Í Keflavík Ljósmyndari blaðsins Árni Sæberg myndaði F-18 Hornet-þoturnar á æfingu finnsku sveitarinnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í gær. Kraftmikil verkfæri í háloftunum.
Í Keflavík Ljósmyndari blaðsins Árni Sæberg myndaði F-18 Hornet-þoturnar á æfingu finnsku sveitarinnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í gær. Kraftmikil verkfæri í háloftunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimmtíu manna flugsveit frá Finnlandi sinnir um þessar mundir loftrýmisgæslu á Íslandi og er það í fyrsta skipti eftir að Finnar gengu í Atlantshafsbandalagið. Finnska sveitin er með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Fimmtíu manna flugsveit frá Finnlandi sinnir um þessar mundir loftrýmisgæslu á Íslandi og er það í fyrsta skipti eftir að Finnar gengu í Atlantshafsbandalagið. Finnska sveitin er með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við [Finnar] erum hér á Íslandi í þessum erindagjörðum en við höfum reyndar áður komið hingað til æfinga og var það árið 2014,“ segir majorinn Sampo Kojo sem fer fyrir finnsku flugsveitinni. Finnland bættist tiltölulega nýlega í hóp þeirra ríkja sem skipa NATO en Finnar gengu formlega í bandalagið í apríl árið 2023. „Við erum stoltir meðlimir í NATO og sinnum skyldum okkar á norðurslóðum. Í þessu tilfelli snýr það að öryggi Íslands og íslensku loftrými. NATO á skyldum að gegna í íslensku loftrými og gerir það vel að mínu mati. Finnland stendur sína vakt í þeim efnum,“ segir Kojo og lýsir ánægju með samstarfið við Landhelgisgæsluna. „Íslenska landhelgisgæslan hefur gert okkur lífið auðvelt meðan á dvöl okkar hefur staðið. Við höfum auk þess tekið þátt í björgunaræfingum með gæslunni.“

Vindstyrkurinn er áskorun

„Finnar eru mikil vinaþjóð okkar og þá þekkjum við vel en eftir að Finnar tóku það mikilvæga skref að ganga í NATO höfum við einnig unnið saman á þeim vettvangi. Bætist það ofan á norrænt varnarsamstarf og verkefni tengd norðurslóðum. Mér skilst á mínu fólki að Finnarnir hafi staðið sig afar vel þrátt fyrir að aðstæður hafi stundum verið krefjandi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Morgunblaðið bar íslenska rokið einmitt undir Lasse Louhela, reyndan flugmann í teymi Finnanna hér á landi. „Í Finnlandi þekkjum við vetrarveður og kulda vitaskuld vel en vindstyrkurinn við Íslandsstrendur hefur komið okkur örlítið á óvart. Vindurinn hefur vissulega sett strik í áætlanir okkar hvað æfingar varðar en ekki stórvægilegt. En þessar aðstæður eru einnig ágæt áskorun,“ segir Louhela sem dvelur hér í sex vikur ásamt samstarfsfólkinu.

Síðustu árin hefur nokkuð borið á umræðu um að huga þurfi að vörnum Íslands af meiri alvöru ef þannig má að orði komast. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur til að mynda ítrekað bent á þetta og forveri Þorgerðar í embætti, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sagði í fyrra að Íslendingar þyrftu að fullorðnast þegar kemur að varnar- og öryggismálum þegar stríð geisar í álfunni.

Kallar eftir auknu samstarfi

„Veruleikinn í öryggismálum í okkar heimshluta er gerbreyttur eins og oft hefur komið fram. Mér skilst sem dæmi að Rússar fljúgi reglulega inn í loftrýmissvæði NATO og þá einnig nærri Íslandi. Allur er varinn góður. Ég kalla eftir enn meira samstarfi og vonast eftir því að Finnar og Svíar verði fastagestir hjá okkur eins og Norðmenn og Danir hafa verið á síðustu árum. Grannþjóðirnar og önnur NATO-ríki skipta því með sér að koma hingað og auka öryggi okkar. Þetta verkefni er hluti af þátttöku okkar og uppbygging í tengslum við öryggissvæðið í Keflavík styður við það og aðrar aðgerðir bandalagsríkja. Við fáum aðildarþjóðir NATO til að sinna hér loftrýmiseftirliti en einnig kafbátaeftirliti úti fyrir ströndum Íslands. Við eigum að vera virkir þátttakendur í því sem við getum og nýta aðstöðuna og þann aðbúnað sem er fyrir hendi,“ segir Þorgerður.

Höf.: Kristján Jónsson