Sigríður Anna Þorgrímsdóttir (Anna Sigga) fæddist í Reykjavík 15. ágúst 1947. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 31. janúar 2025 í faðmi fjölskyldunnar.

Foreldrar hennar voru Aðalheiður Sigríður Skaptadóttir húsmóðir, f. 10.8. 1920, d. 13.4. 2004, og Þorgrímur Einarsson offsetprentari, f. 20.6. 1920, d. 21.8. 2007. Bræður hennar eru Skapti Þorgrímsson, f. 25.9. 1945, d. 16.10. 2021, Einar Þorgrímsson, f. 30.9. 1949, og Ragnar Lúðvíg Þorgrímsson, f. 25.6.1953, d. 18.3. 2009.

Fyrrverandi eiginmaður Önnu Siggu er Þorsteinn Steingrímsson, f. 19.7. 1947.

Börn þeirra eru:

1) Aðalheiður Lind, f. 4.6. 1966, gift Ingimundi Ellert Þorkelssyni, börn þeirra eru, Anna Steina, f. 1992, og Aron Andri, f. 1997. Ingimundur á fyrir Alexöndru Eyfjörð, f. 1989. 2) Steinunn Björk, f. 2.4. 1970, í sambúð með Sigurjóni Ragnari Sigurjónssyni. Börn Steinunnar eru Anna Alexandra, f. 1986, hún á Perlu Sól, f. 2005, og Þorstein Mána, f. 2007, Þorsteinn, f. 1988, giftur Valeríju, börn þeirra eru, Vladimir Skapti, f. 2019, og Valentín Einar, f. 2021. Sigurjón á fyrir Karen Ýri, f. 1993. 3) Steingrímur Jón, f. 19.7. 1975, börn hans eru; Anna Teresa, f. 2012 , Angelina Aðalmargrét, f. 2014, og Alexander Thorsteinn, f. 2015. 4) Skapti, f. 15.5. 1977, giftur Elzu Alikhanian. 5) Margrét, f. 15.5. 1977, gift Almari Gunnarssyni. Börn þeirra eru Selma Björk, f. 1999, Þórunn Anna, f. 2002, og Aron Bjarki f. 2010.

Eftirlifandi eiginmaður Önnu Siggu er Gylfi Sveinsson, f. 31.5. 1948. Börn hans eru Haukur Freyr, f. 1973, og Hulda Bjarkar, f. 1983.

Anna Sigga ólst upp í Norðurmýrinni en á sumrin dvaldi hún í Mýrdalnum hjá frændfólki og undi hag sínum vel þar. Hún stundaði nám í Austurbæjarskóla, Gaggó Aust og í Menntaskólanum í Reykjavík. Árið 1988 útskrifaðist hún sem lyfjatæknir.

Anna Sigga starfaði sem lyfjatæknir í Reykjavíkurapóteki, Vesturbæjarapóteki og Nesapóteki.

Tónlist var hennar ástríða. Í æsku söng hún, ásamt Soffíu Árnadóttur, Komdu niður sem sló rækilega í gegn. Stjörnuplötur gáfu út fimm lög með Önnu Siggu og Soffíu sem öll náðu miklum vinsældum. Hún var í söngnámi hjá Sigurði Demetz og söng m.a. í Pólýfónkórnum, Söngsveitinni Fílharmóníu og Óperukór Hafnarfjarðar.

Útför Önnu Siggu fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 12. febrúar 2025, klukkan 13.30. Streymt er frá athöfn.

Í dag leggjum við elsku mömmu til hinstu hvílu. Það er sárt til þess að hugsa að fá ekki að hitta hana aftur en jafnframt þakklát fyrir að hún sé búin að hvíld frá veikindum sínum.

Mamma var alin upp á miklu tónlistarheimili og tónlistin var henni alltaf hjartfólgin. Hún var fyrsta barnastjarnan á Íslandi og varð landsfræg fyrir söng sinn, meðal annars lagið „Komdu niður“. Rödd hennar lifir áfram í hjörtum okkar og minnir okkur á allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman þar sem hún var ýmist að spila á gítar, píanó eða skemmtarann.

Hún var mikil félagsvera og spilaði bridds á hverju mánudagskvöldi með vinkonum sínum þegar við vorum yngri og þá voru alltaf svaka veitingar og við krakkarnir biðum spennt eftir að þær væru búnar til þess að komast í afgangana. Mamma var einnig virk í hinum ýmsu kórum í gegnum árin. Þetta voru hennar stundir til að njóta vina sinna og andlegrar áskorunar.

Á ferðalögum var alltaf mikið sungið og við þurftum að læra að kveðast á, sem okkur fannst nú misskemmtilegt. Þegar ég var 12 ára vorum við erlendis og viti menn, áður en ég vissi var mamma komin upp á svið að skemmta en það var nú ekki nóg. Ég var kölluð upp á svið og þurfti að radda og að sjálfsögðu var lagið tekið á íslensku og ensku. Þannig var hún, alltaf til í stuð.

Ég á margar frábærar minningar úr sveitinni, hvort sem það var í Mýrdalnum þar sem hún elskaði að vera en hún var þar í sveit sem barn og hélt alltaf samskiptum við sitt fólk þar eða í bústaðnum okkar við Hellu.

Ég minnist mömmu með kærleika og þakklæti í hjarta og hennar verður sárt saknað.

Þín dóttir,

Margrét.

Fyrstu minningar mínar af ömmu voru heima á Víðimelnum þegar amma var í eldhúsinu að elda ofan í okkur öll, stórfjölskylduna. Þar voru langömmur, langafar, frændur og frænkur í bunkum. Gleymi því ekki þegar ég horfði á ömmu, sem er merkilegasta kona sem ég hef nokkurn tímann kynnst. hún var alla tíð með marga potta og pönnur á lofti, syngjandi og dansandi, þetta var ótrúleg sjón.

Er ég sat hjá henni síðustu daga hennar uppi á Brákarhlíð varð mér enn betur ljóst þvílík kona hún amma mín var. Hún fór hvergi án þess að brosa og koma öllum í gott skap og hjálpa til, alltaf hefur hún verið haukur i mínu horni sama hvaða prakkarastrik ég hef tekið mér fyrir hendur… aldrei trúði amma neinu slæmu upp á mig og hún varði mig í hvert einasta sinn. Mér þykir alveg ótrúlega gott að hafa vera svona náinn ömmu minni, hún hefur alltaf verið meira en bara amma. Hún var alltaf minn traustasti vinur.

Hér er ljóð sem amma samdi til mín og Valeríju í tilefni brúðkaups okkar.

Yndisleg eru þau ástarparið,

sem feta sér fljótt innum kirkjunnar dyr.

Hjá heilögum anda þau brátt gefa svarið,

að eilífu verða þau hvers annars
sér til hlið.

Þetta er fólkið sem við dáum mest,

enda af okkur borið.

Mega þau öðlast sem best

inn í göngu sína inn í vorið.

Þinn ömmustrákur

Þorsteinn.

Elsku amma mín, Anna Sigga, var fyrsta barnastjarnan á Íslandi og söng lagið Komdu niður ásamt fleiri vinsælum lögum.

Ég verð dugleg að halda áfram að syngja og spila á píanóið eins og við gerðum mikið saman þar til þú veiktist en ég hitti þig fljótlega aftur því nú ertu komin yfir komin í góða lífið sem þú þráðir og ég stend við allt það sem við töluðum um amma mín, það er loforð.

Það er erfitt að kveðja þig, en á sama tíma finn ég fyrir miklu þakklæti fyrir allar fallegu minningarnar sem við eigum saman. Þú varst mér ekki bara amma, þú varst mér eins og móðir, besti vinur minn og ljósið í lífi mínu eins og krakkarnir. Ég er skírð í höfuðið á þér og það er mér mikils virði og heiður.

Ég man enn eftir dýrmætum stundum okkar saman í sumarbústaðnum Kvistum, þar sem við gróðursettum radísur og fleira, og ég var svo dugleg að smakka afraksturinn. Ég gleymi heldur aldrei ferðunum okkar í berjamó, þar sem við nutum náttúrunnar og samverunnar. Þessar stundir voru ómetanlegar og munu lifa í hjarta mínu að eilífu. Öll símtölin sem við áttum á hverjum degi frá því að ég man eftir mér sem stóðu í klukkustund eða meira áður en þú veiktist, nú veit ég ekki hvert ég á að leita elsku amma mín, en sem betur fer hef ég guð mér við hlið. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér, ég er sterk enda með þín gen alla leið, tek verkina eins og þú amma mín. Við sjáumst fljótlega aftur elsku amma mín eins og ég lofaði þér.

Elsku amma mín, ég veit að þú ert núna í draumalandinu góða, þar sem þér líður vel. Þú varst svo einstök, svo góð og hlý, og nú ert þú fallegur engill sem vakir yfir okkur. Ég veit að krummarnir þínir fylgja okkur fjölskyldunni og að þú munt alltaf vera nálægt í hjarta mínu. Krummarnir eru komnir til mín núna seinustu daga og ég veit það ert þú.

Ég man eftir því þegar ég loksins fann þig eftir langa bið og margra ára leit og missti þig strax aftur, þegar þú heimsóttir mig og sýndir mér höndina með Íslandi. Ég knúsaði þig svo fast því ég var loksins komin heim til þín, og þú gafst mér sama varalitinn sem þú notaðir alltaf þegar ég var lítil á spítalanum – táknræna gjöf sem ég mun alltaf varðveita. Þá sagðir þú mér að þú hefðir alltaf fylgst með mér og værir ekki áhyggjufull, því þú vissir að ég væri sterk. Þín orð munu alltaf vera mér styrkur.

Ég geymi allar fallegu minningarnar um okkur í hjarta mínu. Þú ert mér allt, elsku amma mín, og ég sakna þín óendanlega. Hvíldu í friði, fallegi engillinn minn, og Guð geymi þig. Ég veit að við sjáumst aftur fljótlega.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Lífið er aðeins lítil stund,

ánuð og tekin aftur.

Þú fæðist og lifir á lánaðri grund,

uns leggur þig hulinn kraftur.

Far þú nú, elsku amma mín

í faðminn þeirra sem bíða þín.

Ljós þitt skín í himinsins hæð,

þar sem englar syngja í kærleiks blíð.

Amma mín, hvíldu í friði og guð geymi þig þangað til næst.

Með allri minni ást, kærleika og söknuði og kveðja frá ömmu Jóhönnu Maríu Kristjánsdóttur og föðurættinni.

Þitt fyrsta barnabarn,

Anna Alexandra Birgisdóttir/Steinunnardóttir.