Einar Geir Þorsteinsson
Flokkur fólksins hefur fengið samtals 240 milljónir króna úr ríkissjóði á árunum 2022-2024, þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður í stjórnmálasamtakaskrá eins og lög kveða á um. Þrátt fyrir að greiðslurnar hafi verið ólögmætar frá upphafi virðist ekki standa til að krefja flokkinn um endurgreiðslu.
Ef einstaklingur fær ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun eða opinber starfsmaður fær ofgreidd laun er ætlast til þess að fjármunirnir verði endurgreiddir. Þegar stjórnmálaflokkur fær hins vegar ofgreitt fé úr ríkissjóði virðist fjármálaráðherra líta svo á að aðrar reglur eigi við. Ríkissjóður virðist tilbúinn að afsala sér lögmætri kröfu um endurgreiðslu um 240 milljónir króna af opinberu fé – án þess að láta reyna á endurkröfurétt sinn.
Lögin eru skýr
Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka nr. 162/2006 kveða á um að stjórnmálaflokkar þurfi að vera skráðir í stjórnmálasamtakaskrá til að eiga rétt á fjárframlögum úr ríkissjóði. Þetta skilyrði var lögfest með lagabreytingu árið 2021 og tók gildi 1. janúar 2022.
Flokkur fólksins nýtti sér ekki aðlögunartímabilið til að skrá sig réttilega og er enn þann dag í dag skráður sem frjáls félagasamtök. Þrátt fyrir að uppfylla ekki lagaskilyrði fyrir framlögum úr ríkissjóði tók flokkurinn athugasemdalaust við greiðslunum. Það er því enginn vafi á því að um ólögmætar greiðslur er að ræða.
Flokkur fólksins getur ekki talist grandlaus í neinum skilningi
Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, hefur sagt að flokkurinn hafi ekki vitað af þessari skráningarskyldu og að um „litla formvillu“ sé að ræða sem verði leiðrétt á næsta landsfundi. Slík skýring stenst enga skoðun.
Flokkurinn greiddi sjálfur atkvæði með lögunum á Alþingi og þar á meðal formaður flokksins sjálfur. Það er því ljóst að flokkurinn vissi eða mátti vita af skráningarskyldunni. Það er ekki gild afsökun að stjórnmálaflokkur hafi ekki kynnt sér lögin sem um hann gilda, en stjórnmálaflokkar, rétt eins og fyrirtæki og einstaklingar, bera fulla ábyrgð á að kynna sér lögin sem um þá gilda og að fylgja þeim.
Álitsgerð ríkislögmanns byggist á því að bæði ríkið og Flokkur fólksins hafi verið í góðri trú. Slík rök standast ekki. Grandleysi ræðst ekki af því hvort ríkið hafi gert mistök í verklagi heldur af því hvort Flokkur fólksins hafi mátt vita að greiðslan væri ólögmæt. Þar sem lagaskylda var skýr og skráningarskyldan ótvíræð verður ekki annað séð en að flokkurinn hafi borið fulla ábyrgð á því að hafa tekið á móti greiðslunum, sem voru ólögmætar frá upphafi.
Samanburður við aðra framkvæmd
Í íslenskum rétti gildir meginreglan að þeim sem fær ranglega greidda peninga ber að endurgreiða þá. Þetta er m.a. staðfest í dómi Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr. 32/2007, en þar segir orðrétt í niðurstöðu Hæstaréttar:
„Í íslenskum rétti gildir meginregla um að þeir sem fá fyrir mistök greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt til skuli endurgreiða þá.“
Það má finna fjölmörg dæmi úr framkvæmd þar sem skylda aðila til að endurgreiða ofgreitt fé úr ríkissjóði hefur verið staðfest:
Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 545/2019 var einstaklingur krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra húsnæðisbóta þar sem talið var að hann hefði mátt vita að fjárhagsstaða hans hefði áhrif á greiðslurnar.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4351/2006 fékk starfsmaður ríkisstofnunar greidd laun í átta mánuði eftir að hann hætti störfum. Hann hélt því fram að hann hefði talið að um bónusgreiðslu væri að ræða, en dómurinn taldi að honum hefði mátt vera ljóst að um mistök væri að ræða. Honum var því gert að endurgreiða fjárhæðina að fullu.
Þá eru fjölmörg lagaákvæði sem mæla fyrir um endurkröfurétt á ofgreiddu fé. Stendur þar næst að nefna 34. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 þar sem kveðið er á um að Tryggingastofnun eigi endurkröfurétt á ofgreiddum bótum.
Sömu reglur og sjónarmið hljóta að eiga við þegar stjórnmálaflokkur fær fjárframlög sem hann átti ekki rétt á.
Fjármálaráðherra getur ekki ákveðið að fella kröfuna niður
Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, hefur sagt að málið sé „ekki á hans borði“ nema að því leyti sem varðar vinnubrögð ráðuneytisins. Sú afstaða stenst ekki skoðun, enda á ríkissjóður lögmæta endurgreiðslukröfu á hendur Flokki fólksins.
Það er ekki á færi einstakra ráðherra að ákveða að láta slíka kröfu niður falla, og getur vísun í álitsgerðir tveggja lögmanna ekki breytt því. Rétt framkvæmd væri að krefja Flokk fólksins formlega um endurgreiðslu. Ef flokkurinn hafnar greiðsluskyldunni getur íslenska ríkið látið dómstóla skera úr um lögmæti endurgreiðslukröfunnar. Það væri eina eðlilega málsmeðferðin, enda er ótækt að ráðherra úr flokki sem er í stjórnarsamstarfi með Flokki fólksins taki ákvörðun, fyrir hönd íslenska ríkisins, um að ekki verði krafist endurgreiðslu á réttmætri kröfu íslenska ríkisins á hendur Flokki fólksins.
Höfundur er lögfræðingur.