Guðmundur Júlíus Júlíusson fæddist í Reykjavík 26. október 1959. Hann lést á heimili sínu 2. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Þuríður Ingibjörg Gunnarsdóttir húsmóðir, f. 9. maí 1917, d. 17. október 1985, og Júlíus Guðmundsson efnafræðingur, f. 26. september 1922, d. 8. apríl 2017. Systir Guðmundar var Sveinlaug Júlíusdóttir, f. 26. júní 1950, d. 10. apríl 2008, hennar maður er Gylfi Hinrik Ásgeirsson .

Eiginkona Guðmundar var Þórný Elín Ásmundsdóttir dagmóðir, f. 5. júlí 1960, d. 18. október 2002, þau gengu í hjónaband 25. júní 1981. Foreldrar hennar voru Indíana Ingólfsdóttir, f. 5. desember 1931, d. 16. febrúar 2008, og Ásmundur Jónsson, f. 21. október 1925, d. 9. júlí 1964. Uppeldisfaðir Þórnýjar var Stefán Gunnar Vilhjálmsson, f. 25. júní 1931, d. 12. september 1915, systir Þórnýjar er Sigríður Jóna Ásmundsdóttir, f. 21. maí 1949.

Guðmundur og Þórný eiga þrjú börn, þau eru: 1) Gunnar Júlíus Guðmundsson, f. 22. september 1984, d. 17. ágúst 2013, dóttir hans er Emilía Ljós Gunnarsdóttir, f. 26. febrúar 2010, búsett í Kanada. 2) Arnþór Fannar Guðmundsson, f. 1. september 1990. 3) Berglind Björg Guðmundsdóttir, f. 2. nóvember 1995, maki Hans Pétur Blomsterberg, f. 16. ágúst 1994, dætur þeirra eru Þóra Júlía Blomsterberg, f. 9 maí 2020, og Birna Malen Blomsterberg, f. 24. janúar 2023.

Guðmundur var í sambandi við Anzela Tsisjakova, 19. febrúar 1968, hennar dóttir er Alissa Samoshina, f. 2. maí 1991, maki Saulius Petraitis, f. 4. ágúst 1987, þeirra dætur eru Viktorija Samoshina, f. 30. mars 2014, og Sofia Samoshina f. 14. mars 2021.

Guðmundur ólst upp í Reykjavík. Að loknu hefðbundnu grunnskólanámi fór hann í Iðnskólann í Reykjavík og lauk þar meistaranámi í dúkalögn. Lengst af starfaði hann sjálfstætt, hann stofnaði GJ Dúkalagnir ehf. og starfaði þar til dauðadags.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 12. febrúar 2025, klukkan 13.

Minningar eru fjársjóður og á kveðjustundu streyma þær fram sem aldrei fyrr. Mér fannst fátt skemmtilegra en að stríða þér, hvort sem það var að reyna að kitla þig, pota í bumbuna þína, syngja fyrir þig eða þræta um pólitík, öllum minningunum okkar held ég þétt að mér, sér í lagi þegar við unnum saman síðustu ár, allar samræðurnar sem við áttum þykir mér svo vænt um og ég sá hversu stoltur þú varst af mér. Þú stóðst þig mjög vel að vera góður faðir, þú opnaðir þig ekki mikið en vildir alltaf vita og hlusta á hvernig mér leið. Lífið okkar hefur ekki verið auðvelt og þegar mér fannst dagarnir svartir og sá enga leið varst þú minn stærsti klettur og hjálpaðir mér að líða betur, röddin þín og sannfæring hafði bara þau áhrif. Að sjá þig hvorki né heyra lengur skilur eftir stóra holu í hjarta mínu. Ég viðurkenni að ég er smá hræddur og týndur. En ég mun gera mitt besta til að gera þig stoltan. Sofðu rótt, pabbi minn. Megi englarnir hugsa um þig eins og þú hugsaðir um mig.

Arnþór Fannar.

Elsku pabbi minn, mikið finnst mér erfitt að þurfa að kveðja þig svona óvænt og skyndilega. Fyrir mér áttir þú að lifa að eilífu, þú varst minn skjöldur og mitt skjól. Ég á alltaf eftir að sakna samtala okkar, það sem við gátum hlegið mikið, þú varst svo stríðinn og mikill húmoristi, og svo auðvitað allar rökræðurnar sem voru nú bara einhvers konar skemmtun þegar okkur leiddist. Við vorum samt ekki alltaf sammála þótt við værum mjög lík og jafn þrjósk. Ég gleymi heldur aldrei stoltinu sem skein af þér þegar þú komst í heimsókn eftir að ég var búin að eiga stelpurnar. Ástina og væntumþykjuna fundum við alltaf frá þér og ég vona að þú hafir fundið það sömuleiðis frá okkur. Þú vildir allt fyrir okkur börnin þín gera, það voru aldrei neinar áhyggjur að hafa því við gátum alltaf treyst á þig og ég verð alltaf þakklát fyrir hvað þú passaðir vel upp á okkur. Ég veit að fólkið okkar hinum megin hefur tekið vel á móti þér, það urðu örugglega miklir fagnaðarfundir. Öllum minningunum okkar mun ég halda þétt að hjarta mínu og eins segi ég við stelpurnar að þú verðir alltaf í hjartanu þeirra og þú haldir áfram að passa okkur þótt við sjáum þig ekki. Góða ferð, elsku pabbi minn.

Berglind Björg.