Bikarmeistarar Vals fóru illa með Íslands- og deildarmeistara FH þegar liðin áttust við í toppslag í 16. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur vann að lokum með sjö mörkum, 33:26.
Spennan magnast í toppbaráttunni þar sem FH er áfram á toppnum en nú með 23 stig og Valur er í fjórða sæti með 22 stig. Fram er í öðru sæti með 23 stig og Afturelding í þriðja sæti með 22 stig.
Valur var yfir, 16:14, að loknum fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik hertu heimamenn tökin, komust mest níu mörkum yfir og unnu að lokum sanngjarnan sigur.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Val. Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot í markinu.
Hjá FH var Ásbjörn Friðriksson markahæstur með sex mörk, öll úr vítaköstum. Daníel Freyr Andrésson varði 12 skot í markinu.