Sveinn Sölvason, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Emblu Medical, segir í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið sé í dag með starfsemi í nær öllum löndum sem eru með einhvers konar heilbrigðiskerfi. „En í þeim löndum þar sem langstærsti hluti mannkyns býr er ekki nógu virkt heilbrigðiskerfi. Níutíu prósent af lausnum okkar eru fjármögnuð af opinberum eða einkareknum tryggingakerfum. En í löndum eins og Kína, Brasilíu og Indlandi er því ekki til að dreifa. Þar snýst þetta mjög mikið um að auka aðgengi að lausnum okkar. Í þeim tilgangi menntum við stoðtækjafræðinga og erum einnig að þróa einfaldari og ódýrari lausnir sem henta þessum mörkuðum. Viðskiptamódel okkar er sem sagt talsvert frábrugðið í þessum löndum samanborið við lönd þar sem gamalgróið heilbrigðiskerfi er til staðar. Í þróuðum löndum erum við einfaldlega í góðum samskiptum við sérfræðinga og heilbrigðisyfirvöld. Allt er í fastmótuðum ferlum. Í fátækari löndum, þar sem ekki er heilbrigðiskerfi, er raunin sú að fólk þarf að borga sjálft fyrir stoðtæki. Það segir sig sjálft að það eru þá bara þeir efnameiri sem hafa aðgang.“
Það er því ljóst að tækifæri Emblu eru bæði af landfræðilegum og tæknilegum toga. „Það er enn heilmikið óunnið í að bæta tæknina. Við eigum langt í land með að búa til lausnir sem eru jafn fullkomnar og mannslíkaminn, en tækninni fleytir sífellt fram og tækifærin eru mörg.“
Spurður að því hvaða lönd séu móttækilegust fyrir hátæknivörum Emblu og á sama tíma líklegust til að hlusta á skilaboð fyrirtækisins um gildi endurgreiðslna segir Sveinn að þar megi nefna Þýskaland og lönd Skandinavíu. „Þau eru hvað lengst komin með hlutfallslega notkun á þessum hátæknivörum. Bandaríkin eru líka vel á veg komin,“ segir Sveinn Sölvason.