Jerúsalem Ísraelskir mótmælendur hvöttu í gær þarlend stjórnvöld til þess að halda vopnahléinu áfram til þess að hægt yrði að fá gíslana heim.
Jerúsalem Ísraelskir mótmælendur hvöttu í gær þarlend stjórnvöld til þess að halda vopnahléinu áfram til þess að hægt yrði að fá gíslana heim. — AFP/Menahem Kahana
Vopnahlé Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas hékk í gær á bláþræði, en báðir aðilar saka hinn um að hafa brotið gegn skilmálum vopnahlésins. Hamas-samtökin lýstu því yfir í fyrradag að þau myndu ekki láta gísla úr haldi næstkomandi laugardag …

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vopnahlé Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas hékk í gær á bláþræði, en báðir aðilar saka hinn um að hafa brotið gegn skilmálum vopnahlésins. Hamas-samtökin lýstu því yfir í fyrradag að þau myndu ekki láta gísla úr haldi næstkomandi laugardag líkt og samkomulagið gerir ráð fyrir, og hefur Ísraelsher verið settur á hæsta viðbúnaðarstig vegna þess.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í fyrrakvöld að hann teldi rétt að aflýsa vopnahléinu ef ekki væri búið að láta gíslana lausa fyrir hádegi á laugardaginn og láta þá vopnin tala.

Einn af leiðtogum Hamas-samtakanna, Sami Abu Zuhri, sagði í gær við AFP-fréttastofuna að ummæli Trumps flæktu málin. „Trump verður að muna að það er samkomulag sem báðir aðilar verða að virða, og þetta er eina leiðin til þess að fá gíslana til baka,“ sagði Zuhri og bætti við að hótanir hefðu ekkert gildi.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í gær Hamas-samtökin til þess að láta þá gísla lausa sem ættu að fara til Ísraels á laugardaginn. „Við verðum að forðast hvað sem það kostar að átök brjótist aftur út á Gasasvæðinu, sem myndi leiða til mikils harmleiks,“ sagði Guterres á samfélagsmiðlum sínum.

Verði ekki reknir frá Gasa

Forseti Egyptalands, Abdel Fattah al-Sisi, sagði í gær að endurreisnarstarfið á Gasasvæðinu yrði að fara fram án þess að íbúar svæðisins yrðu neyddir þaðan. Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt til að Palestínumönnum verði vikið frá svæðinu og að Bandaríkin fái að endurreisa það.

Í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina sem sýnt var í fyrrakvöld sagði Trump aðspurður að íbúar Gasasvæðisins myndu ekki fá að snúa aftur heim, heldur ættu þeir að fá varanleg heimili núna í nágrannaríkjunum. Sagði Trump að það gæti tekið mörg ár áður en Gasasvæðið yrði byggilegt á ný, og að í millitíðinni ættu Bandaríkin að eignast svæðið og byggja það upp.

Trump lýsti einnig yfir að hann gæti stöðvað aðstoð til Egyptalands og Jórdaníu ef þau neituðu að taka við íbúum Gasasvæðisins.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson