Dietrich Sigríður Ásta ásamt Jóhanni sem bregður sér í öll móthlutverkin.
Dietrich Sigríður Ásta ásamt Jóhanni sem bregður sér í öll móthlutverkin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í raun byrjaði þetta ævintýri þegar systir mín gaf mér sjálfsævisögu Marlene Dietrich fyrir rúmum þremur árum á þýsku. Þá vissi ég ekki mikið um hana en byrjaði að lesa bókina og það var einhver tónn í henni sem var svo persónulegur

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Í raun byrjaði þetta ævintýri þegar systir mín gaf mér sjálfsævisögu Marlene Dietrich fyrir rúmum þremur árum á þýsku. Þá vissi ég ekki mikið um hana en byrjaði að lesa bókina og það var einhver tónn í henni sem var svo persónulegur. Mér fannst einhvern veginn eins og hún sæti í stofunni hjá mér og væri að tala við mig, ekki að ég væri að lesa bók. Svo ég varð forvitin,“ segir Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, leikkona og höfundur verksins Dietrich, í leikstjórn Snædísar Lilju Ingadóttur, sem frumsýnt verður í Sjálfstæðissalnum á Parliament Hotel annað kvöld, fimmtudaginn 13. febrúar, kl. 20.30. Segir hún að um nokkurs konar söngleik sé að ræða.

„Þetta skiptist myndi ég segja 50/50 í leik og söng og í verkinu er einungis tónlist sem Marlene Dietrich gerði fræga. Það tímabil spannar alveg frá 1925 til 1970 en verkið fjallar í rauninni um ævina hennar og fjölskyldulífið og hvernig það þróast með ferli hennar,“ útskýrir hún.

Bar Dietrich ekki vel söguna

Eftir að Dietrich dó árið 1992 gaf dóttir hennar, leikkonan Maria Riva, sem nú er á 101. aldursári, út bókina Marlene Dietrich.

„Þar ber hún móður sinni ekki vel söguna, sem kom mér á óvart því þegar ég las sjálfsævisögu Dietrich varð ég svolítið skotin í henni. Eftir það fór ég að fræðast meira um hana og las svo þessa bók eftir dóttur hennar. Ég komst þá að því að búið er að gera mikið efni um Dietrich upp úr þeirri bók sem sýnir hana í frekar slæmu ljósi. Mig langaði því að koma með eitthvert andsvar við því, fyrir Dietrich,“ segir Sigríður Ásta og bætir því við að á sama tíma vilji hún líka nota sýninguna til að tala gegn stríði eins og Dietrich gerði en að hennar sögn var hún mikil baráttukona í þeim efnum. „Hún var einnig mikil hinsegin táknmynd [e. queer icon] og stendur fyrir svo margt sem skiptir máli í dag, fyrir hluti sem standa völtum fótum eins og rétt okkar til að alast upp í friðsælum heimi. Sá réttur okkar er að hverfa og það loforð sem Vesturheimur gaf, að við myndum aldrei aftur fara í stríð, er brostið.“

Píparinn hljóp í skarðið

Sigríður Ásta er útskrifuð með BA-gráðu frá Copenhagen International School of Performing Arts en áður stundaði hún söngnám við Söngskólann í Reykjavík, þaðan sem hún lauk 8. stigi í söng, og Tónlistarháskólann í Vínarborg ásamt því að sækja einkatíma hjá ýmsum söngkennurum. Dietrich er ekki fyrsta verkið sem Sigríður Ásta semur, því áður hafði hún sett upp einleikinn Hulið í Tjarnarbíói árið 2023. „Það var mitt fyrsta stóra verk en fyrir það hafði ég líka gert tónleikhússýningu, sem var einnig einleikur, með píanódúettinum IsNord en þau réðu mig til þess að gera verk um Guðríði Þorbjarnardóttur hina víðförlu,“ segir hún og tekur fram að í sýningunni núna verði þau tvö á sviðinu, hún og Jóhann Axel Ingólfsson, leikari og píanisti.

„Það er skondin saga að segja frá því hvernig leiðir okkar Jóhanns lágu saman. Ég var að sýna sýningu í Tjarnarbíói um jólin og píanistinn okkar varð veðurtepptur í Hveragerði. Jóhann, sem er líka pípari, var að laga ofna í Tjarnarbíói þegar hann heyrði að það vantaði píanista fyrir kvöldið. Ég var mjög skeptísk á þetta því hann hafði einungis þrjá klukkutíma til að læra sýninguna. Hann þurfti nefnilega bæði að spila og leika en hann stökk inn með þessum stutta fyrirvara og reddaði sýningunni, sem er náttúrulega bara fáránlegt,“ segir hún og skellihlær.

„Síðan þá höfum við Jóhann verið að vinna músík saman.“

Bókin mikill áhrifavaldur

Að sögn Sigríðar Ástu kviknaði hugmyndin um að gera eitthvað skemmtilegt með tónlist Marlene Dietrich þegar hún mætti með sjálfsævisögu hennar í Söngskólann í Reykjavík þar sem hún er að kenna. „Kollegi minn þar, Sigurður Helgi Oddsson, sá bókina og fékk í framhaldinu áhuga á að vinna með mér að tónlistinni hennar. Við fórum því að rannsaka hana saman og útsettum flest af þessum lögum sem við erum með í sýningunni núna. Við gerðum tilraunasýningu um Dietrich í Borgarnesi fyrir tæpum tveimur árum en hann er að vinna svo mikið að hann gat ekki haldið áfram í verkefninu með mér. Þannig að ég náði bara í hann Jóhann minn sem er líka lærður leikari,“ segir hún kímin.

„Sigurður Helgi útsetti því mörg af þessum lögum og við fundum tóntegundir sem henta röddinni minni því ég er ekki jafn djúprödduð og Dietrich. Svo kom Jóhann og tók við tónlistarstjórn verksins en hann sér bæði um að spila á píanóið og leika öll móthlutverkin mín.“

Spurð í kjölfarið hvort saga Dietrichs eða lögin hennar séu drifkrafturinn í verkinu segir Sigríður Ásta að um blöndu af hvoru tveggja sé að ræða.

„Í rauninni notum við lögin hennar til að segja söguna. Svo komum við með senur inni á milli sem dýpka aðeins aðstæðurnar. Sýningin fer svo fram á íslensku, ensku, þýsku og frönsku. Samræðurnar fara yfirleitt fram á íslensku en svo syngjum við lögin að mestu á upprunalega tungumálinu.“

Fyrst til að klæðast buxum

Innt eftir því hvað það sé helst sem geri Dietrich áhugaverða segir Sigríður Ásta það fyrst og fremst vera hversu mikill ögrari hún hafi verið.

„Hún var merkileg kona sem upplifði tvær heimsstyrjaldir. Hún ólst upp í Þýskalandi í fyrri heimsstyrjöldinni og bauð nasistunum birginn í þeirri síðari með því að syngja fyrir bandamenn og þjóna í ameríska hernum. Hún var einnig fyrsta leikkonan í Hollywood til að ganga í buxum og tala opinskátt um ástarsambönd sín við konur jafnt sem karla,“ segir hún og vitnar því næst í ástarsamband Dietrichs við leikkonuna Gretu Garbo.

„Hún fetaði því ótroðnar slóðir og var ekki hrædd við að vera öðruvísi. Hún réð ekki við löngunina til að ögra en var alin upp á hefðbundinn hátt. Hún átti að vera kona sem giftist manni og eignaðist börn og heimili en hún varð í staðinn ástfangin á hverju götuhorni og elti þessa náttúru í sér. Hún varð móðir og eiginkona og vildi á sama tíma fá að vera hefðbundin og óhefðbundin. Það eru því þessar mótsagnir sem voru í henni sem mér finnst svo áhugaverðar,“ segir hún að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir