Jóna Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur B.Sc., fæddist í Reykjavík 4. febrúar 1955. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. febrúar 2025.
Foreldrar Jónu voru Ólafur Gísli Jóhannesson stýrimaður, f. 23.9. 1917, d. 19.2. 1959, og Nanna Gestsdóttir húsmóðir, f. 14.7. 1925, d. 27.9. 1993. Systkini Jónu eru: Oddný, f. 22.7. 1948, d. 30.4. 2001; Jóhannes, f. 1.6. 1950, d. 9.11. 1999; Gestur, f. 19.1. 1952; Elín Þorgerður, f. 30.7. 1953; Yngvi, f. 3.11. 1956; Óttar, f. 3.11. 1956. Systir þeirra samfeðra er Bjarney Kristín f. 31.12. 1946.
Jóna, ásamt systur sinni Elínu, ólst upp hjá fósturforeldrum sínum, Jóni Sigtryggi Zophoníassyni tölvufræðingi, f. 15.9. 1925, d. 16.10. 2005, og Heiði Gestsdóttur myndlistarkennara, f. 8.5. 1930, d. 13.4. 2024. Fósturbróðir Jónu er Zophonías Oddur, f. 1.1. 1967.
Jóna giftist 4. febrúar 1978 Helga Valdimarssyni jarðskjálftaverkfræðingi, f. 3.6. 1955. Börn þeirra eru: 1) Elín Anna blóðsjúkdómalæknir, f. 29.7. 1978, gift Kristjáni Guðmundssyni hjartalækni, f. 1975. Börn þeirra eru Ólafur Kári, f. 2003, Matthías Helgi, f. 2008, og Katrín María, f. 2014. 2) Valdimar Örn byggingarverkfræðingur, f. 16.2. 1982, maki hans er Elísa Ósk Skæringsdóttir, f. 21.7. 1982, dóttir Elísu er Glódís Perla, f. 23.12. 2011. 3) Ólafur Heiðar hagfræðingur, f. 12.8. 1992, maki hans er Dagbjört Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 27.8. 1994.
Ólafur, faðir Jónu, fórst með vitaskipinu Hermóði árið 1959 og fluttist Jóna þá fjögurra ára gömul, ásamt systur sinni Elínu, til fósturforeldra sinna, Jóns og Heiðar, en Heiður var móðursystir Jónu. Jóna gekk í Kópavogsskóla, og lauk síðan stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1975. Hún útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Á árunum 1979-1983 bjó Jóna í Kaliforníu og Osló ásamt Helga eiginmanni sínum, sem var þar við framhaldsnám og störf. Jóna hóf störf sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum árið 1983 og starfaði þar stærstan hluta starfsævi sinnar, lengst af á krabbameinsdeild kvenna en einnig á líknardeildinni. Á síðari hluta starfsævi sinnar, þ.e. á árunum 2006-2020, starfaði Jóna hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
Jóna var hagyrt og listhneigð, forvitin, lífsglöð og næm á hið fagra. Hún átti traustan hóp vinkvenna, einkum frá skólaárum sínum og meðal samstarfsfólks, sem hún hélt góðum tengslum við alla tíð. Jóna unni náttúrufegurð og sögu Íslands. Ferðalög skipuðu stóran sess í lífi Jónu, einkum gönguferðir um öræfi og fjöll landsins sem og víða erlendis, en þær stundaði hún ásamt Helga eiginmanni sínum.
Útförin fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 12. febrúar 2025, kl. 15.
Það er óraunverulegt og undarlegt að þú sért farin úr þessum heimi, mamma mín. Mér finnst þú hafa farið of ung og mér finnst ég líka vera helst til ungur til að missa mömmu mína. Svona hafði ég ekki séð fyrir mér, einhvern tímann sem barn, að leiðir okkar myndu skilja.
Þar sem er harmur má yfirleitt finna einhverja huggun. Þar sem er vandamál er aðeins verkefni til að takast á við. Jákvætt viðhorf til lífsins, sem má kjarna með einhverjum svona hætti, er eitt það mikilvægasta sem þið foreldrarnir hafið erft mig að. Fyrir það verð ég þér ævinlega þakklátur.
Með jafnaðargeðinu, sem er þér svo eðlislægt, tókstu þér fyrir hendur endataflið við þennan furðulega sjúkdóm. Þú hreinlega geislaðir þegar ég heimsótti þig á þessar spítaladeildir, þar sem þú áður starfaðir, og hélt í höndina á þér. Einu sinni sem endranær beindist athygli þín helst að líðan fólksins þíns. Hafðu nú kveikt á símanum, Óli minn, ef ske kynni að ég færi í nótt. Maður heldur að maður sé tilbúinn að missa einhvern, sagðirðu við mig, en svo er maður það aldrei – en síðan verður það betra. Ég sakna visku þinnar einna mest.
Ég á enga einustu leiðinlega minningu með þér, mamma mín. Þær eru allar góðar. Ég man þegar við sátum við eldhúsborðið og þú last minningargreinarnar upp til agna og borðaðir mjólkurkex. Ég man þegar við fylgdumst með flugvélum á heiðbjörtum desemberdegi og þér fannst svo spennandi hvert þær væru að fara. Þú hafðir nefnilega lag á því að sjá það stórkostlega í hlutum.
Þannig kynntirðu mér sameiginlegan vin okkar beggja, náttúru landsins okkar. Til er mynd af okkur, þegar ég er fimm ára, þar sem við liggjum á toppi Stóra-Dímons og horfum dreymin í átt að gersemum öræfanna. Ég man þetta mæta vel. Við áttum eftir að ganga á töluvert umfangsmeiri fjöll saman, til dæmis þegar við fórum á Geitlandsjökul og í Þórisdal. Þegar ég hugsa um þessar ferðir er ég svo stoltur af því að hafa átt ykkur pabba sem foreldra.
Þú varst líka trúnaðarvinur minn. Þú blést í mig kjarki þegar efinn sótti að. Þú leiðbeindir mér þegar ég mest þurfti. Við töluðum saman um heima og geima, eins og bestu vinir gera. Þessar minningar eru mér einna hlýjastar.
Ég veit að þú ert fúl yfir því hvernig fór, eins og ég, en treystu mér þegar ég segi að lífsgildi þín munu lifa með mér og í raun vera mér leiðarljós það sem ég eftir lifi. Hreinlyndi, gleði og jákvæðni, hógværð en í senn áræðni. Ég mun alltaf elska þig, mamma mín, eins og ég veit að þú munt alltaf elska mig.
Ólafur Heiðar Helgason.
Elsku amma Jóna. Eftir erfið veikindi hefurðu núna kvatt okkur. Við erum þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu. Það eru margar minningar sem koma upp í hugann þegar við hugsum um þig. Þú varst alltaf að labba á fjöll með afa og fara út að hlaupa og gera alls konar æfingar því þér fannst það gaman og þér fannst skipta máli að hugsa um heilsuna. Þú elskaðir líka að ferðast og þegar við fórum með þér í ferðalög bentir þú á fjöllin sem þú og afi höfðuð gengið á og sagðir okkur hvað fjöll og hólar hétu og hvaða atburðir höfðu átt sér stað hér og þar í eldgamla daga. Þú varst alltaf til í að spila og púsla og munum við öll eftir að hafa setið við stofuborðið og leitað og fundið þetta eina púsl sem vantaði upp á. Þú kunnir líka að teikna allt mögulegt og varst alltaf til í að teikna og mála með okkur, alveg sama þó að allt færi út um allt. Það var líka alltaf gott að koma í mat og uppáhaldið okkar var pestókjúklingur og tómatsósukjúklingur. Þú varst líka alltaf dugleg að prjóna og prjónaðir á okkur öll heimferðarföt þegar við fæddumst og svo peysur þegar við urðum stærri. Þú varst alltaf hlý og góð og skemmtileg amma og við munum alltaf muna eftir þér og gera okkar besta til að gera þig stolta. Takk fyrir allt, elsku amma Jóna.
Ólafur Kári, Matthías Helgi og Katrín María.
Jóna systir lést á laugardaginn á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Í langri baráttu við krabbameinið stóðu Helgi og fjölskyldan eins og klettur við hlið hennar.
Eftir að pabbi okkar systkinanna drukknaði í febrúar 1959 æxlaðist það þannig að Heiður móðursystir okkar og Jón maður hennar tóku Jónu og Elínu að sér. Þau voru að byggja sér hús á Digranesvegi 26 en við bjuggum í Skaftahlíð 10 í Reykjavík. Það var ekki tilviljun að við fluttum fljótlega eftir það á Digranesveg 77 ásamt Gesti móðurafa. Nokkur spölur var á milli húsanna en Digranesvegur 26 var okkar annað heimili alla tíð. Svo vildi til að Kópavogsskólinn, sem flest okkar systkinanna sóttu, var beint á móti. Það var því stutt að fara ef svo bar við.
Ég á margar góðar minningar frá Digranesvegi 26. Heiður var teiknikennari frá Handíða- og myndlistaskólanum og var mikil listakona og listunnandi. Yngvi bróðir hennar bjó þar einnig um tíma en hann var einnig mikill lífskúnstner. Þau voru bæði miklir ljúflingar og veittu ómælt af kærleik sínum og umhyggju. Þangað var því gott að koma og minnist ég margra góðra stunda við stofuborðið með Jónu og systkinum mínum að teikna og lita og mest af öllu að hafa gaman. Tíminn var fljótur að líða og því oft dvalið fram á kvöld.
Ég á einnig góðar minningar frá afmælunum hennar Jónu. Þá bauð Heiður upp á pylsupartí sem voru ávallt mikil tilhlökkun. Þau voru fjölmenn og skemmtileg. Ég man eiginlega betur eftir þeim en afmælum okkar Yngva bróður. Einnig minnist ég margra góðra stunda um jól og áramót því lengi var sá háttur hafður á að fjölskyldan á Digranesvegi 26 kom til okkar á aðfangadagskvöld og við fórum til þeirra á gamlárskvöld. Þá brást það ekki að Yngvi frændi sýndi okkur krökkunum töfrabragð. Það gekk út á að hann tók tvo spotta og batt þá saman og setti fyrir aftan bak. Þegar hann dró spottann fram aftur var enginn hnútur.
Það er ekki undarlegt miðað við andann á heimili þeirra Heiðar og Jóns að Jóna hafi valið sér hjúkrun sem lífsstarf og hún var listhneigð. Hafði unun af að gera fallegt í kringum sig og fékkst við að setja saman ljóð á seinni árum.
Seinna áttu leiðir okkar Jónu systur eftir að liggja þéttar saman eftir að ég tók saman við Sigríði, systur Helga. Áttum við þá eftir að hittast við margvísleg tækifæri í báðum fjölskyldum, eins og giftingum, afmælum, jólum og sumarferðalögum svo eitthvað sé nefnt. Einnig voru Jóna og Helgi mikið útivistarfólk og deildi ég þeim áhuga í allmörg ár. Fór Jóna þar jafnan fremst í flokki en ég síðastur.
Í sumar sem leið fórum við hjónin ásamt Jónu og Helga, Ellu, Yngva og Gunnhildi til Póllands til að vera viðstödd giftingu sonar Yngva. Þar áttum við systkinin og makar ómetanlegar stundir og var margt rifjað upp, bæði nýtt og gamalt. Þar var ljóst að mikið var dregið af Jónu og þótti henni hitinn í Varsjá oft erfiður.
Við hjónin, Arna, Nanna og tengdasynirnir sendum Helga, Elínu Önnu, Valdimar Erni, Ólafi Heiðari, mökum þeirra og barnabörnunum innilegar samúðarkveðjur.
Óttar og Sigríður.
Nú er sál þín rós
í rósagarði Guðs
kysst af englum
döggvuð af bænum
þeirra sem þú elskaðir
aldrei framar mun þessi rós
blikna að hausti
(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir)
Lífsbókin hennar Jónu er á enda. Sár sannleikur blasir við þegar við kveðjum hana í dag. Ekkert gat undirbúið okkur, því vonin lifir lengi. Mannkostir hennar voru svo margir og munu þeir halda uppi minningu hennar.
Ég var unglingur þegar Helgi bróðir kom með Jónu sína inn á æskuheimilið á Rauðalæk. Hún var tíguleg og falleg, utan sem innan. Hún tók mér strax vel og myndaðist sterk taug á milli okkar sem varði alla tíð. Alltaf var gott að leita til Jónu. Hún var fróð og víðlesin, enda áhugsöm um svo margt. Útivist og hreyfing átti allan hug þeirra Jónu og Helga. Þau stunduðu fjalla- og skíðamennsku af kappi og sigruðu hæstu tinda. Veikindi hennar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar hún greindist með illvígan sjúkdóm. Þessi hrausta kona sem hugsaði alltaf svo vel um líkama og sál og heilbrigður lífsstíll var henni ofarlega í huga.
Minningakornin eru mörg og erfitt að telja þau öll upp. Þegar ég var yngri gat ég átt hana að þegar kom að því að klæða sig upp og var þá sjálfsagt að fara í fataskápinn hennar og fá falllega flík, skart eða annað að láni. Jóna var bóngóð og gott að leita til hennar. Hún var góð fyrirmynd. Ég ætlaði alltaf að vera eins og hún; tignarleg og bein í baki, hún bar sig alltaf svo fallega.
Hún opnaði augu mín fyrir svo mörgu. Hún varð þess valdandi að ég fór í vinnu til Noregs og átti þar ógleymanleg ævintýri. Á sama tíma bjuggu Helgi og Jóna þar með börnum sínum og átti ég alltaf athvarf hjá þeim og öryggi.
Unglingar eru stundum óöruggir og leitandi. Ég var engin undantekning. Á tímabili þótti mér púkalegt að vera með gleraugu. Töfralausnina fann Jóna fyrir mig og skundaði með mig niður á Laugaveg og kynnti mér linsur og hvernig ætti að nota þær. Gleraugun fuku, þvílíkur léttir.
Eftir að árunum fjölgaði og fjölskyldur okkar stækkuðu fórum við með mökum okkar og börnum saman til útlanda. Áttum ógleymanlegan tíma bæði í Hollandi og Frakklandi, svo eitthvað sé nefnt. Ekkert kemur í staðinn fyrir góðar minningar með fólkinu sínu.
En nú, þegar Jóna er horfin á vit feðra sinna, stendur fjölskyldan eftir og þarf að finna sér nýjan takt í lífinu. Börn Jónu og Helga, þau Elín Anna, Valdimar Örn og Ólafur Heiðar, sem og tengdabörn og barnabörn, munu sakna og syrgja elskulega móður, tengdamóður og ömmu. Þau muna halda minningu hennar á lofti, líkt og allir þeir sem hún snart með hlýju sinni og manngæsku. Missirinn er mikill hjá elsku Helga. Samrýndari hjónum hef ég ekki kynnst. Þau gengu alltaf saman í takt og fóru saman í ævintýraferðir, heima sem erlendis. Gott verður fyrir Helga, börn, tengdabörn, barnabörn, vini og ættingja að ylja sér við fallegar minningar og góðar stundir.
Við Svenni vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum góða vætti að vernda ykkur á erfiðum tímum. Jóna mun lifa áfram í hjörtum okkar allra.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(Valdimar Briem)
Aðalheiður
Valdimarsdóttir.
Við Jóna kynntumst 12 ára í Kópavogsskóla þegar ég fluttist í næstu götu við hana. Jóna sagði að við hefðum fyrst talað saman við KRON á Hlíðarvegi, þannig hluti mundi hún. Ég man eftir spjalli við glaðlega, skemmtilega og einlæga stelpu. Við töluðum um skólann og fjölskyldur okkar. Það tók mig góðan tíma að átta mig á því að Heiður fósturmóðir Jónu sem hún var mjög tengd var móðursystir hennar og hún átti mömmu sem bjó í nágrenninu ásamt fleiri systkinum. Næsta vetur fórum við í Víghólaskóla, vorum þar saman í bekk og svo fyrstu tvo vetur okkar í MR, en við vorum samstúdentar þaðan. Vinátta okkar þróaðist á þessum fyrstu árum og hefur staðið óslitið síðan. Jóna var einstaklega traust og góð vinkona.
Við gerðum ýmislegt skemmtilegt saman. Árið sem við vorum 18 ára fórum við sex vinkonur úr Kópavoginum hringferð um landið, komumst að Skeiðará en þá þurfti að snúa við og keyra holótta vegina til baka. Sumarið eftir unnum við í skógrækt í Noregi og eftir stúdentspróf fórum við í lestarferðalag um Evrópu. Árið 1976 gengum við á Eyjafjallajökul og höfum seinna oft sagt frá því af miklu stolti. Og auðvitað voru fleiri ferðir. Ég átti því láni að fagna að heimsækja hana og fjölskylduna bæði í Kaliforníu og Noregi. Þá höfum við verið saman í saumaklúbbi frá því í menntaskóla. Við höfum oft rifjað upp minningar frá ferðum okkar og samveru í gegnum tíðina.
Jóna var glæsileg kona og átti marga aðdáendur. Það var mikið gæfuspor þegar hún og Helgi fóru að vera saman. Það var gagnkvæm ást og umhyggja frá fyrstu tíð. Jóna var mikil fjölskyldukona, Helgi og börnin voru í forgangi. Hún lærði hjúkrun og þar nýttust mannkostir hennar vel: umhyggjusöm, næm á fólk og umhverfi, hlý og glaðleg.
Jóna og Helgi dvöldu veturinn 2008-2009 á gömlum slóðum í Kaliforníu. Eftir heimkomuna fóru þau að ganga á fjöll sem voru í bókinni Gönguleiðir á 151 tind. Næstu árin fóru þau í gönguferðir víða um land og erlendis og ég fylgdist með Jónu bæta við fjöllum. Þegar kom að þeim erfiðari leitaði hún til fremstu göngumanna landsins um aðstoð. Hún þekkti marga og allir vildu hjálpa henni. Það var gaman að fylgjast með einbeitni hennar og útsjónarsemi. Fyrir tíu árum komu þau og nutu aðstöðu sem ég hef á Drangsnesi en þá voru tveir tindar á Vestfjörðum eftir. Heimsóknirnar voru nær árlegar eftir það, sú síðasta sumarið 2024 með vinkonum úr Kópavogi. Árið 2019 gengum við Trékyllisheiði, úr Steingrímsfirði að Djúpavík. Ætluðum árið eftir að fara heiðina úr Ingólfsfirði að Djúpavík. Það varð ekki því Jóna veiktist. Sumarið 2021 gengum við heiðina, Jóna þá nýkomin úr erfiðri meðferð en þó létt í spori. Við fylltumst bjartsýni, en fyrir tveimur árum veiktist hún aftur og þá var það þyngra. Jóna fór nærri því að komast á alla tindana 151 en heilsan kom í veg fyrir að hún kæmist á þá síðustu. Í veikindunum hugsaði Helgi um Jónu af einstakri alúð og samheldni þeirra var aðdáunarverð. Ég sendi Helga og fjölskyldu samúðarkveðjur.
Sigrún Pálsdóttir.
Við vorum að hefja nám við MR haustið 1971 þegar kynni okkar vinkvennanna hófust í III.-G. Glaður hópur fullur eftirvæntingar. Þarna var Jóna, fallega, glaðlega, ljúfa og skemmtilega stelpan úr Kópavoginum sem með blíða brosinu og bliki í auga heillaði alla sem á vegi hennar urðu. Það var gaman að kynnast henni og það hefur verið gott að vera vinkona hennar ætíð síðan.
Jóna var einstaklega glæsileg og aðlaðandi kona, greind, vel menntuð, listræn og vel lesin. Hún hafði yfirgripsmikla þekkingu og starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur sem hún gaf okkur hlutdeild í með ýmsu móti. Hún var hlý og glöð og hafði djúpt innsæi í lífið og tilveruna.
Auðvitað voru Helgi, börnin, barnabörnin og fjölskyldan næst henni. En hún gaf okkur hlutdeild í sínu lífi allan þennan tíma og við höfum átt því láni að fagna að hafa haldið okkar vinskap og hist í „saumaklúbbi“ öll þessi ár. Hvað sem við höfum tekið okkur fyrir hendur saman vinkonurnar hefur Jóna tekið virkan þátt og ræktað vináttuna með okkur. Við sjáum hana fyrir okkur glaða og hressa á góðri stundu mögulega með prjónana, til í gott samtal þar sem hin margbreytilegustu mál, okkar hjartans mál, eru á dagskrá og góðgæti á borðum. Hún naut ferða okkar erlendis sérstaklega vel þar sem mikið var gengið, skoðað, spjallað og glaðst. Hún gaf okkur svo margt. Hún gaf okkur kærleika, vináttu, gleði og visku.
Þegar veikindin sóttu að stóð hún eins og hetja studd af Helga og fjölskyldunni hverja stund. Hún var sjálfri sér lík, nýtti tíma sinn vel og gerði allt sem hún gat til að halda heilsu sem lengst.
Vertu kært kvödd, elsku Jóna.
Ásdís, Guðlaug, Guðrún Árný, Lína, Sigríður, Sigrún og Þórunn.
Það var vorið 1979 að þrettán hjúkrunarfræðingar útskrifuðust af Námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Fleiri höfðu hafið nám haustið 1974 en það kvarnaðist úr hópnum þegar leið á námið. Við vorum þriðji hópurinn sem útskrifaðist frá HÍ og fórum ekki varhluta af þeirri baráttu sem átti sér stað þegar verið var að koma hjúkrunarfræðinámi á háskólastig. Það gerði hópinn samheldinn og sterkan. Við minnumst bæði ógleymanlegra bóklegra og verklegra kennslustunda á námstímanum.
Jóna var ein af þessum hópi og setti mark sitt svo sannarlega á hann. Hún var einstaklega hlý manneskja, glaðlynd, skemmtileg, klár og stundaði námið af kappi. Hún sá spaugilegu hliðarnar og spurði spurninga sem engum hafði dottið í hug í að spyrja, kannski ekki alltaf beintengdar efninu, en engu að síður hristu þær upp í skólafélögunum og ekki síður kennurunum og oft kitluðu þær hláturtaugarnar. Já, það var engin lognmolla í kringum Jónu, en þegar okkur fannst á okkur brotið og vildum að vandamálin yrðu leyst strax, þá var það hún sem vildi leita sátta og leysa þau oft af meiri mildi en við hin. Eftir útskrift fór hópurinn í sitt hvora áttina. Við tók lífið sjálft, störf á mismunandi vettvangi, framhaldsnám og fjölskyldulíf. Jóna giftist honum Helga sínum og saman eignuðust þau þrjú mannvænleg börn sem hún var einkar stolt af. Þó svo að samverustundir hópsins hafi ekki alltaf verið margar höfum við alltaf fylgst vel hvert með öðru og síðust misserin höfum við átt skemmtilegar stundir saman.
Það varð hins vegar mun auðveldara að fylgjast með Jónu þegar hún þeysti inn á Fésbókina. Þar gátum við fylgst með henni í öllum fjallgöngunum og ferðalögunum sem hún stundaði af kappi. Dáðumst við að krafti hennar og dugnaði og ekki skemmdu vísurnar hennar fyrir. Einnig fylgdumst við með baráttu hennar við óvæginn sjúkdóm. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir svo atorkumikla konu að þurfa smám saman að lúta í lægra haldi fyrir honum, en jákvæðni hennar og bjartsýni var aðdáunarverð. Hún stóð svo sannarlega meðan stætt var og naut þar umhyggju og aðstoðar Helga síns og fjölskyldunnar, og vottum við þeim okkar innilegustu samúð.
Já, hún Jóna var einstakur og eftirminnilegur skólafélagi, en umfram allt var hún góð manneskja sem vildi öllum vel.
Við þökkum henni samfylgdina og kveðjum hana með virðingu og þakklæti fyrir liðnar stundir með erindi úr ljóði eftir fóstru hennar Heiði Gestsdóttur.
Í læknum lauga ég fætur
leggst svo á mosasæng.
Í friðsæld við fjallsins rætur
ferðlúin hvíli minn væng.
Blessuð sé minning Jónu Ólafsdóttur.
Ásta, Birna, Lovísa, Þórdís og Þórunn,
skólasystur úr HÍ.
Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum elsku yndislegu Jónu okkar, fyrrum samstarfsfélaga á kvenlækningadeild 21-A. Jóna var sannarlega hrókur alls fagnaðar, hvort sem það var á vöktum eða samverustundum utan spítalans. Það var ekki aðeins góðvild hennar og faglegir hæfileikar í starfi sem munu lifa áfram í minningum okkar heldur einnig hennar einstaki persónuleiki, hlýjan, léttleikinn og húmorinn sem heillaði alla. Það eru einnig til margar skondnar sögur af Jónu sem við höfum haldið til haga í „brandarabók“ deildarinnar sem hún hafði svo sannarlega húmor fyrir.
Við fylgdumst vel með Jónu eftir að hún hætti á deildinni og dáðumst að óbilandi áhuga hennar og Helga á almennri útivist, gönguskíðum og fjallgöngum svo eitthvað sé nefnt og það voru ófáar ferðirnar sem farnar voru innanlands sem utan. Eftir að Jóna veiktist var engan bilbug á henni að finna, þar sem hún gerði allt til að stunda áfram útivist eftir fremsta megni með æðruleysi og húmorinn að vopni.
Jóna var einstaklega félagslynd og lagði sig fram við að rækta samböndin við gamla vinnufélaga og hitta þá. Kvenlækningadeildinni, gömlu deildinni sinni, fylgdist hún alltaf vel með og hafði hug á að koma aftur til vinnu þar þó svo að örlögin sæju til að þess að ekki yrði af því.
Jóna mun ávallt vera hluti af okkur og við minnumst hennar í hjörtum okkar með ást og virðingu um leið og við þökkum fyrir samfylgdina.
Við sendum innilegar samúðarkveðjur til ykkar kæra fjölskylda, megi ljós og kærleikur umvefja ykkur á þessum erfiðu tímum.
Fyrir Hönd fyrrverandi samstarfsfólks á 21-A, kvennadeild Landspítalans,
Hrund Magnúsdóttir.