30 ára Snorri Páll er fæddur í Reykjavík en uppalinn þar og víða erlendis. Faðir hans var í utanríkisþjónustunni og bjó fjölskyldan í New York, Brussel, Reykjavík, Ósló og Nýju-Delí. „Það eru forréttindi að fá að búa hluta ævinnar utan landsteinanna

30 ára Snorri Páll er fæddur í Reykjavík en uppalinn þar og víða erlendis. Faðir hans var í utanríkisþjónustunni og bjó fjölskyldan í New York, Brussel, Reykjavík, Ósló og Nýju-Delí. „Það eru forréttindi að fá að búa hluta ævinnar utan landsteinanna. Maður stækkar sjónhringinn og kynnist öðrum þjóðum. En á sama tíma verður rótleysið ef til vill meira en ella.“

Snorri Páll útskrifaðist með IB-diplóma úr Oslo International School árið 2013, þá 18 ára, og lauk hagfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 2016. „Það var erfitt að aðlagast eftir áralanga útivist, en hún hjálpaði mér að meta betur það sem við Íslendingar búum að.“ Að útskrift lokinni starfaði Snorri Páll sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu í tvö ár áður en hann hélt utan á nýjan leik, nú til Parísar, og lauk mastersgráðu í fjármálum frá ESSEC Business School árið 2020. Hann hóf störf sem gjaldeyrismiðlari á sviði markaðsviðskipta Seðlabanka Íslands að námi loknu, nokkrum mánuðum eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. „Þá hlaut ég eldskírn í því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í reynd. Mér var kastað út í hringiðu peningamála á viðburðaríkum tíma sem krafðist þess að maður lærði hratt og vel.“ Í starfi sínu stundar Snorri Páll innlend markaðsviðskipti fyrir hönd Seðlabankans og sinnir þannig framkvæmd peningastefnu bankans.

Í frístundum nýtur Snorri Páll þess að ganga á fjöll, bæði á Íslandi og erlendis. Hann ferðast mikið og fer í ræktina, hefur gaman af matargerðarlist og tungumálum, og les bækur um allt milli himins og jarðar.

Fjölskylda Foreldrar Snorra Páls eru Gunnar Pálsson, fyrrverandi sendiherra, og Elín Snorradóttir, bæði búsett í Reykjavík. Systkini hans eru þrjú: Linda Rán, hjúkrunarfræðingur, Ragnheiður Soffía, doktor í listasögu, og Gunnar Helgi, mastersnemi í alþjóðalögfræði.