Ljóð Formið er heillandi, segir Örn Árnason, hér við styttuna af Tómasi.
Ljóð Formið er heillandi, segir Örn Árnason, hér við styttuna af Tómasi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Góð skáld eiga alltaf erindi við samfélagið, ekki síst þegar ljóðin hafa boðskap og hugsun,“ segir Örn Árnason leikari. Hann er nú með í undirbúningi kvöldskemmtun sem verður í Salnum í Kópavogi 22

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Góð skáld eiga alltaf erindi við samfélagið, ekki síst þegar ljóðin hafa boðskap og hugsun,“ segir Örn Árnason leikari. Hann er nú með í undirbúningi kvöldskemmtun sem verður í Salnum í Kópavogi 22. febrúar næstkomandi og hefst kl. 20. Þar mun Örn ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur – Diddú – og Jónasi Þóri píanóleikara með lestri og söng flytja ýmis ljóð Tómasar Guðmundssonar skálds svo úr verður dagskrá sem ber heitið Tómas og við.

Liggur yfir Tómasarkvæðum

Í íslenskum bókmenntum og ljóðlist er Tómas Guðmundsson (1901-1983) stórt nafn. Fyrsta ljóðabók Tómasar Við sundin blá kom út 1925. Strax þá var nýr tónn sleginn með því að ljóðin höfðu tengingu við Reykjavík. Borgin var þar sett í ljós fegurðar, af skáldinu, ungum manni austan úr Grímsnesi. Var þá farið að tala um Tómas sem Reykjavíkurskáld og heldur hann þeim titli enn.

„Ljóðaformið er heillandi. Það er list að geta raðað saman í form fáum orðum sem segja margt. Kveðskap má svo nálgast á ýmsa vegu; í góðum flutningi geta ljóð fengið nýja merkingu,“ segir Örn sem að undanförnu hefur legið yfir Tómasarkvæðum og þannig sett saman dagskrána sem verður í Salnum.

Margir hafa spreytt sig á að gera stef við ljóð Tómasar, svo sem Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra (1917-2005). Hann samdi gullfallegt lag við ljóðið Ég leitaði blárra blóma.

„Svo mun ég lesa ljóðið Hótel Jörð sem er þrungið af merkingu. Og þar er sumstaðar aðeins hálf sagan sögð svo sem í niðurlagi þar sem er vísað í Metúsalem og Pétur. Þetta taldi ég að væri biblíuleg tilvísun en þarna mun vera um að ræða fræga okurlánara sem voru í Reykjavík í upphafi 20. aldarinnar og innheimtu 100% vexti af höfuðstólnum. Ljóðin Hvað er í pokanum og Kvæði um stúlku frá Súdan hafa sömuleiðis mikil en djúp skilaboð.“

Alvörugefinn húmoristi

Örn minnist lítilla en góðra kynna af Tómasi sem varð áttræður í janúar 1981. Þá var honum haldin afmælisvaka þar sem nemendur í Leiklistarskóla Íslands voru með dagskrá. Örn var í þeim hópi og átti þar skemmtilegt samtal við Tómas um lífið og tilveruna. „Tómas var alvörugefinn í viðkynningu, enda þótt í ljóðum hans megi líka oft finna húmor og kaldhæðni. Mér finnst alltaf gaman að blaða í ljóðasafni hans,“ segir Örn.

Í seinni tíð hefur Örn gjarna verið með eina til tvenna tónleika á ári í Salnum, þá samkvæmt dagskrá sem hann mótar eftir eigin höfði. Á þessum vettvangi flutti hann eitt sinn efni úr revíum og seinna lög eftir Sigfús Halldórsson sem taka má fram að samdi lög við nokkur ljóð eftir Tómas. Á næsta ári stefnir Örn svo á tónleika eða samkomu þar sem ljóð eftir Einar Benediktsson yrðu efniviðurinn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson