Ingibjörg Björgvinsdóttir fæddist 30. september 1924 á Bólstað í Austur-Landeyjum. Hún lést á Hrafnistu Hafnarfirði 4. febrúar 2025. Foreldrar hennar voru Jarþrúður Pétursdóttir, húsfreyja og saumakona, f. 28. mars 1897, d. 16. mars 1971 og Björgvin Filippusson, bóndi og organisti, f. 29. nóvember 1896, d. 6. nóvember 1987. Systkinin á Bólstað voru tíu: Aðalheiður, f. 2. okt. 1917, d. 27. júní 2017, Ingólfur, f. 18. júní 1923, d. 30. sept. 2006, Baldur, f. 30. nóv. 1925, d. 30. ágúst 1928, Anna Steingerður, f. 14. júní 1927, d. 27. maí 1944, Árný Vilborg, f. 11. jan. 1929, d. 25. mars 1984, Baldvin Aðils, f. 18. apríl 1930, d. 15. des. 2010, Filippus, f. 16. okt. 1931, d. 10. júlí 2018, Margrét Auður, f. 16. ágúst 1934 og Helga, f. 1. des. 1937, d. 13. nóv. 1957.
Árið 1944 giftst Ingibjörg Ingólfi Jónssyni frá Hólmi í Austur-Landeyjum, f. 25. júní 1920, d. 13. janúar 2015. Foreldrar Ingólfs voru Ragnhildur Runólfsdóttir húfreyja, f. 26.10. 1888, d. 5. des. 1986, og Jón Árnason, bóndi í Hólmi, Austur-Landeyjum, f. 7. mars 1885, 14. okt. 1964.
Börn Ingibjargar og Ingólfs eru: 1) Óli Baldur, f. 9. nóv. 1944, eiginkona hans er Vigdís Ástríður Jónsdóttir, f. 9. jan. 1947. Börn Baldurs og Rósar Bender, f. 17. júl. 1949, eru: a) Hrafnhildur Björk, f. 1967 og b) Brynja, f. 1969. 2) Anna Ragnhildur, f. 18. sept. 1946. Börn Önnu og Vilhjálms Rafnssonar, f. 29. ág. 1945, eru: a) Linda, f. 1971, b) Þrúður, f. 1973 og c) Ingólfur, f. 1976. 3) Bjargey Þrúður, f. 30. júní 1958. Barn Bjargeyjar og Helga Grímssonar, f. 25. júl. 1958, er Grímur Helgason, f. 1984. Langömmubörn eru: 1a) Daníel, Sindri og Snædís Sól. 1b) Silja Rós og Valdimar Þór. 2a) Þórdís Anna og Ingibjörg Lára. 2b) Róbert Vilhjámur. 3) Sólveig og Berglind. Langalangömmubarn Ingibjargar er Theo Geir Sindrason.
Ingibjörg og Ingólfur fluttust til Reykjavíkur árið 1944. Þau bjuggu lengst af í Álfheimum 19 og Trönuhólum 16.
Ingibjörg var húsmóðir og vann jafnframt hin ýmsu störf tímabundið. Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Hverabökkum 1940-41 og Listaskólann Myndsýn 1970-72. Hún sótti einnig myndlistarnámskeið. Ingibjörg var alltaf tónlistarunnandi, hún var kórfélagi í Söngsveitinni Fílharmóníu frá stofnun hennar 1959 og söng þar í 19 ár. Ljóð eftir Ingibjörgu hafa birst í Ljóðum Rangæinga, Vængjatökum – hugverki sunnlenskra kvenna og víðar.
Útför Ingibjargar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 12. janúar 2025, klukkan 15.
Nú hefur elsku fallega og hjartahlýja amma mín kvatt þennan heim rúmlega 100 ára gömul.
Þegar ég heyrði fyrir nokkrum árum að hún ætlaði sér að ná 100 árum í aldri vissi ég að hún næði því, fullkomlega eðlilegt fannst mér, þegar hún hafði sagt það.
Elsku hjartans ástardraumurinn minn er kveðjan sem við sem hún elskaði að ávarpaði okkur með þegar við komum í heimsókn og lýsir hjartalagi ömmu fullkomlega.
Amma var skemmtilegur karakter eins og ég fékk að upplifa hana. Hún og afi veittu okkur systrum öruggt skjól í barnæsku, mér leið alltaf vel á heimili þeirra, var vernduð. Amma veitti okkur barnabörnunum mikið frelsi inni á heimilinu og settum við upp leikrit og umturnuðum stofunni, forstofunni og fataherberginu í Álfheimum í alls konar leikjum og uppbyggingu með ímyndunaraflið. Hjá þeim var maður frjáls, sem ég get í raun ekki þakkað nógu mikið fyrir í dag. Amma hafði ríkan sköpunarkraft í verki og huga. Hún var sannkölluð listakona. Hún málaði, skrifaði, söng, spilaði á píanó og tjáði sig með töluðum orðum á listrænan hátt stundum. Það var ríkur hugur þar hvað sköpun varðar. Amma bakaði líka bestu jólaköku í heimi, svo það sé sagt. Hef aldrei fengið eins góða jólaköku og hjá ömmu Ingibjörgu og reyndar kleinur líka, þegar ég hugsa út í það. Hún tók vel á móti fólki og það geislaði af henni gleðiorka þegar fólk bar að garði. Minning úr Hólmanesi (sumarbústaður afa og ömmu fyrir austan) þegar ég var barn og við sungum endalaust lagið um Ömmuna og draugana með Þremur á palli og veltumst við um úr hlátri yfir textanum. Það var alltaf djúp tenging okkar á milli, við fundum það alltaf þegar við hittumst. Það var alveg sama hversu langt leið á milli hittinga, hlýjan og ástin var djúp, hrein, átakalaus og einlæg. Það þurfti engin orð, bara að finna orkuna. Það var undurfallegt.
Ég þakka ömmu innilega fyrir samveruna í þessu lífi.
Hrafnhildur Björk Baldursdóttir.
Það var mikil gjöf að hafa átt ömmu Böggu að. Allar þær fjölmörgu minningar sem koma upp í hugann henni tengdar eru samofnar þeirri djúpu verndartilfinningu sem hún stafaði frá sér og fylgdi mér út á lífsveginn.
Hún var líka svo mikill listamaður í sér og frjáls í hugsun og anda. Hvítteppalögðu stofunni í Trönuhólum sem alltaf var svo smart og tilbúin fyrir gesti mátti maður snúa á hvolf í leik þegar hún passaði mann. Stólar á hvolfi urðu að smáhýsum eða lestum, tjaldað yfir með teppum og hliðarborð og púðar úr dívaninum notaðir sem byggingarefni í hin ýmsu mannvirki.
Amma elskaði vorið og fuglasönginn og garðurinn í Trönuhólum 16 varð að miklum fegurðarstað í hennar umsjá. En hún kunni líka að meta veturinn. Ég man langar gönguferðir um holtið og Víðidal í vetrarbúningi, Elliðaá í klakaböndum og snjógöng í garðinum hennar þar sem kveikt var á sprittkertum í ljósaskiptunum. Löngu síðar þegar ég bjó erlendis skrifaði hún mér sendibréf með grænum túss a la Bagga þar sem stóð m.a.: Þessi vetur hefur verið einn sá fegursti sem ég hef lifað. Janúar og febrúar hafa skartað sínu fegursta … Mætti fleirum liggja jafn gott orð til þessara vetrarmánaða þegar sólin er tekin að rísa hærra með hverjum degi sem líður. Hinu hversdagslega bægði hún svo auðveldlega í burtu með hrifnæmi sínu.
Til allrar sköpunar hvatti hún. Litir og blöð voru alltaf til taks og teikniuppskera hvers dags geymd á vísum stað – málverk hennar sjálfrar vörpuðu skýrum, björtum krafti um stofuna. Þegar hún hjálpaði mér við heimaæfingar á klarinettuna hvatti hún til tilþrifa. Hennar eigin tónlistarmenntun hafði verið við harmóníumið heima í Bólstað þar sem pabbi hennar kenndi þeim systkinunum að syngja í röddum svo gesti dreif að. Hún hafði mikla ást á tilsvörum og hugarflugi barna og geymdi þau í minni sér og hjarta, og stundum líka á segulbandi með hjálp diktafóns. Þel hennar í garð fólks var sömuleiðis hreint, skilningsríkt, ólangrækið og hvetjandi. Það fann maður á því hvernig hún tók á móti gestum og talaði um náungann.
Það var ógleymanlegt þegar hún rifjaði upp þann tíma þegar hún söng með Söngsveitinni Fílharmóníu. Það leyndi sér ekki á orðum hennar að í söngnum hafði hún átt augnablik sem slógu miklum bjarma á líf hennar alla tíð síðan, sérstaklega níunda sinfónía Beethovens. Um dr. Róbert Abraham var talað með sérstakri hlýju og virðingu. Hún hafði eftir honum hvernig alltaf skyldi syngja bundið og borið.
Þegar amma hrósaði þeim sem henni þótti vænt um þá var bikar hennar hvorki hálffullur né hálftómur heldur barmafullur. Svo út úr flóði myndu einhverjir segja. En af hennar hálfu var þetta ekki oflof heldur innilegt þakklæti fyrir ástvininn og djúp ósk um velfarnað. Ég verð því að fá að slá henni ofurlitla gullhamra í lokin.
Elsku amma, þú varst mér sönn fyrirmynd og minn glæsilegasti vinur! Allt fram á okkar síðasta fund blikuðu augun þín og þú þekktir mig inn að hjartarótum. Guð blessi þig í frelsinu.
Grímur Helgason.
Elsku amma. Hláturmilda, hjartahlýja listakona.
Þú hafðir unun af því að hlusta á tónlist og fara á tónleika. Þú söngst sjálf í Fílharmóníukórnum. Þú ólst upp við söng ásamt systkinum þínum í sveitinni og pabbi ykkar spilaði undir á orgelið. Þú miðlaðir því áfram til barna þinna að læra á hljóðfæri og ég fékk einnig að gera það. Þú lærðir málaralist og málaðir fallegar abstrakt myndir. Þú hafðir skapandi huga og kenndir mér að það er hægt að vera listakona og ég fór í leiklistarnám. Og alltaf varstu svo stolt af þínu fólki og sparaðir ekki hrósyrðin heldur hvattir alla óspart áfram.
Það var alltaf svo mikið blik í augunum þínum. Þú brostir og þagðir með þetta blik í augum, með kaffibollann undir kinninni og ég vissi að ég þurfti ekki að segja neitt. Það var eins og þú vissir allt og ég hélt í æsku að þú gætir lesið hugsanir mínar. Þar með varstu vitorðsmaður minn og sagðir engum frá, ef ég hafði gert eitthvað skammarlegt. Það var algjört öryggi hjá þér.
Við systkinin ólumst upp í Svíþjóð. Einu sinni komuð þið afi til okkar til að eyða jólunum með okkur. Ég á sterka minningu af því að við sækjum ykkur á lestarstöðina í Gautaborg. Það er myrkur og þið afi stigið út úr lestinni, hann í frakka og þú í fallegri kápu. Þú kallaðir okkur systkinin ástardraumana þína og gullin þín þarna á brautarstöðinni og mér fannst eins og þessi orð færu alveg inn í hjartað. En svona talaðir þú við alla sem þér þótti vænt um. Að koma heim til Íslands var að koma heim til þín og afa í Álfheimunum. Þú bakaðir bestu jólaköku í heimi. Á milli þess sem við gæddum okkur á jólakökunni þinni og kleinunum þínum lékum við frænkurnar okkur mikið saman í Álfheimunum.Við fengum að klæðast öllum fötunum þínum og skónum þínum og bjuggum til leikrit í stóru stofunni ykkar með græna teppinu.
Forstofuskápurinn var undraherbergi, spegillinn upplýstur og frábært leikrými. Þú áttir flottustu skó sem ég hafði nokkurn tíma séð, háhælaðir, silfurlitaðir bandaskór. Seinna eignaðistu uppreimaða skó með hæl eins og Mary Poppins átti. Mér fannst þú meiriháttar í þeim og með gráa hattinn þinn sem þú hélst þétt um í rokinu.
Við sitjum allar frænkurnar í aftursætinu á bílnum ykkar afa. Þú ert með hattinn og hanskana og þú ert glöð. Það er mikil Nivea-kremslykt í bílnum og kinnarnar þínar glansa. Það er endalaus bið á ljóslausum gatnamótum sem þú kemst ekki yfir í langa stund og það er mér ráðgáta af hverju. En þú lætur það ekkert á þig fá og segir okkur brosandi að það sé betra að komast öruggur á leiðarenda.
Blikið í augum þínum logaði fallega undir það síðasta. Það var eins og þú værir ennþá svo ung þó svo þú næðir svona háum aldri. „Er eitthvað nýtt?“ Alltaf til í að spjalla. Svo mikil félagsvera, en líka til í að syngja og við sungum svolítið saman undir það síðasta. En fallegt veganesti gafstu mér fyrir mörgum árum þegar þú sagðir við mig: „Bestu blómin gróa í brjóstum sem geta fundið til.“ Þessi orð geymi ég í hjarta mínu. Takk fyrir allan lærdóminn, stuðninginn, frelsið og væntumþykjuna elsku amma. Þín ömmustelpa,
Þrúður.
Þá er hún elsku amma Bagga farin.
Eftir sitja fallegar minningar um yndislegar samverustundir í Álfheimum og í Trönuhólunum og í Hólmanesi sem var sumarbústaðurinn þeirra afa og ömmu í Landeyjum.
Minningar um árlegu jólaboðin sem amma lifði fyrir. Af okkur ömmubörnunum hennar sem stóðu í röð í anddyrinu til að fá faðmlag frá henni og heyra setninguna: „Elsku hjartans ástardraumurinn minn.“
Amma var höfn kærleikans og listarinnar. Lýsingar hennar af óteljandi tónleikum og listasýningum sem hún hafði hrifist af voru stórkostlegar og áhrifaríkar. Hún var mjög hrifnæm manneskja og elskaði listina og það var stóra myndin og það sem skipti öllu máli í lífinu að hennar mati.
Hún var líka mjög næm fyrir orku yfirleitt og gat lýst alheimsorkunni og hvernig hún virkar á allt og alla.
Takk amma fyrir að gefa okkur öllum þennan jákvæða og kærleiksríka innblástur á og í lífið.
Bless elsku besta amma. Þín ömmustelpa númer 3 í röðinni,
Linda Vilhjálmsdóttir.
Nú hefur elsku amma Bagga kvatt þessa jarðvist eftir 100 ára farsæla og góða ævi. Það er margs að minnast enda stóð heimili þeirra afa Ingólfs okkur barnabörnunum og afkomendum alltaf opið. Amma hafði einlægan áhuga á því sem afkomendur hennar tóku sér fyrir hendur og var ekki spör á hrósið. En það má segja að amma Bagga hafi verið hinn mesti hrósmeistari! Þegar við systurnar vorum yngri sótti amma okkur vestur í bæ á brúnu Cortinunni og ég minnist þess að rómantíska amma mín sagði alltaf að Sæbrautin héti Ástarbrautin. Hún vildi gera heiminn fallegri og var illa við fréttir af stríðum og ljótleika.
Heimilið þeirra afa í Álfheimum og síðar Trönuhólum var opið gestum og gangandi og aldrei komið að tómum kofanum. Allt glansandi fínt og snyrtilegt og nóg af öllu, nýbakaðar jólakökur, nýsteiktar kleinur og fleira bakkelsi var ávallt á boðstólum. Það var eins gott að mæta bara svangur til ömmu! En það var einmitt í þessum óformlegu innlitum sem amma vildi heyra allt um það hvað við afkomendurnir værum að bralla og oftar en ekki var kaffibollanum velt og honum skellt á ofninn til að spá í framtíðina. Ef ömmu fannst of langt um liðið sló hún bara á þráðinn og minnti á sig.
Amma var mjög listfeng, söng í kór fílharmóníunnar, málaði málverk og skrifaði. Það var líka mikið sungið, spilað og trallað í Álfheimunum. Hún lagði mikið upp úr menningarlegu uppeldi og var einnig dugleg að mæta á hina ýmsu listviðburði hjá afkomendum og það gerði hún langt fram eftir aldri hjá barnabörnum og langömmubörnum. Hún var ræktarsöm og umhyggjusöm gagnvart fólkinu sínu, mætti í allar fjölskylduveislur, oft prúðbúin í þjóðbúningi og skemmti sér manna best.
Nú er elsku amma mætt til afa og þeirra sem áður hafa kvatt. Við fjölskyldan kveðjum ömmu Böggu með kveðjunni sem hún sönglaði svo oft þegar við kvöddumst „See you later“.
Brynja og fjölskylda.
Þú réttir mér stóra kuðunginn þinn og sagðir mér að leggja hann upp við eyrað og hlusta, hlusta á hafið. Heyrirðu í því? Ég kinkaði kolli og brosti til þín. Nú legg ég sama kuðung upp við eyrað og heyri enn í hafinu sem minnir mig hlýlega á þig.
Elsku langamma, þú varst stórkostleg kona og gast töfrað fram veislur sem stóðu yfir allan daginn. Það er ekkert sem gat toppað veislurnar þínar sem þú hélst annan í jólum. Við frændsystkinin biðum alltaf spennt eftir því að rafmagnið slægi út vegna álagsins í eldhúsinu, sem það gerði alltaf. Þú lést það nú ekki stoppa þig og töfraðir fram dýrindis hlaðborð bæði með kaffinu og kvöldverð fyrir alla afkomendur þína. Geri aðrir betur. Þú varst mikill gestgjafi í hjartanu og elskaðir að vera umkringd fólkinu þínu.
Þú varst líka söngkona mikil og fékk ég ábyggilega röddina í vöggugjöf frá þér. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að eyða meira en 30 árum með langömmu minni, það er ekki gefið. Þér tókst markmiðið, að verða 100 ára.
Nú veit ég að þú ert komin í fangið á langafa sem tók vel á móti þér og ég finn að þér líður vel. Þú kvaddir okkur alltaf með hlýju orðunum „Elsku hjartans ástardraumur“ og kveð ég þig með sömu orðum.
Takk fyrir allt, elsku hjartans ástardraumur.
Silja Rós.