Hælisleitendur Umsækjendur um hæli hafa verið iðnir við kolann í mótmælum.
Hælisleitendur Umsækjendur um hæli hafa verið iðnir við kolann í mótmælum. — Morgunblaðið/Eggert
Launakostnaður vegna ríkisstarfsmanna sem sinna stjórnsýslu í málefnum hælisleitenda hér á landi hefur stóraukist á undanförnum árum og athygli vekur að enda þótt opinber fjárframlög til málaflokksins hafi lækkað um u.þ.b

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Launakostnaður vegna ríkisstarfsmanna sem sinna stjórnsýslu í málefnum hælisleitenda hér á landi hefur stóraukist á undanförnum árum og athygli vekur að enda þótt opinber fjárframlög til málaflokksins hafi lækkað um u.þ.b. þriðjung á milli áranna 2022 og 2023, fjölgaði stöðugildum og hlutfall launakostnaðar hækkaði.

Á þetta bendir Róbert Bragason, stjórnarmaður í Samtökum skattgreiðenda, í samtali við Morgunblaðið, en upplýsingarnar eru fengnar úr gáttinni Opnir reikningar, sem fjármálaráðuneytið heldur úti.

Til málaflokksins var varið alls 2.085 milljónum árið 2023 og lækkaði kostnaðurinn um 1.077 milljónir frá árinu áður þegar hann var 3.162 milljónir. Á tímabilinu 2017 til 2023 var heildarfjárframlagið tæpir 21,5 milljarðar, skv. upplýsingum frá samtökunum.

Í samantekt Samtaka skattgreiðenda kemur fram að launakostnaður vegna þessa hafi verið um 520 milljónir árið 2023 og hækkaði hann úr tæpum 450 milljónum árið áður. Árið 2022 var fjöldi stöðugilda 37,8 að jafnaði yfir árið, en fór í 43,3 stöðugildi 2023. Sömu sögu er að segja um aðkeypta sérfræðiaðstoð sem fer úr 680 milljónum árið 2022 í 880 milljónir árið 2023.

Ef litið er aftur til ársins 2017 sést að hlutfall launakostnaðar af fjárframlögum til málaflokksins nam 6,7%, en fór í 24,9% 2023. Er þar um mikla hækkun að ræða frá árinu 2022 þegar launakostnaðarhlutfallið var 14,1%. Hlutfall kostnaðar vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu af heildarframlagi til málaflokksins nam að sama skapi 21% árið 2017 en 42% árið 2023.

Stöðugildin sem um ræðir voru 25,7 að jafnaði árin 2017 til 2019, fjölgaði í 38 árið 2020 og voru því sem næst óbreytt þar til árið 2023, þegar þau voru orðin 43,3 eins og fyrr segir. Inni í þessum tölum teljast ekki þeir sem veita talsmannaþjónustu, túlkaþjónustu, heilbrigðisþjónustu eða beina félagslega þjónustu.

Heildarlaunakostnaður hins opinbera vegna þessarar þjónustu nam tæpum 2.140 milljónum króna á tímabilinu 2017 til 2023 og aðkeypt sérfræðiþjónusta 5.250 milljónum króna. Á sama tímabili var launakostnaður um 10% að jafnaði á ári, en árið 2023 sker sig mjög úr í þessu tilliti, eins og að framan greinir.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson