Frávísun Búseti mun meta næstu skref eftir því sem málinu vindur fram.
Frávísun Búseti mun meta næstu skref eftir því sem málinu vindur fram. — Morgunblaðið/Eggert
„Búseti telur úrskurð kærunefndar að vissu leyti skiljanlegan þar sem byggingarfulltrúi tók nýja ákvörðun í málinu eftir að kæran var send nefndinni,“ segir Erlendur Gíslason, lögmaður hjá Logos, sem gætir hagsmuna Búseta vegna byggingar vöruhússins við Álfabakka 2

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Búseti telur úrskurð kærunefndar að vissu leyti skiljanlegan þar sem byggingarfulltrúi tók nýja ákvörðun í málinu eftir að kæran var send nefndinni,“ segir Erlendur Gíslason, lögmaður hjá Logos, sem gætir hagsmuna Búseta vegna byggingar vöruhússins við Álfabakka 2.

Hann telur að nefndin líti svo á að byggingarfulltrúi hafi þar með aftur­kallað hina kærðu ákvörðun sem snerist um stöðvun framkvæmda og að málið sé aftur komið til meðferðar hjá borginni.

„Jafnframt má ætla að kæra Búseta til úrskurðarnefndarinnar hafi haft áhrif á framvindu málsins og knúið byggingarfulltrúa til þess að skoða málið nánar, þegar hann þurfti að bregðast við kærunni, og það leitt til þess að hann stöðvaði framkvæmdir að hluta, rúmum tveimur vikum eftir framlagningu kærunnar. Í nýrri ákvörðun byggingarfulltrúa kemur fram að honum kunni að vera heimilt að breyta eða afturkalla byggingarleyfið í kjölfarið.“

Erlendur segir að þar sem málið sé enn til athugunar hjá byggingarfulltrúa mun Búseti í framhaldinu meta næstu skref eftir því sem málinu vindur fram en eftir atvikum geti reynt á nýjar ákvarðanir borgarinnar fyrir nefndinni, eins og hún bendir á í úrskurðinum.

Frumkvæði byggingarfulltrúa

Í greinargerð úrskurðarnefndarinnar kemur fram að á meðan málið var til meðferðar hafi borist tilkynning frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík um að framkvæmdir við kjötvinnsluna yrðu tafarlaust stöðvaðar. Ástæða stöðvunarinnar var sögð vera að við nánari skoðun á aðaluppdráttum hefði þurft að gera betri grein fyrir 3.200 fermetra rými sem áætlað er fyrir kjötvinnslu og að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort félagið hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu.

Höf.: Óskar Bergsson