi. Við vottum fjölskyldu hennar samúð og biðjum þess að allar góðu minningarnar styrki ykkur og huggi.

Vinkonur Hildar – Sveiflurnar,

Inga Magnúsdóttir.