Hið ljúfa líf
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Þann 29. janúar síðastliðinn gekk ár snáksins í garð hjá Kínverjunum vinum okkar. Tók við af ári drekans. Dýrslegar nafngiftir áranna rekja sögu sína langt aftur um aldir og dýrin eru tólf talsins. Vísa hvert og eitt til hvers þess árs sem það tekur himinhnöttinn Júpíter að ferðast um miðpunktinn sjálfan, sólina.
Snákurinn er í huga okkar sem byggjum norðlægar slóðir eitthvað sem veldur óhug og ógleði. Ekki bætir úr skák að þeir sem kannast við texta Biblíunnar minnast þess hver holdtekja illskunnar var í aldingarðinum Eden. Hughrifin eru önnur hjá þjóðum Austurlanda. Þannig er snákurinn tákn vísdóms, umbreytingar, rólyndis og sköpunarkrafts.
Snákurinn er víða
Reyndar þarf ekki að leita svo langt um heiminn til að finna viðlíka táknmál. Við þekkjum það t.d. úr merki Læknafélags Íslands að þar er snákur. Vísar hann til guðs lækninga í grískri goðafræði, Asklepíusar, sem gekk um með staf sem snákur vafði sig upp eftir. Og annað dæmi má nefna af mínum gamla menntaskóla, Verzlunarskólanum. Í merki hans er vængjaður stafur og um hann vefja sig snákar tveir. Þar er á ferðinni tákn Hermesar, guðs verslunar og viðskipta. Snákum bregður því augljóslega víða fyrir, þótt sjaldnast leiði fólk hugann sérstaklega að því.
En öðru máli gegnir um vini mína hjá International Watch Company (sem ég gerði nokkur skil í pistli fyrir tveimur vikum þegar ég fjallaði um hið magnaða eilífðardagatal sem út er komið í Portugieser-línu fyrirtækisins.) Úrsmiðirnir knáu, sem eru í borginni Schaffhausen, austast í Sviss, hafa nú sent frá sér einstakt úr í tilefni snáksársins í Kína. Það tilheyrir sannarlega hinni ofurklassísku og nettu Portofino-línu fyrirtækisins en það er margt sem skilur það frá öðrum úrum úr sama ranni. Fyrst ber þar að nefna búrgúndírauða skífuna sem tónar einstaklega fallega við vísa og stundarmerkingar sem eru í rósagulli. Þar tekst fyrirtækinu reyndar einkar vel upp, meðal annars í ljósi þess að úrkassinn er úr stáli. Rauði liturinn nær með smekklegum hætti að tengja saman gullið og stálið.
Fögur tunglstöðumynd
Efst á skífunni er svo að finna tunglstöðumynd sem er hárnákvæm. Mun reyndar ekki haldast rétt í 45 milljónir ára eins og í tilfelli eilífðardagatalsins. En fyrirtækið ábyrgist næstu 122 árin. Við verðum víst að taka þeirra orð fyrir því og treysta á að afkomendurnir muni kalla afkomendur úrsmiðanna til ábyrgðar ef einhverju skeikar í því efni.
Bakhlið úrsins er einnig mögnuð. Safírgler opnar huliðsheima úrverksins og þar sést glögglega og næst glerinu að úrið er sjálfvindandi (automatic). Með því að hreyfa úrið hleður það á sig orku með hreyfingum pendúlsins sem er úr gulli og í þessu tilviki er hann í laginu sem snákur. Fullhlaðið helst úrið tifandi í fimm sólarhringa án þess að njóta nokkurrar hreyfingar.
Nett og fagurt
Úrskífan er 37 millimetrar í þvermál og hentar því sem kvenúr (karlmannsúrin eru gjarnan í kringum 40-43 mm). Liturinn og áferðin öll sömuleiðis. Hægt er að skipta milli búrgúndírauðrar kálfskinnsólar og svartrar.
Það sem gerir þennan grip einstaklega spennandi er sú staðreynd að hann er aðeins smíðaður í 500 eintökum alls. Það ýtir verðinu reyndar einnig nokkuð upp en þó ekki úr hófi miðað við aðra smíðisgripi úr sömu átt. Alþjóðlega sýnist mér verðið liggja einhvers staðar á bilinu 1.300-1.400 þúsund krónur. Menn hafa eytt slíku fé í aðra og meiri vitleysu, meðal annars töskur sem slitna hratt og verða ólíklega ævieign.