Rauði krossinn á Íslandi veitti skyndihjálparfólki ársins viðurkenningu í tilefni 112-dagsins í gær. Þrír einstaklingar sem saman björguðu lífi urðu fyrir valinu.
Hrafnkell Reynisson hneig niður á bílastæði og fór í hjartastopp. Guðrún Narfadóttir átti leið fram hjá, kallaði eftir aðstoð og hóf strax hjartahnoð. Hinrik Þráinn Örnólfsson og Elín Ragnarsdóttir starfa í nærliggjandi húsi, heyrðu köll Guðrúnar og hringdu í 112. Aðalheiður Sigrúnardóttir neyðarvörður tók við símtalinu og með samstilltu átaki tókst þremenningunum að vinna dýrmætan tíma þar til viðbragðsaðilar komu á staðinn og gáfu rafstuð.
Í dag er Hrafnkell við góða heilsu, m.a. þökk sé skjótum viðbrögðum þeirra Guðrúnar, Hinriks og Elínar, sem eru skyndihjálparfólk ársins 2024.