Ísak Einar Rúnarsson, forstöðumaður málefnasviðs Samtaka atvinnulífsins, segir mikilvægt að íslensk stjórnvöld gæti viðskiptahagsmuna lands og þjóðar komi til tollastríðs milli Evrópu og Bandaríkjanna og miklu máli skipti að Ísland og Noregur verði undanskilin varnaraðgerðum ESB í tollamálum.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Í persónulega lífinu er það helst fram undan að búa sig undir að eignast barn, sem er auðvitað ótrúlega spennandi. Í starfi er það helst að sjá hvernig ný ríkisstjórn hyggst spila úr sínum spilum. Það er enn nokkuð óljóst þó að það sé að skýrast betur og betur.
Einna mestu skiptir að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um að hækka ekki skatta. Hún hafur verið að gefa skattahækkunum undir fótinn undanfarna daga og vikur að mínu mati og það er afskaplega mikilvægt, bæði upp á stöðugleikann en sömuleiðis upp á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, að skattar verði ekki hækkaðir, enda nú þegar í hæstu hæðum ef miðað er við helstu samanburðarlönd okkar.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Ég sótti ráðstefnu hjá EFTA í tengslum við setu mína í ráðgjafarnefnd EFTA um alþjóðaviðskiptamál. Það var virkilega fróðleg ráðstefna þó að hún væri líka ískyggileg að mörgu leyti, enda blikur á lofti hvað varðar alþjóðaviðskipti.
Það verður sérstaklega mikilvægt á næstu misserum að íslensk stjórnvöld gæti viðskiptahagsmuna lands og þjóðar, sérstaklega þegar kemur að mögulegu tollastríði Bandaríkjanna og Evrópu, þá mun skipta lykilmáli að Ísland og Noregur verði undanskilin varnaraðgerðum ESB í tollamálum.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Ég les, hlusta á hljóðbækur og lengri hlaðvörp, oft á sviði sögu. Hlustaði nýlega á hljóðbók um sögu Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld eftir Tony Judt og aðra um heimsveldakapphlaupið milli Bretland og Rússlands í Mið-Asíu á 18. og 19. öldinni eftir Peter Hopkirk. Ég hef verið að vinna mig í gegnum Revolutions-hlaðvarpið, sem fjallar um allar helstu byltingar í vestrænum ríkjum síðan á 17. öld, og er þessa dagana að hlusta á seríuna um rússnesku byltinguna 1917.
Svo byrjaði ég á ævisögu Geirs H. Haarde en varð fyrir því óréttlæti að konan mín reif hana af mér þegar ég var búinn að lesa um 100 síður og byrjaði að lesa hana sjálf, þannig að núna bíð ég eftir því að hún klári svo að ég geti haldið áfram.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ef maður á að nefna skáldsögur eru færri betri en Dostojevskí. Ég held bæði upp á Glæp og refsingu og Karamazov-bræðurna – ótrúleg verk, báðar bækur. Annars hef ég haldið mikið upp á sagnfræðinginn Niall Ferguson, mér finnst hann einn áhugaverðasti hugsuður okkar tíma.
Ég get mælt eindregið með bæði Civilization og Empire, en báðar bækurnar setja vestræna sögu í áhugavert samhengi. Svo má segja að ég sé nokkuð forfallinn Churchill-aðdáandi, en hann er í mínum huga merkilegasti stjórnmálamaður sögunnar.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Ég myndi sennilega taka gráðu í sögu eða heimspeki, finnst það að mörgu leyti mjög vanmetin fög í samfélagi dagsins í dag og einstaklega áhugaverðar og gagnlegar greinar. En gæti annars líka hugsað mér að taka gráðu í lögfræði, það er alltaf mjög praktískt.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Það er af nógu að taka og ég efast að einn dagur myndi duga til allra þeirra breytinga sem við hjá Samtökum atvinnulífsins myndum vilja gera. Myndi þó forgangsraða nokkrum.
Í fyrsta lagi eru það lög um opinbera starfsmenn og stjórnsýslulög til þess að stíga skref í áttina að því að jafna réttindi starfsfólks á milli markaða og tryggja aukinn sveigjanleika í starfsmannahaldi hins opinbera.
Í öðru lagi er nauðsynlegt að breyta lögum um opinber fjármál til að tryggja að ríkið setji sér útgjaldareglu og komi þannig í veg fyrir að útgjöld geti vaxið of mikið milli ára, en sömuleiðis mætti lögfesta skyldu til að styðjast við endurmat útgjalda.
Í þriðja lagi þarf að skilgreina betur í lögum hlutverk ríkissáttasemjara, að hlutverk sáttasemjara verði að tryggja að launastefnu stefnumótandi kjarasamninga verði fylgt og honum falin verkfæri í samræmi við það hlutverk. Ef dagurinn yrði ekki liðinn þegar þarna er komið væri hægt að snúa sér að ýmsum öðrum breytingum sem skynsamlegt er að gera.
Þar á meðal að setja sérlög um Hvammsvirkjun, enda brýnt að ekki verði frekari tafir á þeirri framkvæmd, afnema bankaskatt og gistinóttaskatt, og svo er 58% virkur tekjuskattur í sjávarútvegi of hátt hlutfall og það mætti færa það til betri vegar, til dæmis með endurskoðun veiðigjaldsins.
Hin hliðin
Menntun: Háskóli Íslands, BA hagfræði, 2017, Dartmouth College, MBA, 2022, Harvard University, MPA, 2023.
Starfsferill: Stúdentaráð Háskóla Íslands, forseti, 2014-2015. Morgunblaðið, blaðamaður, 2015. Háskóli Íslands, verkefnastjóri, 2016. Viðskiptablaðið, blaðamaður, 2017-2018. Viðskiptaráð Íslands, sérfræðingur á hagfræðisviði, 2018-2020. Alþjóðamálastofnunin í Róm, rannsóknastörf, 2022. Boston Consulting Group, ráðgjafi, 2023-2024. Samtök atvinnulífsins, forstöðumaður málefnasviðs, 2024-nú.
Áhugamál: Knattspyrna og körfubolti, saga, stjórnmál og heimspeki. Samvera með fólkinu mínu.
Fjölskylduhagir: Giftur Esther Hallsdóttur og við eigum von á barni í maí.