Valdimar Ármann og Jón Bjarki voru gestir Magdalenu í Dagmálum.
Valdimar Ármann og Jón Bjarki voru gestir Magdalenu í Dagmálum. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í síðustu viku að stýrivextir yrðu lækkaðir um 50 punkta og standa þeir því nú í 8%. Gestir í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna voru þeir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka og Valdimar Ármann, fjárfestingarstjóri Arctica sjóða

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í síðustu viku að stýrivextir yrðu lækkaðir um 50 punkta og standa þeir því nú í 8%. Gestir í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna voru þeir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka og Valdimar Ármann, fjárfestingarstjóri Arctica sjóða. Í þættinum var rætt um vaxtaákvörðunina, óvissuna í alþjóðlegum efnahagsmálum og efnahagshorfur hérlendis.

Spurðir hvort eitthvað í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar hafi komið þeim á óvart segir Valdimar að það hafi helst verið tónninn í yfirlýsingunni.

„Seðlabankinn vill koma því skýrt á framfæri að hann er ekki að minnka aðhaldið í hagkerfinu, það er að segja hann er ekki að lækka raunstýrivexti. Hann er að laga nafnstýrivexti að lækkandi verðbólgu,“ segir Valdimar og bætir við að honum hafi þótt yfirlýsingin heldur hvöss.

„Seðlabankanum hefur ef til vill ekki fundist markaðurinn búinn að hlusta nægilega vel á sína framsýnu leiðsögn,“ segir Valdimar.

Jón Bjarki tekur undir og bendir á ein nýmæli sem komu fram í yfirlýsingunni.

„Það var tekið fram að allir nefndarmenn hefðu verið sammála um ákvörðunina. Það hefur ekki verið birt með yfirlýsingunni áður, en sú breyting er víst komin til að vera. Það verður þó ekki tilgreint fyrr en fundargerðin kemur út hvaða nefndarmenn greiddu atkvæði með hvaða tillögu,“ segir Jón Bjarki.

Talið barst einnig að efnahagsstefnu nýrrar ríkisstjórnar. Jón Bjarki og Valdimar benda báðir á það ósamræmi sem liggur í því að boða hvort í senn hagræðingu og aukin útgjöld.

Spurður hvernig áform nýrrar ríkisstjórnar um að innleiða stöðugleikareglu horfi við þeim segir Valdimar að hann hafi takmarkaða trú á þeim áformum.

„Það er oft talað um reglur og þak og annað slíkt. Við erum til dæmis með skuldahámark í Bandaríkjunum en það er ekki til annars en að vera hækkað þegar menn rekast í það. Þannig að það er fínt mál að innleiða stöðugleikareglu en væri bara frábært að sjá henni framfylgt,“ segir Valdimar.

Jón Bjarki tekur undir og bætir við að áhugavert verði að sjá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lítur dagsins ljós í vor.

„Síðustu ríkisstjórnir hafa gert gott mót þrátt fyrir allt að halda sig við þessar reglur. Það er alltaf álitamál hversu oft á að víkja frá þessum reglum líkt og gert var í faraldrinum. Það verður að passa að undantekningin verði ekki reglan í þessum efnum,“ segir Jón Bjarki.