Meðal þess sem gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center hyggst nota 21 milljarðs króna fjármögnun í, sem sagt var frá á mbl.is í síðustu viku, er uppbygging á næstu kynslóð gagnavera til að styðja við fjölbreyttar þarfir viðskiptavina, m.a. á sviði gervigreindar. „Við erum alltaf að bæta gagnaver okkar til að mæta ríkari kröfum viðskiptavina og styðja við aukna reiknigetu nútímatölvubúnaðar. Nýjustu kynslóðir tölvubúnaðar krefjast aukinnar kælingar og við munum setja upp næstu kynslóð af kælibúnaði til að gera þetta mögulegt,“ segir Björn Brynjúlfsson forstjóri fyrirtækisins í samtali við ViðskiptaMoggann.
„Í nýjum tölvubúnaði þarf að kæla örgjörvann með vökva og við nýtum kalda loftið með varmaskiptum. Það er mjög hagfellt að vera staðsettur á norðurslóðum í þessu samhengi.“
Aðspurður segir Björn að glettilega miklu geti munað í kostnaði að vera jafn norðarlega með gagnaverin og Borealis, en fyrirtækið rekur gagnaver á Íslandi og í Finnlandi.
Spurður um gagnastrengi milli Íslands og Evrópu segir Björn að miklu hafi munað að fá streng beint til Írlands árið 2023. „Þar eru öll stærstu tölvufyrirtækin á borð við Google og Microsoft með gagnaver auk þess sem öll helstu símafyrirtæki heims eru þar með aðstöðu. Það skiptir miklu fyrir okkur að geta beintengst þeim.“
Borealis og hin íslensku gagnaverin atNorth og Verne Global hlutu fyrir helgina heiðursverðlaun UT-verðlauna Ský árið 2025. Í umsögn dómnefndar segir að gagnaver hafa verið vanmetinn þáttur í uppbyggingu ákjósanlegrar stöðu Íslands á sviði upplýsingatækni, stafrænna samskipta og almannaöryggis. „Ég er stoltur af þessari viðurkenningu. Gagnaverin eru lykilstoð undir öflugan upplýsingatæknigeira ásamt því að tryggja almenna innviðauppbygginu. Mikil snjóboltaáhrif eru bersýnileg í nágrannalöndunum, t.d. í hinum norrænu löndunum og á Írlandi og það sama á við hér á landi þar sem afleidd áhrif eru viðamikil.“
Spurður um fjármögnunina segir Björn að fjárfestar hafi tekið fyrirtækinu vel. „Þeir eru spenntir fyrir uppbyggingunni sem fram undan er.“
Um framtíðarfjármögnunarþörf segir Björn að lokum að geirinn sé fjárfrekur. „Við þurfum góðan stuðning frá okkar fjármögnunaraðilum til að tryggja öfluga uppbyggingu, öryggi og það þjónustustig sem nauðsynlegt er.“