Gunnari Rögnvaldssyni á Löngumýri í Skagafirði varð að orði þegar hann leit enn eina veðurlægðina leggjast yfir landið Þessa ljótu lægðaspá sem lemur utan kofann. Gul og rauð og græn og blá, gerði Veðurstofan

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Gunnari Rögnvaldssyni á Löngumýri í Skagafirði varð að orði þegar hann leit enn eina veðurlægðina leggjast yfir landið

Þessa ljótu lægðaspá

sem lemur utan kofann.

Gul og rauð og græn og blá,

gerði Veðurstofan.

Séra Hjálmar Jónsson vekur máls á því, að sífelldar auglýsingar um tiltekinn skort bylji á hlustum vorum af hálfu Boozt:

Þolinmæðin mikil er

en málfræðin er sljó.

Alveg síðan í október

„Ágústi vantar skó.“

Ef til vill er það málvöndunarskortur. Ólafur Stefánsson lætur keflið ganga:

Ég vildi vísur gera,

sem væru uptúdeit,

og visku vitni bera,

þótt væri ég úr sveit.

En allt fór öðruvísi,

ég engan tilgang fann.

Því verkstolsvirkjun lýsi,

og vísa á næsta mann.

Þorgeir Magnússon fór að öllu með gát og spurði tvo smekkmenn hvort þessi veðurvísa væri birtingarhæf. Þeir töldu að um mildan, teprulausan húmor væri að ræða sem ekki meiddi. Hann lét því þessa vísu flakka:

Fóstran næstum fauk um koll en fótum sparn við,

verra fór með blessað barnið;

bar við himin krakkaskarnið.

Þegar Höskuldur Þráinsson prófessor fór að grufla frekar í uppruna Njáluvísu sem birtist í Vísnahorninu á laugardag komst hann að því að hún var ort í MA þegar hagyrðingar komu saman til þess að gera vísur fyrir lausavísnaþátt blaðsins Muninn. Er fyrriparturinn eftir „Jón Hilmar Jónsson (síðar orðabókarritstjóra og höfund ýmissa stórvirkja á orðabókarsviði) en seinni parturinn eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson og Höskuld Þráinsson. Jón Hilmar er annars einn fárra hagyrðinga sem yrkja minna en þeir ættu að gera.“ Vert er að rifja upp vísuna:

Bergþóra var býsna hörð,

brenndi sig með Njáli,

því að hún var þar til gjörð

að þola við í báli.

Höskuldur Búi Jónsson slær á létta strengi með þrautrímaðri afhendingu:

Vísan frá mun vaxa smá og vekja þráa

en hverfa frá í fnyki táa.