Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Stöðugt er dregið úr fjölda þeirra hreindýra sem leyft er að veiða haust hvert og er hreindýrakvótinn á komandi hausti um helmingur þess sem hann var árið 2020. Kvótinn í haust verður 665 dýr, en var 1.325 dýr haustið 2020. Er minnkun veiðikvótans rakin til fækkunar hreindýra af ókunnum ástæðum.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tilkynnti sl. fimmtudag um veiðiheimildir á komandi hausti og verður leyft að veiða 135 hreindýrum færra en sl. ár og stafar það af áframhaldandi fækkun í stofninum, sem mögulega er vegna ofveiði og ofmats á stofnstærðinni.
Haustið 2024 var leyfð veiði á 800 dýrum, 397 kúm og 403 törfum, sem var 101 dýri færra en haustið 2023 þegar kvótinn var 901 dýr. Það var 120 dýrum færra en haustið 2022 þegar kvótinn var 1.021 dýr. Það ár hafði og fækkað veiðileyfum frá fyrra ári, en haustið 2021 var kvótinn 1.220 dýr, sem var minnkun frá árinu á undan, þegar leyfð var veiði á 1.325 hreindýrum.
Viðsnúningur verður í ár hvað varðar hlutfall kúa og tarfa, tarfar eru nú umtalsvert stærri hluti kvótans en verið hefur undanfarin ár. Árið 2024 var hlutfallið nánast jafnt, munaði einungis að heimilt var að veiða sex tarfa umfram kýr. Hin árin voru kýr alltaf stærri hluti kvótans og munaði mestu árið 2020 þegar kýrnar voru 285 fleiri en tarfarnir í veiðikvótanum.
Veiðitímabil tarfa er frá 15. júlí til 15. september en kúa frá 1. ágúst til 20. september. Eru veiðimenn hvattir til þess að hlífa mylkum kúm svo að draga megi úr áhrifum veiðanna á hreinkálfana. Þá er bannað að veiða veturgamla tarfa.
Veiðisvæðin eru níu talsins og verð veiðileyfa hið sama á þeim öllum; 231.600 krónur fyrir tarf og 132.000 fyrir kú og nemur hækkunin 20% frá fyrra ári. Kvótinn er breytilegur eftir svæðum, flest dýr má veiða á svæði 7 og næst flest á svæði 1.
„Þetta er eðlilegt, dýrunum hefur fækkað svo mikið að það er ekki inneign fyrir meiri kvóta,“ segir Sigurður Aðalsteinsson sem hefur verið leiðsögumaður veiðimanna á hreindýraslóð svo árum skiptir. Segir hann ákvörðun ráðherra um veiðikvóta í samræmi við tillögu Náttúrustofu og Félags hreindýraleiðsögumanna sem hafi aðstoðað við talningarnar sem byggt er á.