Tímarit Séð og heyrt kom út í 20 ár, 1996 til 2016.
Tímarit Séð og heyrt kom út í 20 ár, 1996 til 2016. — Skjáskot/Stöð 2
Ljósvaka skilst að það sé enn verið að sýna heimildarþætti Þorsteins J. um tímaritið Séð og heyrt. Stöð 2 hefur verið með þættina á sunnudagskvöldum og endursýnt kvöldið eftir, og kannski oftar

Björn Jóhann Björnsson

Ljósvaka skilst að það sé enn verið að sýna heimildarþætti Þorsteins J. um tímaritið Séð og heyrt. Stöð 2 hefur verið með þættina á sunnudagskvöldum og endursýnt kvöldið eftir, og kannski oftar.

Ljósvaki horfði á fyrstu þrjá þættina og fannst þeir bara nokkuð góðir, enda er Þorsteinn snjall fjölmiðlamaður, læs á mannlega vinkla og segir skemmtilega frá. Eftir þrjá þætti mátti halda að búið væri að tæma 20 ára sögu þessa blaðs og búið að tala við sömu viðmælendur oftar en einu sinni. En í ljós kom að þættirnir eru sex talsins og sá síðasti er víst enn eftir. Ætli sé ekki rétt að Ljósvaki kíki á þann þátt og sjái hvort eitthvað nýtt komi fram.

Á sama tíma og sýndir eru sex heimildarþættir í íslensku sjónvarpi um slúðurblað fékk þjóðin að sjá fjóra leikna þætti um Vigdísi Finnbogadóttur. Sú framleiðsla var sannarlega kostnaðarsamari, en Ljósvaki hefði viljað sjá fleiri þætti um okkar ágæta fyrrverandi forseta. Þótt aðeins hafi verið tekinn fyrir fyrri hluti ævi Vigdísar, fram að forsetakjöri 1980, hefði verið hægt að gera fleiri þætti. Skautað var létt yfir of mörg atriði. Vonandi ræðst Vesturport í gerð fleiri þátta. Vigdís er þjóðargersemi.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson