Fréttaskýring
Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Á sjötta tug fasteignaeigenda í Grindavík íhugar nú stöðu sína þar sem þeir telja að fasteignafélagið Þórkatla og Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) hafi brotið á rétti þeirra. Sem dæmi hefur Þórkatla breytt verði fasteigna einhliða eftir kaupsamning og jafnvel krafið fasteignaeigendur um endurgreiðslu í einstaka tilvikum.
Telma Sif Reynisdóttir, lögmaður hjá Novum lögfræðiþjónustu, segir að málin snúi fyrst og fremst að Þórkötlu og NTÍ auk þess sem ágreiningur sé uppi milli tryggingafélaga hvar bótaskylda liggi.
Seljendur lenda í vanskilum
Hún segir málin sem snúa að Þórkötlu vera margþætt.
„Við erum með mál þar sem Þórkatla hefur ekki viðurkennt kröfur um dráttarvexti vegna greiðsludráttar. Þegar greiðsludráttur verður hjá Þórkötlu leiðir það til greiðsludráttar hjá okkar umbjóðendum sem síðan hafa þurft að greiða dráttarvexti til seljenda í sínum fasteignaviðskiptum.“
Dæmi eru um að Þórkatla hafi gert breytingar á greiðslufyrirkomulagi frá því sem kemur fram í kaupsamningi. Í hefðbundnum fasteignaviðskiptum er afsal undirritað og millifærsla framkvæmd á fasteignasölunni samtímis. Þórkatla hefur tekið sér vald til þess að greiða afsalsgreiðsluna allt að fimm dögum eftir þinglýsingu afsals og leggur til í lögskilauppgjöri að seljendur samþykki að afsalsgreiðslan dragist.
„Ef fólk skrifar undir afsalið og lögskilauppgjörið án þess að skoða textann vel, þá á það á hættu að afsala sér kröfu um dráttarvexti á hendur Þórkötlu. Þolinmæði okkar umbjóðenda er á þrotum þegar þeir verða fyrir fjártjóni í fasteignaviðskiptum við fasteignafélag, sem ætti að vera sérstaklega meðvitað um skuldbindingargildi samninga.“
Í einu tilviki seldu umbjóðendur Novum fasteign og tóku aðra eign upp í. Eignin var allan tímann á sölu og aldrei nýtt af hálfu eigendanna.
„Umbjóðendur okkar voru að minnka við sig og við sölu á þeirra fasteign tóku þau eign upp í. Ekki er tekið tillit til slíkra aðstæðna og því sitja umbjóðendur okkar uppi með fasteign í Grindavík sem þau ætluðu aldrei að eiga og sjá sér ekki fært að nýta. Ekki er lengur raunhæfur kostur að selja eignina og því hefur eiginfjárstaða þeirra versnað til muna,“ segir Telma.
Krafa í stað afsalsgreiðslu
Eitt dæmi varðar fasteign sem hafði mikið verið endurnýjuð og brunabótamat hússins var uppfært sem leiddi til hækkunar á brunabótamati, nokkrum mánuðum fyrir sölu til Þórkötlu. Afsalsgreiðslan átti að berast um miðjan desember 2024 en barst ekki. Þau fengu engar upplýsingar um hvers vegna afsalsgreiðslan skilaði sér ekki. Mánuði síðar fengu þau bréf þess efnis að Þórkatla væri búin að endurákvarða kaupverð eignarinnar og hefði ákveðið að afsalsgreiðslan, rétt rúmar fjórar milljónir, yrði ekki greidd. Jafnframt gerði félagið kröfu um endurgreiðslu hluta kaupverðs, rúmar sjö hundruð þúsund krónur.“
Telma segist hafa fullan skilning á umfangi verkefna Þórkötlu og að afgreiðsla mála taki tíma og bendir á að samskipti Novum við Þórkötlu hafi gengið vel.
„Það er eðlilegt að Þórkatla gæti sinna hagsmuna í hvívetna en félagið má ekki missa sjónar á því að markmið laganna sem félagið starfar eftir er að verja fjárhag og velferð íbúa í Grindavíkurbæ og þar með að tryggja búsetuöryggi þeirra, til kaupa á fasteign utan bæjarmarka Grindavíkur,“ segir Telma Sif Reynisdóttir.
Tekist á um matsgerðir Náttúruhamfaratryggingar
Ágreiningur tryggingafélaga
Novum hefur komið að tæplega 20 málum sem snúa að NTÍ. Flest málin snúa að því að fasteignaeigendur una ekki matsgerðum sem NTÍ hefur aflað.
Þegar hraun rann yfir hitaveituæð á svæðinu varð vatnslaust um tíma. Almannavarnir voru með svokallaða píparasveit á sínum vegum sem gætti að fasteignum fólks til þess að koma í veg fyrir tjón. Tjón varð á nokkrum fasteignum á þessu tímabili. Ágreiningur þeirra mála snýr að því hver beri ábyrgð á tjóninu. Almannavarnir telja að tryggingafélög píparanna beri ábyrgð en félögin telja hins vegar að tryggingafélag Almannavarna beri ábyrgð vegna þess að verkið var unnið undir stjórn Almannavarna.