Þórhildur Svava Þorsteinsdóttir fæddist 4. febrúar 1931 í Götu í Vetleifsholtshverfi í Ásahreppi. Hún lést á dvalarheimilinu Lundi á Hellu 6. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Tyrfingsson, f. Eystri-Tungu, V-Landeyjahreppi 28. apríl 1891, d. 22. október 1973, og Guðbjörg Bjarnadóttir, f. í Ási í Ásahreppi 28. september 1886, d. 27. nóvember 1970. Fósturmóðir Þórhildar Svövu var Guðrún Pálsdóttir, f. á Reynifelli á Rangárvöllum 28. júní 1891, d. 7. maí 1988. Systkini Þórhildar Svövu, sem öll eru látin, voru Ingibjörg, Þórhildur, Guðbjörg Bjarney, Kristinn, Guðrún Sigríður, Þórdís Inga, Þóra, Anna, Aðalheiður, Pálína Salvör, Steinn, Bjarnhéðinn, Tyrfingur Ármann, Sigurður, Guðbjörn Ingi og andvana fæddur bróðir.

Hinn 29. ágúst 1951 gekk Þórhildur Svava að eiga Pál Jónsson tannlækni, f. 22. ágúst 1924. Foreldrar hans voru hjónin Jón Pálsson dýralæknir, f. 7. júní 1891, d. 19. desember 1988, og Áslaug Stephensen, f. 23. apríl 1895, d. 25. október 1981. Börn Þórhildar Svövu og Páls eru 1) Áslaug, tannsmiður og sjúkraliði á Selfossi, f. 15.9. 1958. Eiginmaður Guðmundur Jónsson, f. 1961, d. 13. janúar 2025, synir þeirra eru a) Jón Ingibergur, f. 1995, hann á dótturina Arneyju Rut, f. 2021, b) Brynjar Páll, f. 1997, d. 2003. Fyrir átti Áslaug Þórhildi Svövu, f. 1978, gift Torfa Ragnari. Dætur þeirra eru Emilía, f. 2003, og Ásdís Laufey, f 2008. 2) Jón Pálsson, flugvirki, búsettur í Hafnarfirði, f. 2.12 1959, kvæntur Aðalheiði Jónu Gunnarsdóttur, f. 26.9. 1958, synir þeirra eru a) Páll, f. 1979, sambýliskona Guðrún Ýr. Dætur þeirra Nanna, 2003 og Heiða Karen, f. 2013. b) Þór, f. 1983, synir hans eru Torfi, f. 2012, og Finnbjörn, f. 2017. 3) Þorsteinn Pálsson, tannlæknir á Selfossi, f. 18.11. 1964, sambýliskona Margrét Ásta Guðjónsdóttir, f. 14.6. 1960. Börn Þorsteins af fyrra hjónabandi með Jónínu Lóu Kristjánsdóttur eru a) Kristján Patrekur, f. 1993, Þorbergur, f. 2001, Sóllilja Svava, f. 2003.

Þórhildur Svava ólst upp hjá föður sinum og fósturmóður í Rifsalakoti í Ásahreppi. Hún starfaði um tíma í kjötbúð í Reykjavík og á þeim tíma kynntist hún verðandi eiginmanni sínum Páli Jónssyni, sem þá var við nám í tannlækningum. Þórhildur Svava lauk námi við húsmæðraskólann á Laugarvatni vorið 1951, Það sama ár hófu þau Páll búskap á Selfossi og bjuggu þar alla tíð síðan. Þórhildur Svava starfaði sem klínikdama hjá eiginmanni sínum um nokkurra ára skeið en eftir það sem húsmóðir á erilsömu heimili. Hún var virk í félagslífi á Selfossi alla tíð.

Útför Þórhildar Svövu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 12. febrúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 14.

Jæja, þá er farsæl ævi á enda hjá henni Svövu mömmu minni en hún bar líka drottningarnafnið Þórhildur, sem var við hæfi því hún var drottning í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Þann 4. febrúar sl. varð hún 94 ára og við gerðum okkur ferð í óveðrinu sem gekk yfir þann dag á dvalarheimilið Lund á Hellu, þar sem hún dvaldist sl. rúma ár. Þar var hún í sínu fínasta pússi með uppsett hárið og virtist hress. Ekki grunaði okkur að við værum að kveðja hana í síðasta sinn. Hún mamma var stór karakter og það kom fyrir að erfitt gat verið að lesa næstu leiki – en það er löngu gleymt (Rósir og vín). Ég get bara viðurkennt hér að ég fékk hundrað prósent þjónustu hjá henni í uppeldinu og það verður ekki frá henni tekið. Til er saga þar sem upp um mig komst hversu ofdekraður ég var, þá staddur að keppa í knattspyrnu á Ísafirði, þegar ég dró upp úr keppnistöskunni fótboltaskóna – báða á sama fót og þá hrópa ég upp, æi mamma hvað hefurðu gert! Mamma og pabbi bjuggu okkur systkinum yndislegt heimili þar sem stöðugur straumur var af fólki, vinunum þeirra og ættingjum eins sem heimilið stóð opið fyrir vinum okkar systkina. Það var oft glatt á hjalla (Tondeleyó). Ókei stelpur, étiði kleinur! Þetta er orðið gott líf og ég legg aftur augun í Rangárþingi. Mamma sagði oft við góð tilefni „Ég er Rangæingur og rakinn sjálfstæðismaður.“ Hún mamma fékk endinn eins og hún óskaði sér að sofna og vakna í draumalandinu hjá pabba og öllum hinum. Við systkinin viljum koma á framfæri þökkum til starfsfólks dvalarheimilisins á Lundi fyrir frábæra umönnun þetta sl. ár. Að lokum hafðu þökk fyrir allt elsku mamma og hvíl í friði, guð geymi þig. Þinn sonur Steini.

Þorsteinn.