Skoski knattspyrnumaðurinn Kieran Tierney er búinn að semja við Celtic í heimalandinu og mun skipta yfir til félagsins frá Arsenal í sumar þegar samningur hans við enska félagið rennur út. Tierney þekkir vel til hjá Celtic en hann kom til Arsenal árið 2017 frá Celtic. Tierney hefur spilað 129 leiki fyrir Arsenal, skorað fimm mörk og lagt upp 13 til viðbótar. Hann hefur hins vegar aðeins leikið fimm leiki á þessari leiktíð.
Gunnar Nelson er mættur í æfingabúðir í Zagreb í Króatíu fyrir bardaga sinn gegn Kevin Holland á UFC-bardagakvöldinu í London 22. mars næstkomandi. Gunnar berst við Bandaríkjamanninn í sínum fyrsta bardaga í veltivigt í blönduðum bardagalistum á árinu.
Markvörðurinn ungi Jón Sölvi Símonarson hefur verið lánaður frá Breiðabliki og til ÍA út komandi tímabil. Jón Sölvi, sem er 17 ára gamall, hefur ekki leikið keppnisleik með meistaraflokki en hann á samanlagt 12 leiki með U17 og U19 ára landsliðum Íslands. Hann er efnilegur markvörður sem hefur m.a. farið á reynslu til Midtjylland í Danmörku.
Handknattleiksmennirnir Dagur Fannar Möller og Max Emil Stenlund hafa skrifað undir nýja samninga við Fram sem gilda til sumarsins 2028. Dagur Fannar er 21 árs línumaður sem er á sínu öðru tímabili með Fram eftir að hafa komið frá Val. Max Emil er aðeins 17 ára gamall, leikur í stöðu hægri skyttu, og er þrátt fyrir ungan aldur á sínu öðru tímabili með aðalliði Fram.
Sif Atladóttir, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Leikmannasamtaka Íslands. Tekur Sif við starfinu af Kristni Björgúlfssyni. Sif hafði verið verkefnastjóri LSÍ frá árinu 2022 þar sem hún sinnti margvíslegum verkefnum. Áður var Sif til að mynda í stjórn leikmannasamtakanna í Svíþjóð þar sem hún talaði máli barnshafandi íþróttakvenna.