Sveinn segir að samþykkt Medicare á auknu aðgengi að tölvustýrðum hnjám sé stærsta einstaka jákvæða breytingin á bandaríska endurgreiðslukerfinu í áratugi.
Sveinn segir að samþykkt Medicare á auknu aðgengi að tölvustýrðum hnjám sé stærsta einstaka jákvæða breytingin á bandaríska endurgreiðslukerfinu í áratugi. — Morgunblaðið/Eyþór
   Heilbrigðismarkaðurinn er stór og flókinn. Lyfjafyrirtækin eru einna stærst og margir að keppast um sömu fjármunina.

Ekki er langt síðan stoðtækjafyrirtækið Embla Medical, við Grjótháls í Reykjavík, færði aðalinngang fyrirtækisins milli húsa. Nú kemur maður inn í hlýlegt anddyri og á hægri hönd blasir við einskonar veitingastaður þar sem starfsmenn sitja að snæðingi og ræða saman um daginn og veginn.

Samtal okkar Sveins Sölvasonar fer fram á annarri hæð hússins og á leiðinni upp stigann segir forstjórinn mér að einhverjir muni væntanlega eftir því þegar bifreiðaumboðið BL var í húsinu og Land Rover-bílar og fleiri glæsifákar prýddu neðstu hæðina.

Áður en við ræðum viðburðaríkt liðið ár rifjar Sveinn upp sögu Emblu Medical sem hófst með stofnun Össurar hf. fyrir rúmlega fimmtíu árum.

„Fyrirtækið var stofnað af stoðtækjafræðingnum Össuri Kristinssyni árið 1971 og upphaflegt markmið var að þjónusta aflimaða einstaklinga hér á landi. Það var svo elja Össurar og frumkvöðlastarf sem varð til þess að hann fann upp sílíkonhulsu til að setja upp á stúfinn. Þessi hulsa er enn þann dag í dag stór vörulína hjá okkur,“ segir Sveinn.

Hann segir að árið 1996 hafi verið lagður grunnur að næsta þroskaskrefi í sögu fyrirtækisins. „Jón Sigurðsson kemur þá til starfa sem forstjóri og fyrirtækið fer á hlutabréfamarkað á Íslandi árið 1999. Þarna er farið af stað í kaup á fyrirtækjum úti í heimi og tryggður markaðsaðgangur og aukið vöruframboð bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Á nokkrum árum fórum við úr því að vera með fáeinar vörur í að geta boðið upp á heildstæðar lausnir fyrir sjúklinga. Einnig voru tekin stór skref í að hasla okkur völl í tengdum iðnaði stoðtækja og spelka – margvíslegum stuðningsvörum fyrir fólk sem þarf lausnir til skamms tíma á meðan það er að jafna sig af meiðslum eða öðru slíku.“

Stefna mörkuð

Sveinn segir að nú sé fyrirtækið komið í þriðja fasa á þróunarbraut sinni. Hann snýr að því að þjónusta þá notendur sem þurfa á lausnum fyrirtækisins að halda. „Þessi stefna var mörkuð fyrir tveimur árum í sérstakri fimm ára áætlun sem beinir sjónum félagsins að margvíslegum þörfum notenda í stað þess að vera nánast eingöngu tækni- og vörudrifið. Við viljum þjónusta fleiri hópa sem eiga við varanlega hreyfanleikaáskorun að stríða og erum stolt af því að hafa tekið stór skref í þá átt á liðnu ári.“

Eitt af þessum skrefum var stofnun hins nýja móðurfélags, Embla Medical. „Móðurfélagið styður við frekari vöxt og gefur okkur tækifæri til að skerpa enn frekar á hlutverki okkar á mismunandi stöðum í heildarvirðiskeðjunni. Þetta var nauðsynlegt skref bæði inn á við og út á við, til að greina á milli mismunandi þátta í okkar rekstri. Össur verður áfram flaggskipið hvað vörur varðar en á síðasta ári tókum við ákvörðun um að sameina allan þjónustureksturinn undir nýju vörumerki, ForMotion. Þannig að hlutverk Emblu er að styðja við vöxt fyrirtækisins. Embla tryggir réttu samlegðina en heldur ákveðnum aðskilnaði, því þetta er ólík starfsemi. Það styrkir samkeppnisstöðu okkar að vera bæði sterkt þjónustu- og vörufyrirtæki.“

Enn annað stórt skref á síðasta ári voru kaupin á þýska fyrirtækinu Fior & Gentz. „Það þróar lausnir fyrir einstaklinga sem hafa misst getu til að nýta vöðvana í neðri hluta líkamans vegna t.d. MS-sjúkdómsins eða heilablæðingar. Í þeim tilfellum þarf að smíða utanáliggjandi lausn til að endurvekja fyrri hreyfanleika. Þetta lítur út eins og spelka sem er sérsniðin að hverjum einstaklingi. Sama á við um stoðtækin sem við smíðum. Það þarf alltaf að sérsníða ákveðinn hluta af lausninni.

Fior & Gentz-lausnirnar eru einmitt dæmi um þá sérstöðu sem við höfum markað okkur, að styðja við einstaklinga með varanlegar hreyfanleikaáskoranir. Við viljum hjálpa þeim að auka lífsgæði og hreyfanleika. Það margborgar sig að styðja við aukinn hreyfanleika fólks. Af því hljótast aukin lífsgæði og heilbrigðiskerfið nýtur góðs af,“ útskýrir Sveinn.

Of lítil meðvitund

Hann segir að því miður sé enn of lítil meðvitund í kerfinu um þessa tilteknu lausn. „Í langflestum tilvikum þegar fólk fær heilablóðfall og missir hreyfigetu tekur við sjúkraþjálfun og einhver endurhæfing. Oft á tíðum týnast þessir einstaklingar í kerfinu. En það er okkar verkefni að auka þekkingu um lausnirnar og vinna í að fá endurgreiðsluaðila til samstarfs,“ segir Sveinn. Þar á hann við opinberar sjúkratryggingar og tryggingafélög sem greiða fyrir lausnir þeirra sem þurfa á þjónustu Emblu að halda.

Annar mikilvægur áfangi í fyrra var samþykkt bandaríska sjúkratryggingakerfisins Medicare á auknu aðgengi að tölvustýrðum hnjám eins og þeim sem Embla framleiðir. „Hingað til hefur afmarkaður hópur einstaklinga notið endurgreiðslu á þessum hátæknihnjám, en nú er búið að víkka út notendahópinn sem hefur möguleika á að fá slík hné. Ástæðan er að stoðtækjaiðnaðurinn hefur með gögnum náð að sannfæra yfirvöld um að betri lausnir sem skynja umhverfið og hjálpa notendum að vera hreyfanlegri skili sér í að viðkomandi verði þá minna líklegur til að detta og slasa sig og enda þar með inni á spítala með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Þannig að þegar horft er á þetta heildstætt þá ertu með þessum lausnum að lækka kostnaðinn við notendahópinn, þó svo að búnaðurinn sé dýrari.“

Spurður að því hversu auðvelt eða erfitt það sé að sannfæra yfirvöld um endurgreiðslur, segir Sveinn að það sé mjög erfitt. „Hvert land hefur sínar eigin aðferðir við að meta hvaða leiðir á að fara. Það er engin alheimslausn til á þessu þannig að við vinnum þetta í hverju landi fyrir sig. Heilbrigðismarkaðurinn er stór og flókinn. Lyfjafyrirtækin eru einna stærst og margir að keppast um sömu fjármunina. Þetta er talsverð áskorun og hlutfallsleg notkun á góðum lausnum er enn mjög lítil, jafnvel í löndum með gott heilbrigðiskerfi, og enn minni í þeim löndum sem eru ekki með neitt heilbrigðiskerfi. Þar sem aðgengið er minnst eru einmitt flestir sem þurfa á okkar vörum og þjónustu að halda. Þannig að við erum með stórt og mikilvægt verkefni á okkar höndum og fjölda tækifæra.“

Í nær öllum löndum

Sveinn segir að fyrirtækið sé í dag með starfsemi í nær öllum löndum sem eru með einhverskonar heilbrigðiskerfi. „En í þeim löndum þar sem langstærsti hluti mannkyns býr er ekki nógu virkt heilbrigðiskerfi. Níutíu prósent af okkar lausnum eru fjármögnuð af opinberum eða einkareknum tryggingakerfum. En í löndum eins og Kína, Brasilíu og Indlandi er því ekki til að dreifa. Þar snýst þetta mjög mikið um að auka aðgengi að lausnum okkar. Í þeim tilgangi menntum við stoðtækjafræðinga og erum einnig að þróa einfaldari og ódýrari lausnir sem henta þessum mörkuðum. Viðskiptamódel okkar er sem sagt talsvert frábrugðið í þessum löndum samanborið við lönd þar sem gamalgróið heilbrigðiskerfi er
til staðar. Í þróuðum löndum erum við einfaldlega í góðum samskiptum við sérfræðinga og heilbrigðisyfirvöld. Allt er í fastmótuðum ferlum. Í fátækari löndum, þar sem ekki er heilbrigðiskerfi, er raunin sú að fólk þarf að borga sjálft fyrir stoðtæki. Það segir sig sjálft að það eru þá bara þeir efnameiri sem hafa aðgang.“

Það er því ljóst að tækifæri Emblu eru bæði af landfræðilegum og tæknilegum toga. „Það er enn heilmikið óunnið í að bæta tæknina. Við eigum langt í land með að búa til lausnir sem eru jafn fullkomnar og mannslíkaminn, en tækninni fleygir sífellt fram og tækifærin eru mörg.“

Spurður að því hvaða lönd séu móttækilegust fyrir hátæknivörum Emblu og á sama tíma líklegust til að hlusta á skilaboð fyrirtækisins um gildi endurgreiðslna, segir Sveinn að þar megi nefna Þýskaland og lönd Skandinavíu. „Þau eru hvað lengst komin með hlutfallslega notkun á þessum hátæknivörum. Bandaríkin eru líka vel á veg komin og þessi breyting hjá Medicare sem ég nefndi hér á undan er stærsta einstaka jákvæða breytingin á bandaríska endurgreiðslukerfinu í áratugi.“

Um utanaðkomandi þætti sem áhrif hafa á eftirspurn segir Sveinn að þegar horft er á stoðtæki, sem eru stærsti hluti af starfsemi Emblu, þá sé áunnin sykursýki ástæða fyrir 70% af öllum aflimunum í þróuðum ríkjum. „Hún leiðir til blóðflæðisvandamála í neðri hluta líkamans og í einhverjum tilvikum leiðir það til aflimunar. Blessunarlega hefur þessum tilvikum þó fækkað með tilkomu nýrra lyfja, eins og sykursýkislyfs danska lyfjafyrirtækisins Nova Nordisk. Stærstur hluti af okkar starfsemi í dag snýr að því að þjóna einstaklingum sem hafa misst útlimi af öðrum ástæðum, til dæmis vegna slyss eða sjúkdóma sem leiða til aflimunar. Þar er yfirleitt um að ræða yngra fólk sem reiðir sig á vörur yfir lengri tíma ævinnar, enda þarf að þjónusta og viðhalda lausnum sem fólk er þegar að nota. Okkar verkefni er að halda áfram að hlúa að notendum og bjóða þeim nýjar og betri lausnir.“

Næststærst í heimi

Eins og Sveinn útskýrði hér á undan er Embla nú í þriðja fasa líftíma síns, að breytast úr því að vera vörumiðað fyrirtæki yfir í að vera félag sem nálgast hreyfanleika á almennan hátt, og þá sérstaklega varanlegar hreyfanleikaáskoranir í stærra samhengi, eins og Sveinn orðar það. „Við erum í dag næststærsta fyrirtæki heims á þessu sviði á eftir þýska fyrirtækinu Ottobock.“

Spurður nánar um mikilvægi þess að leggja nú aukna áherslu á þjónustu, segir Sveinn að hver einstaklingur þurfi í raun að koma einu sinni til tvisvar á ári til að láta skoða eða uppfæra þær lausnir sem viðkomandi er með frá fyrirtækinu, enda oft um séraðlaganir að ræða fyrir hvern og einn. „Það í raun styrkir okkar samkeppnisstöðu sem vörufyrirtækis að vera sterkt þjónustufyrirtæki líka. Það getur hjálpað okkur að mynda sterkari sambönd við viðskiptavini okkar, og við getum hjálpað þeim að tileinka sér breytingar sem eru að eiga sér stað í iðnaðinum.“

Spurður að því hvort líkja megi viðskiptasambandinu við það sem tæknifyrirtækið Apple á við eigendur iPhone-síma, sem Apple-fyrirtækið nær að selja í sífellu nýjar útgáfur af, kinkar Sveinn kolli. „Já, það er margt líkt með því. Því þetta snýr að tækniframförum. Við erum sífellt að þróa vörur sem eru betri en þær sem fyrir eru og notendur okkar vilja eðlilega njóta góðs af því.“

Embla Medical hefur í gegnum tíðina keypt hátt í eitt hundrað fyrirtæki. Spurður um áframhaldandi ytri vöxt á þessu ári segir Sveinn að enn séu tækifæri til að samþætta og kaupa fyrirtæki í geiranum með lausnir sem henta dreifikerfi Emblu. „Einn af aðalstyrkleikum okkar er að við erum með aðgengi að öllum helstu mörkuðum, þannig að já, ytri vöxtur og kaup á fyrirtækjum verður áfram hluti af vegferð okkar. Við viljum áfram skila öflugum innri vexti í bland við ytri vöxt. Fyrirtækið hefur ávallt tekið virkan þátt í þessari samþættingu í iðnaðinum og við sjáum tækifæri í því.“

Eins og fram kemur í fimm ára áætlun fyrirtækisins er markmiðið að vaxa árlega með 5-7% innri vexti en 7-10% heildarvexti.

„Skrefin voru stór í fyrra. Nú eru ákveðin verkefni í vinnslu en þau verða minni og meðalstór borið saman við 2024. Við erum alltaf að horfa í kringum okkur og það er ekki ólíklegt að það takist að ljúka nokkrum yfirtökuverkefnum á þessu ári.“

Síðasta ár var það tekjuhæsta hjá Emblu frá upphafi. Tekjurnar námu 855 milljónum bandaríkjadala, eða 122 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður var 69 milljónir dala eða 9,8 milljarðar króna sem er 8% af tekjum.

Spurður um rekstrarniðurstöðu ársins segist Sveinn ánægður. „Við tókum góð skref fram á við og erum að ná til fleiri einstaklinga með betri lausnum. Sala hátæknilausna er að aukast sem hlutfall af tekjum þannig að við getum sagt að við séum að búa til jákvætt virði í stóra samhenginu,“ segir Sveinn og bætir því við að lokum að ein sterkasta og verðmætasta eign fyrirtækisins sé að einhverju leyti hinn auðskiljanlegi tilgangur Emblu sem auðvelt sé að sameinast um. „Það býr til mikla orku inn í fyrirtækið að vita að við erum að gera gagn.“

Endurkaup ekki óalgeng leið

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í síðustu viku sagði Embla Medical frá því í uppgjörstilkynningu að félagið ætlaði að ráðast í endurkaup á eigin bréfum. „Við erum skráð á markað í Danmörku. Þar eru mörg fyrirtæki í sama iðnaði og við, eins og t.d. Coloplast, sem keypti Kerecis árið 2023, Novo Nordisk og fleiri. Það er langur listi þar af fyrirtækjum sem við berum okkur saman við. Danmörk er nokkuð góður heimamarkaður fyrir okkur. Það er ekki óalgeng leið fyrir fyrirtæki sem eru komin á það þroskastig sem við erum á núna að kaupa eigin bréf. Þetta á oft við um fyrirtæki þar sem reksturinn skilar góðu sjóðstreymi, endurfjárfestingarþörf til að viðhalda grunnstarfseminni er ekki mikil, einkaleyfi eru sterk og fyrirtækin búa yfir traustu tengslaneti og öflugu starfsfólki.

Við höfum notað sjóðstreymi okkar til að stækka með því að kaupa fyrirtæki og fara inn á nýja markaði. Og núna sem liður í því að stýra fjármagnsskipan félagsins höfum við valið að kaupa eigin bréf í stað þess að borga fastar arðgreiðslur. Það gefur okkur meiri sveigjanleika því þessi fyrirtækjakaup okkar geta verið mjög misjöfn að stærð og ekki er alltaf hægt að skipuleggja tímasetningar þeirra í þaula.“

Svífur yfir vötnum

Össur Kristinsson stofnandi fyrirtækisins féll frá á síðasta ári. Sveinn segir að andi hans svífi áfram yfir vötnum hjá Emblu Medical. „Hann var frumkvöðull fram í fingurgóma. Hann var atorkusamur, með botnlausa ástríðu og þorði að taka áhættu. Hann var sjálfur með gervifót og hafði því djúpan skilning á þeirri þörf að bæta líf fólks og var sífellt að leita nýrra lausna. Þessi hugsun er greypt í genamengi félagsins enn þann dag í dag og vörumerki og arfleifð Össurar er sterk.“