Endurvinnsla Fernur eru ekki endurunnar eins og sakir standa.
Endurvinnsla Fernur eru ekki endurunnar eins og sakir standa. — Morgunblaðið/Eggert
Sorpa hefur neyðst til að breyta fyrirkomulagi endurvinnslu á pappír í kjölfar þess að bilun kom upp hjá fyrirtækinu sem sér um flokkun hans. Fyrirtækið Stena Recycling í Gautaborg hefur séð um að flokka drykkjarfernur frá öðrum pappír fyrir Sorpu og sent í sérhæfða endurvinnslu

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Sorpa hefur neyðst til að breyta fyrirkomulagi endurvinnslu á pappír í kjölfar þess að bilun kom upp hjá fyrirtækinu sem sér um flokkun hans.

Fyrirtækið Stena Recycling í Gautaborg hefur séð um að flokka drykkjarfernur frá öðrum pappír fyrir Sorpu og sent í sérhæfða endurvinnslu. Tjón varð hjá fyrirtækinu og hefur flokkunaraðstaða þess verið lokuð frá því um miðjan desember. Unnið er að viðgerðum á flokkunaraðstöðunni og gera forsvarsmenn Stena ráð fyrir að fyrirtækið geti að nýju tekið við pappír frá Sorpu í síðasta lagi 1. apríl næstkomandi. Þetta kom fram í minnisblaði Jóns Viggós Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Sorpu, sem lagt var fram á síðasta fundi stjórnar fyrirtækisins. Þar segir jafnframt að forráðamenn Stena hafi vegna umrædds tjóns óskað heimildar hjá Sorpu til að senda pappír frá Íslandi tímabundið til Smurfit Kappa þar til flokkunaraðstaðan komist aftur í gang. Stjórnendur Sorpu samþykktu þetta.

Ljóst er að á meðan málum er svo háttað er ekki hægt að endurvinna þær fernur sem eru sendar út til Svíþjóðar. Stjórnendur Sorpu telja þrátt fyrir það að ekki sé tilefni til að breyta leiðbeiningum um flokkun ferna, þar sem um tímabundið ástand sé að ræða.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon