Jóhanna Jórunn Thors Einarsdóttir fæddist þann 8. september 1937. Hún lést á Landakoti 2. febrúar 2025.
Foreldrar Jóhönnu voru Einar Baldvin Guðmundsson, f. 28.12. 1903, d. 4.2. 1974, hrl., og Kristín Ingvarsdóttir, f. 10.2. 1908, d. 4.4. 1975, húsfreyja. Systkini Jóhönnu voru Axel, f. 1931, d. 1986, hrl., og Kristín Klara, f. 1952, skrifstofustjóri.
Jóhanna giftist 7. júní 1960 Ólafi B. Thors, f. 31.12. 1937, d. 28.6. 2021, forstjóra og hdl. Hann var sonur Hilmars Thors, f. 7.7. 1908, d. 10.7. 1939, málflutningsmanns, og Elísabetar Ólafsdóttur Thors, f. 4.7. 1910, d. 16.12. 1999, húsfreyju.
Sonur Jóhönnu og Ólafs er Hilmar, f. 3.12. 1965, framkvæmdastjóri, en kona hans er Hlíf Thors Arnlaugsdóttir, f. 1.2. 1972, verkefnastjóri við Hugvísindasvið HÍ. Synir þeirra eru Ólafur Baldvin Thors, MS í hagfræði, f. 6.12. 1996, og Benedikt Thor Thors, nemi í hagfræði við HÍ, f. 25.12. 2002, unnusta hans er Íris Björk Ágústsdóttir, nemi í stjórnmálafræði við HÍ, f. 7.9. 2001.
Jóhanna gekk í Melaskóla og síðar í gagnfræðaskólann við Hringbraut. Hún lauk landsprófi í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, Gaggó vest. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1957. Hún lagði stund á enskunám í Cambridge og við Háskóla Íslands.
Jóhanna kom víða við á starfsferli sínum. Hún starfaði hjá Almennum tryggingum hf. um árabil. Þá kenndi hún ensku við Langholtsskóla um nokkurt skeið. Árið 1979 hóf hún störf hjá Landssambandi lögreglumanna og vann þar til 1986. Síðar vann hún um tíma hjá Hvöt, félagi sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, og Landssambandi sjálfstæðiskvenna.
Ólafur var aðalræðismaður Japans á árunum 1982-2002 og tók Jóhanna ávallt virkan þátt í störfum hans á þeim vettvangi.
Jóhanna var sannur Vesturbæingur. Hún fæddist á Marargötu 3, bjó síðar við Hringbraut á meðan foreldrar hennar reistu hús við Víðimel 27, en þangað flutti hún níu ára gömul og leit ávallt á það sem sitt æskuheimili. Þau Ólafur bjuggu sín fyrstu hjúskaparár í kjallaranum þar, í skjóli Einars Baldvins og Kristínar. Þaðan fluttu þau á Hjarðarhaga en lengst bjuggu þau hjón á Hagamel 6, eða frá 1974.
Jóhanna og Ólafur voru dugleg að ferðast, innan lands sem utan. Lundúnir áttu sérstakan sess í huga þeirra, en þau heimsóttu borgina reglulega eftir að hafa búið þar um skeið á yngri árum. Frístundum sínum vörðu þau svo jafnan í sumarbústað sínum við Þingvallavatn. Jóhanna hafði áhuga á bridge og spilaði reglulega í góðum hópi vina um áratugaskeið.
Útför Jóhönnu fer fram frá Neskirkju í dag, 12. febrúar 2025, og hefst athöfnin kl. 13.
Í dag kveð ég tengdamóður, bestu vinkonu, minn helsta stuðningsmann og fyrirmynd á svo mörgum sviðum. Það eru rétt rúm 30 ár síðan ég kom inn í fjölskyldu Hilmars og Jójó, mamma hans, tók mig að sér eins og eigin dóttur. Við kynntumst fljótt vel, ekki síst uppi í sumarbústað þeirra Óla við Þingvallavatn, þar sem við vorum mikið saman. Þegar Óli og Bensi bættust í hópinn urðum við enn nánari. Jójó var einstök manneskja, falleg og glæsileg, kát og sjarmerandi, en fyrst og fremst svo hlý og góð. Ótrúlega gjafmild, örlát og hugulsöm. Hún lagði sig fram við að gleðja aðra og gerði það betur en flestir. Hún hélt bestu og skemmtilegustu boðin, átti glæsilegasta heimilið, eldaði besta matinn og bakaði bestu kökurnar, gaf fallegustu gjafirnar og var hrókur alls fagnaðar.
Hún var mikil fjölskyldumanneskja. Hún talaði mikið um bernsku sína, foreldra og aðra ættingja. Menntaskólaárin og gamla vini. Hennar æskuminningar voru góðar. Hún ólst upp á fallegu og glæsilegu heimili þar sem var mikill gestagangur og hún lagði mikið upp úr því að halda fjölskyldunni saman. Hún virtist hrista allt fram úr erminni en auðvitað var það ekki þannig. Á bak við allar veislurnar var mikil vinna og mikil skipulagning. Hún geymdi aldrei neitt til morguns sem hún gat gert í dag. Hún hugsaði fyrir öllu og undirbjó allt og þess vegna varð allt svo afslappað. Því þegar veislan hófst og fólk fór að streyma að naut hún samvistanna af heilum hug og skemmti sér vel.
Hún hélt stórkostleg jól og ekki síður áramót. Ólafur, tengdafaðir minn heitinn, átti afmæli á gamlársdag og áratugum saman safnaðist stórfjölskyldan saman hjá þeim þann dag og þar var árið kvatt með glæsibrag. Þetta þjappaði fjölskyldunni saman og gerði alla nánari. Veisluborðið svignaði undan veitingum og fullar konfektskálar mátti finna í hverju horni. Allir stólar voru þægilegir, alls staðar voru lítil hliðarborð þar sem maður gat lagt frá sér glös og diska, fjórar samliggjandi stofur voru fullar af listaverkum og lýsingin kom mestmegnis frá fjölda borðlampa og kertaljósa. Þarna leið öllum vel og allir sátu lengi. Hún var líka heppin með fjölskyldu, umkringd góðu og skemmtilegu fólki. Ekki síst yngri systur sinni, Kristínu Klöru og hennar eiginmanni, Árna Indriðasyni, sem kvaddi okkur fyrir nokkrum vikum. Þau og börnin þeirra voru henni mjög hjartfólgin og náin og voru mikið hjá henni alla tíð.
Best var hún þó við syni mína tvo, barnabörnin sín. Hún dekraði við þá frá því áður en þeir fæddust, fylgdist með hverju skrefi og hverju orði og dáðist að öllu sem þeim tengdist. Hún var líka mikill vinur þeirra, spilaði við þá, hló og grínaðist. Skiptist á menntaskólasögum, þegar að því kom, eins og hún hefði verið nokkrum árum á undan þeim í skóla en ekki sex áratugum. Því hún var alltaf ung í anda, alltaf tilbúin í smá glens og fjör og alltaf að plana eitthvað skemmtilegt.
Hún var einstök og hennar verður sárt saknað.
Hlíf Thors Arnlaugsdóttir.
Í dag kveðjum við ömmu okkar með miklum söknuði en aðallega þakklæti. Við höfum alla tíð verið mjög nánir ömmu, einu barnabörn hennar og vildi hún alltaf allt fyrir okkur gera. Sem börn var alltaf mikil tilhlökkun að fara á Hagamel til hennar og afa og má með sanni segja að við lítum á Hagamel sem okkar annað æskuheimili.
Sama á hvaða tíma maður fór til þeirra, hvort sem það var boð eða bara ákveðið að kíkja á Hagamel var allt óaðfinnanlegt og leið manni hvergi betur. Hún var besti gestgjafi sem hægt er að hugsa sér og minningar af jólum og áramótum á Hagamel munu aldrei gleymast. Með aldrinum hefðu margir hugsað sér að gott væri að flytja í minna húsnæði með færri stigum en það kom aldrei til greina hjá ömmu. Allt fram að nóvember síðastliðnum bjó hún þar og var allt eins glæsilegt og hafði alltaf verið.
Afi og amma voru einstakt teymi og er það ein mesta gæfa okkar lífs hversu miklum tíma við fengum að eyða með þeim. Frá því að afi veiktist 2008 leið líklega ekki vika þar sem við komum ekki á Hagamel. Búðarferðir með þeim voru vikulegur viðburður í okkar lífi – framan af Óli með þeim báðum en svo tók Bensi við í kringum þann tíma sem afi fór á Sóltún. Það var alltaf mikil gleði sem fylgdi búðarferðunum enda voru afi og amma ekki bara góð við okkur heldur afskaplega fyndin og skemmtileg. Hún bauð alltaf upp á eitthvað gott með kaffinu og var undantekningalaust tekinn fram spilastokkur og spilað.
Amma var mikill húmoristi og mjög skörp allt fram í það seinasta. Hún var ung sál og leið manni aldrei eins og hún væri orðin gömul þegar maður spjallaði við hana. Hún var mikill Íslendingur og hefði hvergi annars staðar átt að búa. Hennar draumaveður var 15 gráður og helst engin sól. Það stoppaði hana þó ekki í að fara með okkur til útlanda og minningar af Ítalíuferðum með fjölskyldunni munu ávallt fylgja okkur.
Fjölskyldan var henni alltaf mikilvægust og var hún algjör miðpunktur í hversu góð og náin samskipti eru þar á milli. Hún lagði mikið upp úr því að hafa mikinn samgang á milli okkar og fjölskyldu Kristínar Klöru systur sinnar sem hefur alla tíð verið nánasta fjölskylda okkur bræðra.
Síðustu mánuðir voru erfiðir en hún var samt alltaf bjartsýn og sjálfri sér lík. Við áttum saman frábær jól og var hún strax farin að hugleiða jólagjafir næsta árs og hvort við ættum ekki að vera fyrr á ferðinni að klára innkaupin þá. Það lýsti henni einstaklega vel, en gjafmildari manneskju var hvergi hægt að finna.
Amma var einstök kona, persónuleiki sem allir sem þekktu hana munu sakna. Hún var eins góð amma og hægt er að hugsa sér. Takk fyrir allt elsku amma.
Ólafur Baldvin Thors og Benedikt Thor Thors.
Elsku Jójó systir mín er látin. Ég hugsa til hennar með mikilli hlýju, söknuði og virðingu. Hún var 15 árum eldri en ég og þegar við misstum foreldra okkar var ég rúmlega tvítug og má segja að hún og Óli mágur minn hafi hreinlega tekið okkur Árna að sér og þau reyndust börnum okkar eins og afi og amma. Þegar ég hugsa til baka er ekki ein einasta hátíðarstund í mínu lífi án þess að fjölskyldur okkar systra hafi verið saman. Systir mín var höfðingi heim að sækja og ákaflega gjafmild, sem ég og fjölskylda mín fengum svo sannarlega að njóta. Hilmar, einkasonur þeirra, fæddist þegar ég var 13 ára og er hann í mínum huga frekar eins og litli bróðir minn en frændi og afar kært er á milli barna minna og fjölskyldu Hilmars. Ég mun sakna systur minnar óumræðilega mikið og kveð hana með miklu þakklæti fyrir allt sem hún og Óli mágur minn gerðu fyrir mig og fjölskyldu mína.
Kristín Klara Einarsdóttir.
Elsku Jójó móðursystir mín var uppáhaldsfrænka mín. Jójó var reyndar svo miklu meira en bara frænka. Æskuminningar mínar snúast að miklu leyti um Jójó og Óla og fallega heimilið þeirra við Hagamel 6. Mamma mín og Jójó voru mjög nánar systur og við eyddum öllum hátíðarstundum saman. Við héldum til dæmis jóla- og páskahátíðir saman alveg þangað til það fór að fjölga verulega í fjölskyldunni. Við vorum saman á aðfangadag, annan í jólum og héldum upp á afmæli Óla á gamlársdag. Þetta eru mínar bestu æskuminningar. Einnig gistum við systkinin oft hjá þeim á nýársdag á meðan foreldrar okkar voru vant við látnir. Þar spiluðum við og spjölluðum langt fram á kvöld og horfðum svo á bíómynd saman. 1. janúar var því alltaf einn af mínum uppáhaldsdögum. Þegar ég var í Melaskóla fór ég oft yfir götuna til Jójó eftir skóla þar sem við spjölluðum og spiluðum á meðan hún gaf mér að borða. Þessar heimsóknir héldu svo áfram í gegnum tíðina og alltaf voru þær jafn skemmtilegar. Við gátum setið lengi og spjallað um allt og ekkert. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á því sem var að gerast í mínu lífi og urðum við aldrei uppiskroppa með umræðuefni. Það var líka mikið hlegið enda enginn eins fyndin og Jójó. Og ekki vantaði kræsingarnar. Jójó sá alltaf til þess að það væru kökur á borðum og súkkulaði í skálum þegar fólk kom í heimsókn. Hún var alltaf svo hlý og góð og væntumþykja hennar í garð fjölskyldu sinnar fór ekki fram hjá neinum. Við vorum svo heppin að vera partur af fjölskyldu hennar.
Ég kveð elsku Jójó mína með miklum söknuði, en mun ylja mér við dásamlegar minningar um einstaka konu.
Ég votta elsku Hilmari, Diddu, Óla og Bensa innilega samúð mína.
Hildur Árnadóttir.
Jójó móðursystir mín er ein skemmtilegasta manneskja sem ég hef þekkt. Afi minn og amma féllu frá um það leyti sem ég fæddist og má segja að hún og Óli hafi tekið að sér hlutverk þeirra hvað okkur systkinin varðar. Samband hennar og Óla var einstakt og voru þau og Hilmar alla tíð mjög stór hluti af lífi okkar. Minningarnar eru ótal margar og allar jákvæðar, enda öll með eindæmum skemmtileg og heilsteypt. Samverustundir á jólum, áramótum, í sumarbústaðnum á Þingvöllum koma fyrst upp í hugann en einnig fjölmargar hversdagslegri stundir. Þó að hún hafi verið móðursystir mín og að hluta til gengið í hlutverk ömmu minnar var samband okkar oft líkara því að hún væri stóra systir mín.
Þegar ég byrjaði í Melaskóla fór ég oft beint eftir skóla yfir götuna til Jójó og beið þangað til mamma kom og sótti mig. Við fengum okkur hressingu, spjölluðum og spiluðum. Þessari hefð héldum við alla mína skólagöngu, allt þar til ég lauk námi í háskólanum. Með reglulegu millibili kom ég til hennar eftir skóla í spjall og spil. Þetta voru yndislegar stundir og afar dýrmætar. Við ræddum málefni líðandi stundar, hlógum og skemmtum okkur. Jójó var frábær húmoristi og hafði sérstakt lag á því að sjá sniðugar hliðar á málum sem aðrir sáu ekki. Frásagnarstíll hennar, þar sem stílbrögðin ýkjur, úrdráttur og íronía voru í aðalhlutverki, var dásamlegur og græskulaus kímnigáfan allsráðandi. Jójó var af kynslóð sem man tímanna tvenna og fannst mér ekki síður gaman að ræða við hana um lífið áður en ég fæddist og fræðast um menn og málefni þess tíma.
Jójó hafði skýr gildi í lífinu og vék ekki frá þeim. Hún stóð þétt við bakið á sínu fólki og var einstaklega trygglynd. Góðvildin og hlýjan skein af henni og var alltaf jafn ljúft og gaman að vera með henni.
Missirinn er mikill, sérstaklega fyrir Hilmar, Diddu, Óla og Bensa, en samband þeirra við Jójó var afar náið. Veikindi Óla og svo Jójó voru á köflum strembin en það hefur verið aðdáunarvert að sjá hvernig samheldni þeirra hefur verið á erfiðum tímum.
Ég mun aldrei fá fullþakkað þá gæfu að hafa haft Jójó í lífi mínu og þau áhrif sem hún hafði á mig. Ég kveð hana með miklum söknuði en yndislegar minningar um einstaka konu ylja.
Hvíl í friði, elsku frænka mín.
Einar Baldvin Árnason.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
(Úr Hávamálum)
Við vorum fimm æskuvinir sem fórum að þessum ráðum Hávamála. Allir stúdentar úr MR 1957. Sá er þessar línur ritar lifir einn félaganna. Jóhanna var frænka tveggja okkar vinanna og við kynntumst henni fljótt í menntaskóla. Hún var einna glæsilegust í bekknum eins og kemur vel fram með dálítið kaldri kímni í Faunu árgangsins. Þau Ólafur B. Thors, einn af æskuvinunum, urðu þó ekki par fyrr en komið var í háskóla og eftir því sem við vinirnir gengum út vorum við svo lánsamir að eiginkonur okkar urðu einnig vinkonur. Við hittumst því oft og ferðuðumst líka saman bæði heima og erlendis. Jóhanna var skarpgreind, skemmtileg, orðheppin og full af húmor sem gat verið kaldur eins og títt er um í okkar ætt. Ólafur var fæddur á gamlársdag og strax á fyrsta ári hjónabands þeirra var boðið til afmælisveislu sem varð upp frá því hefð sem entist í meira en fimm áratugi. Þar var ævinlega fjölmenni og vel veitt. Framan af vorum við vinirnir með yngstu gestum og virtum þá gjarnan fyrir okkur gamlar frænkur sem við töldum tvísýnt að myndu lifa áramótin. Síðustu árin hafði þetta snúist við. Við vorum leiddir til sætis í hægindastóla í lítilli stofu þangað sem okkur voru færð veisluföngin í sætin og þurftum okkur hvergi að hræra. Þar ríkti alla tíð sama gleðin í okkar hópi þótt unga fólkið hafi áreiðanlega velt því sama fyrir sér um okkur gömlu hróin og við höfðum gert áratugum fyrr. Meðan heilsan entist lifðu þau Ólafur skemmtilegu lífi, ferðuðust mikið og sóttu reglulega tónleika og leikhús. Jóhanna var slyngur briddsspilari, var í briddsklúbbi og stundaði þá íþrótt fram undir andlátið. Tveir okkar vinanna sem vorum einnig í briddsklúbbi höfðum oft uppi stór orð um að skora þær á hólm í keppni. Af því varð þó aldrei og þegar ég lít til baka er ég ekki í nokkrum vafa um að helsta ástæða þess var ótti okkar karlanna við að tapa! Ólafur dó 2021 eftir langvarandi veikindi og dvöl á hjúkrunarheimili. Hún kom daglega til hans og við vinirnir úr hópnum sem eftir lifðum heimsóttum þau vikulega. Þá sáum við glöggt hve mikið lán var fyrir Jóhönnu og Ólaf að eiga soninn Hilmar og fjölskyldu hans. Þau höfðu alla tíð verið náin og notið lífsins saman. Einstakt var að fylgjast með umhyggju Hilmars og fjölskyldu við foreldra hans í ellinni. Þau gerðu Jóhönnu kleift að búa áfram á Hagamel og var þó íbúðin síður en svo sniðin að þörfum eldra fólks. Hún vildi þó hvergi annars staðar vera. Ég ræddi eitt sinn við hana um kosti þess að búa í á einni hæð í lyftuhúsi með bílageymslu. Hún var snögg að skipta um umræðuefni. Hún frænka mín var ákveðin og þegar ákvörðun lá fyrir skipti hún ekki auðveldlega um skoðun! Jóhanna var engum lík. Við Agla söknum hennar meira en orð fá lýst og sendum fólkinu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Tryggvi Ásmundsson.
Elsku Jójó móðursystir mín er látin. Ég var ekki svo lánsöm að kynnast móðurömmu okkar og –afa, sem voru fallin frá áður en ég fæddist, en við systkinin áttum Jójó. Öll mín æska er tengd henni og Óla og þeirra heimili. Upp í hugann koma allar stundirnar sem við fjölskyldan vörðum hjá þeim og Hilmari á Hagamelnum og á Þingvöllum. Hver einustu jól, áramót og páskar voru aðeins merkilegri hjá okkur systkinunum en öðrum þar sem við fengum að vera með þeim.
Jójó var einstök kona, engri lík. Hún var umhyggjusöm, gjafmild með eindæmum, klár og með svo beittan húmor að hvaða grínisti sem er hefði verið stoltur af honum.
Hún var mikill fagurkeri og allt við hana var fallegt og fágað en samt svo áreynslulaust. Jójó naut þess að vera í hlutverki gestgjafa enda fáir sem kunnu þá list betur en hún þar sem borðin á Hagamelnum svignuðu undan kræsingum. Ég veit að margir minnast með hlýju afmælisboða Óla á gamlársdag sem var í huga fólks einn af hápunktum ársins, það var varla hægt að hugsa sér betri leið til að kveðja árið.
Jójó var trúnaðarvinkona mín. Ég er þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, aðallega á Hagamelnum þar sem við ræddum um allt milli himins og jarðar, bæði málefni líðandi stundar sem Jójó fylgdist ætíð vel með en ekki síður persónuleg málefni. Það var dýrmætt að eiga hana að, fá að heyra um æsku hennar og ævi sem mér fannst alltaf sveipuð einhverjum ævintýraljóma. Í mínum huga voru Jójó og Óli okkar íslensku konungshjón.
Ég er þakklát fyrir að börnin mín fengu að alast upp með þau í lífi sínu, heyrðu allar skemmtisögurnar frá því í gamla daga og fengu að njóta gjafmildi og umhyggjusemi Jójó. Líf þeirra varð ríkara fyrir vikið. Jójó var ein af þeim fyrstu sem ég vildi kynna Birgi Tjörva fyrir þegar við fórum að rugla saman reytum. Bæði Jójó og Óli tóku honum strax opnum örmum og milli þeirra var ávallt mikil virðing og vinátta.
Síðustu mánuðina lá Jójó á Landakoti, það var kominn tími til að leyfa henni að hvílast og öðrum að annast hana. Hilmar, Didda, Óli Baldvin og Bensi sýndu henni svo mikla hlýju og umhyggju að eftir því var tekið. Missir þeirra er mikill en minningin lifir í hjörtum okkar og yljar okkur um ókomna tíð.
Erla Kristín Árnadóttir.