Handboltinn
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Fram vann sterkan sigur á Stjörnunni, 30:28, í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í gærkvöldi. Fram heldur kyrru fyrir í þriðja sæti þar sem liðið er með 22 stig. Stjarnan er í fimmta sæti með tíu stig.
Fram var sterkara liðið til að byrja með og var með fjögurra marka forystu, 11:7, þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður.
Stjarnan tók þá einstaklega vel við sér, sneri taflinu við og komst í 13:15. Gestirnir úr Garðabænum voru einu marki yfir, 15:16, í hálfleik.
Í síðari hálfleik var allt annað að sjá til Fram sem tók leikinn einfaldlega yfir og var komið átta mörkum yfir, 26:18, þegar hálfleikurinn var tæplega hálfnaður.
Framarar bættu nokkrum mörkum við en hófu að gefa töluvert eftir undir lokin. Að lokum vann Fram hins vegar tveggja marka sigur.
Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna. Alfa Brá Hagalín var skammt undan með sex mörk.
Eva Björk Davíðsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Stjörnuna. Embla Steindórsdóttir bætti við sex mörkum og fimm stoðsendingum.
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 13 skot í marki Stjörnunnar.
Haukar ekki í vandræðum
Haukar lentu ekki í vandræðum með nýliða Selfoss er liðin áttust við á Ásvöllum. Haukar eru áfram í öðru sæti en nú með 24 stig, sex stigum minna en topplið Vals. Selfoss er í fjórða sæti með 13 stig.
Haukar náðu strax stjórninni og komust í 7:1 eftir rúmlega 12 mínútna leik. Eftir það voru það gestirnir sem eltu.
Staðan var 15:10 í hálfleik og Haukar hófu síðari hálfleikinn á því að komast átta mörkum yfir, 19:11. Eftirleikurinn reyndist auðveldur og niðurstaðan var að lokum níu marka sigur.
Elín Klara Þorkelsdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir voru markahæstar í leiknum með sjö mörk hvor fyrir Hauka.
Sara Sif Helgadóttir átti stórleik í marki Hauka er hún varði 14 skot og var með 44 prósent markvörslu.
Hjá Selfossi var Perla Ruth Albertsdóttir markahæst með fimm mörk. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 14 skot í markinu.
Hafdís fór á kostum
Íslandsmeistarar Vals unnu nokkuð þægilegan heimasigur á ÍR, 22:19, á Hlíðarenda. Valur er á toppnum með 30 stig eftir 16 leiki, sex stigum meira en Haukar sem eru í öðru sæti og eiga leik til góða. ÍR er í sjötta sæti með níu stig.
Valur leiddi með fimm mörkum, 13:8, í hálfleik og náði sjö marka forystu, 22:15, þegar tæpar sjö mínútur lifðu leiks.
Valskonur slökuðu þá aðeins á og ÍR skoraði fjögur mörk í röð en komst hins vegar ekki nær og niðurstaðan var þriggja marka sigur.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með sjö mörk fyrir Val. Hafdís Renötudóttir átti magnaðan leik í markinu er hún varði 17 skot og var með 47 prósent markvörslu.
Katrín Tinna Jensdóttir var markahæst hjá ÍR með fimm mörk. Ingunn María Brynjarsdóttir lék afar vel í markinu er hún varði 14 skot og var með 39 prósent markvörslu.
15. umferð lýkur í kvöld þegar botnlið Gróttu fær ÍBV í heimsókn á Seltjarnarnesið. ÍBV er sæti ofar og því um fallbaráttuslag að ræða.