Samtal eða enn skemmtilegra eintal gleymist seint

Þann
11. þessa mánaðar voru 50 ár frá því að Margrét Thatcher varð forsætisráðherra, fyrst kvenna í Bretlandi. Valdatíð hennar varð mun lengri en nokkur spáði og mun sögulegri en flestir eða nokkur spáði fyrir um, á þeim degi. Og þótt hún hefði mjög lengi með eindæmum sterka stöðu í bresku ríkisstjórninni þá losaði hún sig smám saman við þá flokksbræður sína, og eftir atvikum flokkssystur, sem létu ekki nægjanlega vel að stjórn.

Valdatími hennar var þó ekki eilífur dans á rósum, og frú Thatcher varð fyrir mörgum pólitískum árásum og morðárásum andstæðinga sinna, og vitað var að allmargir flokksbræðra hennar gerðu henni flest til bölvunar, ef þeir gátu. Þar má nefna Edward Heath, einn af fyrirrennurum hennar í forsætisráðuneytinu, og Michael Heseltine, sem hafði lengi mjög álitlegan hóp manna tilbúinn til að leggja til atlögu við hana, einkum ef þeir töldu að forsætisráðherrann stæði, á þeim tiltekna tíma, höllum fæti. En mjög lengi stóð hún af sér allar tilraunir andstæðinganna, innan flokks sem utan, til að velta henni úr sessi. En „Frúin“ sú átti auðvitað sína öflugu stuðningsmenn, sem stóðu með henni í gegnum þykkt og þunnt, þótt sumir þeirra sem hún treysti brygðust þegar þeir töldu sér orðið óhætt. Slíkt er þekkt víða, þegar horft er um öxl, jafnvel um þúsundir ára.

Frú Thatcher gerði rækilegar og mikilvægar breytingar á stefnu Bretlands í ýmsum greinum, og hún tók fast á móti þegar ýmsar greinar gamlaðrar verkalýðshreyfingar ríghéldu í gamla og úrelta verksnotkun og gerðu til að mynda nokkrar alvarlegar atrennur að veldi hennar, og að breska stjórnkerfinu og hnignandi atvinnulífi. Þar á meðal er í minnum haft mjög erfitt prentaraverkfall, sem lauk þó með sigri hennar og er vafalítið að Rupert Murdoch fjölmiðlakóngur gerði sitt til að tryggja forsætisráðherranum sigur.

Her Argentínu, undir stjórn herstjórnarinnar þar, gerði árás á Falklandseyjar, sem voru þá og eru nú undir breskum fána þótt í órafjarlægð séu frá Bretlandseyjum. Frú Thatcher taldi rétt og skylt að taka á móti þessari „ósvífnu“ árás, og höfðu margir litla trú á því að Bretland myndi geta um svo mikla vegalengd staðið árásarher snúning, sem var með sína aðstöðu skammt frá bardagasvæðinu. Það er lítill vafi á því að þá var traustasti vinur „járnfrúarinnar“ Ronald Reagan, húsbóndi í Hvíta húsinu, og gerði hann sitt til að standa á bak við vinkonu sína. Þegar sigur vannst má rétt ímynda sér hversu hátt breskur forsætisráðherra stóð þann tíma í áliti þjóðarinnar og nokkurn tíma á eftir í ímynd hennar.

Engu að síður hófst síðar samblástur gegn henni, innan Íhaldsflokksins, og þótt þar munaði ekki mjög miklu. Hún hafði þá verið forsætisráðherra í 11 ár samfellt. Hún varð forsætisráðherra árið 1979 og var endurkosin með glæsibrag 1983 og 1987.

Þeim sem átti þess kost að sækja frú Thatcher heim og eiga við hana stórfróðlegt spjall í klukkutíma, þar sem járnfrúin talaði í 57 mínútur af þeim 60 sem úr var að spila, og hefði hún gjarnan mátt nota einnig þrjár mínúturnar sjálf, var stundin með henni ógleymanleg, og hafsjórinn af fróðleik ekki síst.