Svíþjóð
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Knattspyrnukonan Alexandra Jóhannsdóttir er spennt fyrir komandi keppnistímabili í sænsku úrvalsdeildinni en hún gekk til liðs við Íslendingalið Kristianstad á dögunum frá Fiorentina á Ítalíu.
Alexandra, sem er 24 ára gömul, skrifaði undir tveggja ára samning við Kristianstad en hún er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði.
Hún gekk til liðs við Breiðablik í október árið 2017 og varð tvívegis Íslandsmeistari á tíma sínum í Kópavoginum og einu sinni bikarmeistari.
Miðjumaðurinn hélt út í atvinnumennsku í janúar árið 2021 þegar hún samdi við Eintracht Frankfurt en þaðan lá leiðin til Fiorentina árið 2022.
„Lífið í Svíþjóð er fínt og þessir fyrstu dagar hérna hafa verið skemmtilegir,“ sagði Alexandra í samtali við Morgunblaðið.
„Þetta er mjög heimilislegt allt saman. Það er mikið af Íslendingum hérna og það hefur verið tekið mjög vel á móti mér. Ég fór að hugsa mér til hreyfings í desember þar sem mér fannst ég ekki vera að fá þær mínútur á vellinum sem ég taldi mig eiga skilið. Ég gaf mig alla í æfingarnar og gerði í raun allt sem ég gat en þegar allt kemur til alls er það undir þjálfaranum komið hvort þú spilar eða ekki. Ég ræddi þetta við þjálfarann og spurði hvort félagið væri tilbúið að leyfa mér að róa á önnur mið og hann svaraði því játandi og hingað er ég komin,“ sagði Alexandra sem á að baki 49 A-landsleiki og sex mörk.
Lék vel á síðustu leiktíð
Alexandra kom við sögu í 12 leikjum Fiorentina á tímabilinu og skoraði í þeim eitt mark en félagið er í fjórða sæti A-deildarinnar með 28 stig þegar tímabilið er rúmlega hálfnað.
„Ég spilaði vel á síðustu leiktíð en lenti svo í leiðinlegum meiðslum og var frá keppni í einhvern tíma. Þegar ég sneri aftur eftir meiðslin þá þurfti ég fyrst og fremst mínútur á vellinum til þess að koma mér aftur í leikform og ég var ekki að fá þær mínútur sem ég þurfti. Ég var líka komin á þann stað andlega að mér fannst ég þurfa eitthvað nýtt.
Fiorentina er frábær klúbbur og ég elskaði lífið utan vallar á Ítalíu. Það var samt kominn ákveðinn leiði í mig. Þegar þú ert atvinnumaður í fótbolta þá á þetta að vera gaman og það á að vera gaman að mæta á æfingar. Ánægjan var aðeins horfin hjá mér á Ítalíu og þetta var góður tímapunktur til þess að breyta til.“
Ræddi við Guðnýju
Nokkur félög sýndu Alexöndru áhuga en af hverju ákvað hún að fara til Svíþjóðar?
„Ég skoðaði alveg eitthvað annað líka en eftir að hafa rætt við þjálfara Kristianstad, þau Daniel Angergård og Johönnu Almgren, þá leist mér best á Kristianstad. Þau eru með skýra sýn á hlutina og hvernig þau vilja að liðið spili. Þau sjá mig fyrir sér sem mikilvægan leikmann í liðinu og verkefnið hjá Kristianstad heillaði mig líka.
Ég sé fram á að geta bætt mig mikið sem leikmaður hérna og það var stór ástæða þess að ég ákvað að skrifa undir. Ég ræddi líka við Guðnýju Árnadóttur áður en ég tók ákvörðun. Hún er búin að vera hérna í tæpt ár og ég treysti henni fullkomlega. Hún talaði mjög vel um félagið og starfsfólkið og það gerði ákvörðunina ennþá auðveldari fyrir vikið.“
Leið vel utan vallar
Alexandra stóð sig vel á Ítalíu þegar hún fékk tækifæri með liði Fiorentina.
„Ég fílaði mig mjög vel á Ítalíu. Fiorentina er frábært félag og umgjörðin og æfingasvæðið er í heimsklassa. Það hefur verið mikill uppgangur í kvennafótboltanum á Ítalíu á undanförnum árum og það var virkilega gaman að fá að taka þátt í því. Liðin hafa verið dugleg að styrkja sig líka með sterkum og öflugum leikmönnum.
Framtíðin er mjög björt í ítölsku deildinni og hún verður alltaf stærri og stærri. Það var erfitt að yfirgefa Fiorentina, ég skal alveg viðurkenna það, og ef mínúturnar inni á vellinum hefðu verið fleiri á þessu tímabili þá hefði ég verið áfram á Ítalíu, það er klárt mál, en svona er fótboltinn stundum.“
Mikil fundarhöld í Svíþjóð
En er mikill munur á því að spila í Þýskalandi, á Ítalíu og nú í Svíþjóð?
„Þetta er allt mjög ólíkt. Ítalska deildin er mjög teknísk og þar eru þetta meira 11 einstaklingar sem eru saman inni á vellinum, allavega miðað við Svíþjóð. Það er lagt mjög mikið upp úr allri taktík í Svíþjóð og ég er auðvitað ekki búin að spila deildarleik ennþá en það hefur verið nóg af fundum tengdum taktík í kringum þessa æfingaleiki frá því að ég kom.
Mér líður hálfpartinn eins og ég sé bara búin að vera á fundum frá því að ég kom til Svíþjóðar. Svo ertu með Þýskaland þar sem þú ert með tekníska leikmenn í bland við miklar vinnuvélar. Ég fæ betri mynd á þetta þegar tímabilið hefst fyrir alvöru en við fyrstu sýn er þetta mjög líkamlegt allt saman og hlutirnir í Svíþjóð snúast mikið um styrk og hlaupagetu.“
Með fiðring í maganum
Alexandra hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár en íslenska liðið tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins 2025 sem fram fer í Sviss í sumar.
„Auðvitað vill maður vera í besta mögulega leikforminu þegar EM hefst en ég var ekki bara að skipta um lið með landsliðið í huga. Þú þarft að hugsa aðeins lengra fram í tímann í þessu. Eins og ég kom inn á þá vantaði aðeins upp á gleðina hjá mér undir það síðasta og ég var hætt að vera með þennan fiðring í maganum fyrir leiki til dæmis.
Ég spilaði æfingaleik með Kristianstad um daginn og ég var stressuð fyrir leikinn, í fyrsta sinn í einhvern tíma. Þannig á það að vera því þetta er jú auðvitað vinnan þín og það skemmtilegasta sem þú gerir. Ég saknaði þessarar tilfinningar og ég er mjög ánægð með að hún sé komin aftur.“
Bjartsýnar fyrir EM
En hvernig leggst Evrópumótið í Sviss í Alexöndru?
„Ég er mjög spennt fyrir lokakeppninni og ég hlakka mikið til. Ef við spilum eins og við höfum verið að spila í síðustu leikjum þá tel ég okkur geta sett okkur alvöru markmið fyrir mótið í ár. Við höfum vaxið og þroskast mikið sem lið síðan Þorsteinn Halldórsson tók við. Þetta er ekki flókinn fótbolti sem við erum að spila en hann er árangursríkur.
Hugmyndafræði Þorsteins hentar liðinu vel finnst mér og við erum fyrst og fremst að einblína á styrkleika liðsins og við reynum að spila á þeim. Það er frábær stemning líka innan leikmannahópsins sem hjálpar alltaf. Það er mikil tilhlökkun innan leikmannahópsins fyrir því að fara til Sviss og við förum bjartsýnar inn í mótið,“ bætti Alexandra við í samtali við Morgunblaðið.