Védís Jónsdóttir er fædd 12. febrúar 1965 á Akranesi og ólst upp í Melaleiti, sem stendur við ósa Borgarfjarðar. „Sem barn elskaði ég að teikna og búa til föt.“
Védís gekk í Heiðarskóla og síðan í 9. bekk á Akranesi áður en hún hóf nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, þaðan sem hún útskrifaðist 1984. Að loknu stúdentsprófi lá leiðin til Kaupmannahafnar, þar sem hún lærði fatahönnun við Skolen for Brugskunst sem í dag heitir Det Kongelige Akademi – Arkitektur, Design og Konservering, betur þekktur sem Danmarks Design Skolen, og útskrifaðist þaðan 1989.
Áður en hún lauk námi bauðst henni starf sem hönnuður hjá Álafossi, þar sem hún starfaði í tvö ár. „Það var ógleymanlegur tími meðan fataframleiðsla á Íslandi var enn í fullum gangi og útflutningur um allan heim.“
Að því loknu tók við lausamennska fyrir önnur fyrirtæki sem voru í framleiðslu á íslenskum ullarfatnaði, þar á meðal Foldu á Akureyri, Vöku á Sauðárkróki og Fínull í Borgarnesi. Auk þess vann hún við búningagerð fyrir Íslensku óperuna og sem stílisti fyrir sjónvarp.
Lengst af hefur Védís unnið fyrir Ístex (Íslenskur textíliðnaður hf.) sem hönnuður og ritstjóri prjónabóka sem fyrirtækið gefur út. Hún hefur hannað liti fyrir mismunandi bandtegundir og einnig hannað værðarvoðir sem hafa notið mikilla vinsælda. „Innblástur fyrir liti sæki ég í íslenska náttúru, sem oft endurspeglast í nöfnum þeirra.“
Þekktust er Védís fyrir lopapeysumynstur sín. „Þegar kemur að mynstrum eru engin takmörk fyrir uppsprettu hugmynda. Ég hef leitast við á ferli mínum við að gera lopapeysuna mun fjölbreyttari en áður tíðkaðist með fjölbreyttu litaúrvali, nýjum sniðum og mismunandi útfærslum.“
Hönnunarverk hennar, sem skipta hundruðum, hafa verið gefin út á fjölda tungumála og verður mynstrið Riddari að teljast eitt vinsælasta lopapeysumynstur í heimi.
Védís hefur einnig hannað ullarvörur fyrir Rammagerðina og „héraðslopapeysur“ fyrir Borgfirðinga, Skagfirðinga, Húnvetninga og Fljótsdal. Þá hefur hún hannað fyrir góðgerðasamtök eins og Göngum saman, Hringinn og UN Women Iceland.
Védís bjó í Róm á árunum 2000-2003 og aftur 2014-2018. „Það hafði mikil áhrif á mig í matargerð og menningu. Ég bjó einnig á Manhattan 2009-2014 og í Washington DC 2022-2024 þar sem frábær söfn voru fjársjóður sem ég naut þess að geta gengið í.“
Védísi dreymir um eyða meiri tíma í óhefðbundið prjón og útsaum, þar með talið skúlptúrprjón með rafmagnsvír sem hún hefur gert tilraunir með. „Einnig vil ég eyða meiri tíma í gróðurhúsinu í Vesturbænum þar sem ég reyni að rækta fegurð en minna af grænmeti nú þegar ég er flutt aftur heim til Íslands. Borgarfjörðurinn kallar, einnig en við systur eigum saman jörðina Melaleiti, þar sem sjórinn, jökullinn og villtar jurtir eru uppspretta góðra hugmynda og verka.“
Fjölskylda
Eiginmaður Védísar er Jón Erlingur Jónasson, f. 11.2. 1959, sendifulltrúi í utanríkisþjónustunni, sérlegur erindreki málefna hafsins. Þau eru búsett í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar Jóns Erlings voru hjónin Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, f. 9.3. 1930, d. 24.7. 2007, og Sigurveig Erlingsdóttir skrifstofumaður, f. 14.4. 1935, d. 6.7. 2015.
Börn Védísar og Jóns Erlings eru 1) Jón Freysteinn Jónsson, f. 3.1. 1995, tölvunarfræðingur, búsettur í Reykjavík. Eiginkona: Hulda Steinunn Steinsdóttir, f. 18.3. 1995, innanhússarkitekt. Dóttir þeirra er Védís, f. 2024. 2) Áshildur Jónsdóttir, f. 27.5. 1998, stærðfræðingur og sérfræðingur í gagnavísindum, búsett í Kaupmannahöfn. Eiginmaður: Teitur Helgi Skúlason, f. 9.5. 1996, nemi í hljóðverkfræði.
Systur Védísar eru 1) Solveig Jónsdóttir, f. 4.10. 1957, fv. ritstjóri, búsett í Reykjavík; 2) Salvör Jónsdóttir, f. 25.12. 1959, skipulagsfræðingur, búsett í Madison í Wisconsin og Reykjavík, 3) Áslaug Jónsdóttir, f. 31.3. 1963, mynd- og rithöfundur, búsett í Reykjavík.
Foreldrar Védísar: Hjónin Jón Kr. Magnússon, f. 2.8. 1932, fv. bóndi, búsettur í Reykjavík, og Kristjana Höskuldsdóttir, f. 12.7. 1936, d. 5.12. 2010, bóndi, organisti og kórstjóri.