Við störf Atvinnulausum fjölgaði í öllum atvinnugreinum í janúar nema í farþegaflutningum með flugi. Mest fjölgaði í verslun og vöruflutningum.
Við störf Atvinnulausum fjölgaði í öllum atvinnugreinum í janúar nema í farþegaflutningum með flugi. Mest fjölgaði í verslun og vöruflutningum. — Morgunblaðið/Karítas
Skráð atvinnuleysi á landinu í janúar sl. var 4,2% og er það hæsta hlutfall atvinnulausra í einum mánuði frá því í apríl árið 2022. Atvinnuleysi í janúar hækkaði úr 3,8% í desember og það var 3,8% í janúar fyrir ári

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Skráð atvinnuleysi á landinu í janúar sl. var 4,2% og er það hæsta hlutfall atvinnulausra í einum mánuði frá því í apríl árið 2022. Atvinnuleysi í janúar hækkaði úr 3,8% í desember og það var 3,8% í janúar fyrir ári.

Vinnumálastofnun (VMST) spáir því í nýútkominni mánaðarskýrslu að atvinnuleysi í febrúar verði á bilinu 4,2% til 4,4%.

Fram kemur í mánaðarskýrslu VMST að 8.563 einstaklingar voru að meðaltali atvinnulausir í janúar. Atvinnuleysið var mest á Suðurnesjum eða 7,7% og hækkaði úr 7,2% frá desembermánuði en til samanburðar var atvinnuleysi 6,7% á Suðurnesjum í janúarmánuði 2024.

Atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu á milli mánaða nema á Norðurlandi vestra, þar sem það fór úr 1,3% í 1,2%.

Á eftir Suðurnesjum var atvinnuleysið í janúar næstmest á höfuðborgarsvæðinu, eða 4,3%. Á landsbyggðinni mældist 4,1% atvinnuleysi í síðasta mánuði og hækkaði það úr 3,7% í desember.

„Atvinnulausum fjölgaði í öllum atvinnugreinum í janúar nema í farþegaflutningum með flugi þar sem fækkaði um einn. Mest var fjölgunin í verslun og vöruflutningum,“ segir í skýrslu VMST.

5.188 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu í lok janúar og fjölgaði um 351 frá mánuðinum á undan.

Höf.: Ómar Friðriksson